Ef Ríkisútvarpið er svo vel statt fjárhagslega að geta greitt fyrir bullpistla vestan frá Hollywood (Morgunþáttur Rásar tvö 27.02.2012) ætti það velja pistlahöfund sem talar íslensku. Þá þyrftu hlustendur ekki að heyra: … presens frá honum, hann vann fyrir besta leikara í aukahlutverki ( fékk verðlaun fyrir bestan leik í aukahlutverki), hann var ekkert að hrinda fólki um koll, klassí glæsileg ræða, klassí event, kódakkompaníið, hátíðin var mjög snögg að taka yfir (hátíðin stóð ekki mjög lengi). Svona mætti halda lengi áfram. Þessi pistill var öllum til skammar. Ef Ríkisútvarpið telur það hlutverk sitt að miðla svona efni ( annað er að segja fréttir af því hverjir hlutu Óskarsverðlaunin í ár, ekkert að því) þá á að velja pistlahöfund sem getur talað við okkur skammlaust.
Það orkar tvímælis þegar nafn kvikmyndarinnar The Help er þýtt Hjálpin eins og gert var í Ríkisútvarpinu (27.02.2012). Nær lagi væri að segja Húshjálpin eða Vinnukonan.
Molaskrifar þiggur ekki greiðslur fyrir þessi skrif og birtir ekki auglýsingar á vefsíðu sinni. Hann er sinn eigin herra og engum háður í þessum skrifum. Nýlega var frá því greint hver/hverjir greiða kunnum bloggara, sem sumir kalla álitsgjafa, laun. Auðvitað verða útrásarvíkingar að hafa fólk á launum til að skjalla sig og verja þegar við á. Það er ofur skiljanlegt. Allt slíkt á að vera opinbert þannig að þeir sem lesanviti hver greiðir þeim sem mundar pennann. Lesendur eiga heimtingu á að vita hver er á mála hjá hverjum.
Í sjónvarpsfréttum (27.02.2012) var rætt um hvort þjónustumiðstöð fyrir olíuleit á drekasvæðinu svonefnda yrði á Íslandi eða Jan Mayen. Á Jan Mayen væri frumstæð flugbraut. Rétt er það. Þar geta Herkúles flutningavélar lent en aðeins í góðu veðri og góðu skyggni. Á malarbrautinni eru tvær bungur. Þessvegna kalla Norðmenn flugvöllinn Jan Maynsfield. Segið þið svo að Norðmenn hafi ekki húmor!
Í fréttum Stöðvar tvö var sagt í inngangi að frétt að olíuverð hefði hækkað skarplega. Þetta er greinilega hrátt úr ensku, oil prices have risen sharply. Í sjálfri fréttinni hafði fréttamaður þetta rétt og talaði um mikla hækkun olíuverðs.
Undarlega var tekið til orða í sexfréttum Ríkisútvarps (27.02.2012) þegar sagt var frá vélarvana skemmtiferðaskipi á Indlandshafi. Sagt var frá útgerð skipsins sem einnig gerir út skemmtiferðaskipið Costa Concordia sem liggur á hliðinni undan strönd Toscana á Ítalíu. Ekki er hægt að tala um að skip sem liggur á hliðinni á strandstað sé gert út ! Bogi Ágústsson lagfærði þetta ágætlega í sjöfréttum sjónvarps. Hann talaði um útgerðarfélagið, sem til skamms tíma hefði gertút skemmtiferðaskipið Costa Concordia.
Meðan Ríkissjónvarpið á mánudagskvöldi bauð upp á boltaleiki, blóðsugur og drauga var gott að geta horft á upptöku úr NRK2 frá kvöldinu áður, Il Trovatore Verdis í Metropolitan óperunni. Mögnuð sýning.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar