Molavin sendi eftirfarandi (19.03.2012): ,,Ég er hissa á því að fólk sem skrifar undir fullu nafni noti ekki aðgengileg leiðréttingarforrit til þess að koma í veg fyrir augljósar villur – og til þess að læra af því í leiðinni. En sumir hinnar galvösku kynslóðar láta ekkert aftra sér. Allir aðrir fjölmiðlar höfðu nákvæmlega sömu þýðingu en skrifuðu hana rétt”. Molaskrifara tókst ekki af afrita skjáskot sem fylgdi þessum línum, en í fyrirsögn og frétt á DV var sagt að Karen Millen ætlaði ekki að una sér hvíldar fyrr en … Átti að vera: .. unna sér hvíldar.
Sagt var í fréttum Stöðvar tvö (19.03.2012) að Reykjavíkurborg hefði lagt af stað með umgangsmikið verkefni. Verkefnið er að telja kanínur í borgarlandinu. Molaskrifara finnst orka tvímælis að tala um að borgin sé að leggja af stað með verkefni, þótt ákveðið hafi verið að telja kanínur í Reykjavík.
Sennilega hefur Bónus sjaldan fengið betri auglýsingu en þegar gerður varð samanburður á verði í fríhöfninni í Keflavík og í Bónus. Bónus kom betur út. Bónus er billegari eins og sagt er í Bónusauglýsingum í Færeyjum. Það er ekki nýtt fyrirbæri að ódýrara sé að kaupa sælgæti í Bónus en í fríhöfninni. Það sagði flugmaður Molaskrifara fyrir einum fimmtán árum. Sem sagt ekki nýtt að Bónus bjóði besta verðið.
Í fréttum Stöðvar tvö (19.03.2012) var sagt að talið væri að um 200 manns væru á útigangi í Reykjavík. Molaskrifari er vanur því að þegar talað er um að vera á útigangi sé yfirleitt átt við hross, en vissulega er talað um útigangsfólk. Heimilislaust fólk. Hefði ekki mátt segja að talið væri að um 200 manns væru á vergangi í Reykjavík?
Í fréttum Ríkissjónvarps (19.03.2012) var talað um laun fjármálafyrirtækja. Átt var við laun starfsmanna hjá fjármálafyrirtækjum.
Það er alveg séríslenskt sjónvarpssiðferði þegar umsjónarmaður hins sjálfhverfa vikulega Andralandsþáttar leikur aðalhlutverk í langri kaffiauglýsingu sem sýnd var rétt fyrir fréttir (19.03.2012) í Ríkissjónvarpinu. Raunar verður ekki betur séð en þetta sé skýrt brot á þeim siðareglum sem Ríkisútvarpið hefur sjálft sett. En til þess eru reglur að brjóta þær , ekki satt? Sá hinn sami hefur fastan þátt í morgunútvarpi Rásar tvö. Þar er talað um hljóstir, ekki hljómsveitir og bið í síma heitir að hanga á hóldinu. Til hvers er Ríkisútvarpið með málfarsráðunaut? Svo les maður í Fréttablaðinu (21.03.2012) að Ríkissjónvarpið ætli að gera þennan starfsmann sinn út af örkinni til að gera sjónvarpsþætti á slóðum Vestur-Íslendinga þar sem hann segist eiga skyldmenni. Hann segir orðrétt í Fréttablaðinu um skyldmenni sín vestra: ,Pabbi segir að þau séu ógeðsleg en amma segir að þau séu fín. Það er engin ástæða til að greiðendur nauðungaráskriftar Ríkisútvarpsins kosti ferðalag piltsins vestur um haf til að heimsækja ættmenni sín. Sjónvarpið ætti hinsvegar sjá sóma sinn í að gera alvöru heimildaþætti um Vestur-Íslendinga eða Kanadamenn sem eru af íslensku bergi brotnir. Til þess er þessi dagskrárgerðarmaður ekki rétti maðurinn, sé horft til þess sem hann hefur frá sér sent bæði í sjónvarpi og útvarpi. Getur hann ekki bara haldið áfram að gera þætti um sjálfan sig á Íslandi? Eru þeir sem stjórna dagskrárgerðinni í Efstaleiti búnir að tapa áttum og algjörlega heillum horfnir? Hvers eiga frændur okkar og vinir vestra að gjalda? Hversvegna á að kasta takmörkuðu dagskrárfé á glæ með þessum hætti ? Óskiljanlegt.
