«

»

Molar um málfar og miðla 865

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (19.03.2012) var sagt að minnsta kosti fimm sinnum um úrslit forkosninga Repúblikana á Puerto Rico að Mitt Romney hefði sigrað stórt. Ekki fellir Molaskrifari sig við þetta orðalag. Finnst af því enskukeimur, óvandaður meira að segja. Betur var þetta orðað á mbl.is sama dag en þar var sagt að Mitt Romney hefði unnið stórsigur.

Danska sjónvarpið DR2 sýndi í gærkveldi (20.03.2012) 90 mínútna langa bandaríska heimildamynd um Bobby Fischer. Skyldu stjórnendur Ríkissjónvarpsins í Efstaleiti nokkuð hafa frétt af þessari mynd ?

Í undirfyrirsögn í Morgunblaðinu (19.03.2012) segir um fyrirhugað hótel við Reykjavíkurhöfn að það muni innihalda 270 herbergi. Hótel innihalda ekki herbergi. Herbergi eru í hótelum. Í sama blaði er fyrirsögn á Staksteinadálki: Kunna ekki aura sinna tal. Málvenja er fremur að tala um að vita ekki aura sinna tal, vita ekki hve auðugur maður er.

Af eyjan.is (19.03.2012): Áhrif gengislánadóms Hæstaréttar í febrúar hefur umtalsvert meiri áhrif en búist var við í fyrstu. Arionbanki telur að endurgreiðslur fyrir heimila og fyrirtækja í formi endurgreiðsla og lækkunar skulda leiði til aukinnar einkaneyslu og um leið lægra gengi krónunnar. Ekki verður annað sagt en þessi skrif flokkist undir hreina snilld ! Auðskilið og ljóst, ekki satt?

Nokkur orð um morgunþátt Rásar tvö (19.03.2012), – enn einu sinni . Einn þriggja umsjónarmanna talaði um feisbúkk færslu. Molaskrifari leggur til að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins mælist til þess að ekki sé talað um feisbúkk, í Ríkisútvarpinu heldur fésbók, sem er ágætis íslenska. Það er alveg óþarfi að festa feisbúkk slettuna í málinu. Gísla Einarssyni sem jafnan vandar málfar sitt varð það á í pistli sínum þennan morgun að tala um að versla jakkaföt eða jólaskraut. Við kaupum jakkaföt. Verslum ekki jakkaföt. Og svo enn einu sinni: Búðir loka ekki. Búðum er lokað. Það var aftur á móti gott hjá Gísla að tala um einhverskonar útsöluverslun á Korputorgi þegar hann líkast til átti við verslunina sem segist heita Outlet upp á amerísku.
Gaman var að heyra í Yrsu Sigurðardóttur frá Beijing þar sem hún talaði um norræna glæpasagnahefð á bókaþingi sem kennt var við Bókaorminn. Það er raunar heiti bestu bókabúðarinnar í Beijing þar sem bækur á ensku um Kína eru á boðstólum. Þar er líka skemmtilegt kaffihús, bókakaffi. Auðvitað kom Yrsa líka við hjá Toby klæðskera þar sem hún sá mynd af Össuri Skarphéðinssyni. Toby er einskonar hirðskraddari Íslendinga sem heimsækja Beijing. Orðið vandamál er ekki til í hans huga. Alveg sama um hvað var beðið og hve fyrirvarinn var skammur. Alltaf sagði Toby: Ekkert mál, – no problem. Og allt stóðst.
Svo var ósköp að heyra í ágætum pistli Kristins R. Ólafssonar frá Madrid hve nánasarlegir Portúgalar eru í launamálum við forseta sinn. Það er nú eitthvað annað en hjá okkur. Íslenska þjóðin gerir miklu betur við Ólaf Ragnar Grímsson en Portúgalar gera við forseta sinn. Enda segir forseti okkar við hvert tækifæri sem gefst og við alla erlenda fjölmiðlamenn sem á vegi hans verða að Íslendingar séu öllum þjóðum fremri á öllum sviðum. Mikið eigum við gott, – að eiga svona forseta, á ég við.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Haukur Jónasson skrifar:

    Enda kom fram í þínum eigin pistli að þetta hefði verið í morgunþætti Rásar tvö, svo rithátturinn er frá þér sjálfum kominn.

  2. Eiður skrifar:

    Engin regla er án undantekninga. Annað hvort skrifa menn Facebook eða fésbók, ekki feisbúkk.

  3. Haukur Jónasson skrifar:

    Nei, ekki útúrsnúningur, réttmæt ábending sem ég er sammála. Sérnöfn og vörumerki á ekki að þýða.

  4. Eiður skrifar:

    Útúrsnúningur, Bergsteinn.

  5. Bergsteinn Sigurðssom skrifar:

    Sæll Eiður.

    Facebook er ekki sletta, heldur nafn síðunnar og ekkert athugavert að kalla hana því nafni. Þýðir þú kannski nöfn allra bíltegunda og segir Tááta í stað Toyota?

    Með kveðju
    Bergsteinn Sigurðsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>