Danska sjónvarpið DR2 sýnir um þessar mundir fjögurra mynda flokk, heimildamyndir um seinni heimsstyrjöldina Frá Hitler til Hiroshima. Sá þáttur sem Molaskrifari sá gaf gott yfirlit yfir stríðið í Evrópu þótt að vísu væri stiklað á stóru. Það virðist nánast á bannlista Ríkissjónvarpsins að fræða okkur um sögu heimsstyrjaldanna eða pólitíska þróun í Evrópu á síðustu öld.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
10 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
25/03/2012 at 23:39 (UTC 0)
Rangur maður á röngum stað. Ambögurnar eru óteljandi. Hann reyndi einu sinni að taka viðtal við mig í beinni útsendingu án þess að ég vissi að um útsendingu væri að ræða. Hringdi heim til mín eða í farsímann. Það er þverbrot á öllum mannasiðum dagskrárgerðarmanna.
Axel skrifar:
25/03/2012 at 22:26 (UTC 0)
Virkir morgnar hafa leitt í ljós að Andri er fyndinn náungi og góður þáttastjórnandi. Hann er einkar vel að sér um tónlist og gerir fólkið í kringum sig skemmtilegra. Hann er ekki sjálfhverfur. Hann er einlægur. Hann er ekki ákáflega illa máli farinn. En þarf auðvitað að vanda sig eins og aðrir fjölmiðlamenn.
Eiður skrifar:
25/03/2012 at 11:47 (UTC 0)
Það á aldrei að vera meginhlutverk dagskrárgerðarmanna að gera þætti um sjálfa sig. Útvarpsþátturinn Virkir morgnar hefur að auki leitt í ljós að maðurinn er ákaflega illa máli farinn, að ekki sé nú sterkar að orði kveðið.Hann ætti að fást við eitthvað annað en dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið.
Axel skrifar:
25/03/2012 at 11:21 (UTC 0)
Ha! Má ekki gera myndefni á Vestur-Íslendingaslóðum nema í ákveðnu formi heimildamynda sem þú gefur þér að sé rétt og best? Það hefur verið gert ljósvakaefni um Vestur-Íslendinga sem fellur örugglega að þínum smekk. Af hverju má ekki prófa eitthvað annað líka? Til dæmis þátt í léttum, alþýðlegum dúr um líf íbúa á Vestur-Íslendingaslóðum? Er Kanda heilagt land? Landið sem alið hefur marga af kunnustu grínistum heimsins. Já úff, hvers á þetta vesalings fólk að gjalda. Þau bíða örugglega með kvíðahnút i maganum eftir nýjasta útspili íslenska ríkisútvarpsins.
Þú gefur þér að þættir Andra séu lélegir. Þú gefur þér að hann sé lélegur fjölmiðlamaður. En það er margt sem bendir til að svo sé ekki. Ekki bara áhorfstölur. Einnig viðurkenning fagfólks og gagnrýni fjölmiðla. Auðvitað er ekki hægt að gera öllum til hæfis. Auðvitað má spyrja sig hvort Andri sé að taka sér of mikið í hendur. En sú árátta Eiðs að gefa sér að eigin smekkur sé ævinlega mælistika heimsins, er pínu þreytt. Sjálfhverft kannski.
Varðandi meinta samkynhneigð Andra og ástarsamband hans við Hallgrím Oddsson, get ég upplýst, að þetta var harla saklaust og ómerkilegt grín úr útvarpsþætti. Af einhverri ástæðu sá blaðamaður Fréttablaðsins ástæðu til að skrifa um þetta frétt. Stundum eru fjölmiðlar einfaldlega ekki að leysa lífsgátuna. Og Andri var ekki að auglýsa kynhneigð sína. Við getum öll andað léttar.
Eiður skrifar:
24/03/2012 at 14:02 (UTC 0)
Það getur vel verið að þeir séu til en ég sætti mig hins vegar illa við að Ríkisútvarpið sé með svona lélegt og sjálfhverft efni og að þessi sami maður skuli jafnframt leika aðalhlutverk í sjónvarpsauglýsingum sem er skýrt brot á reglum Ríkisútvarpsins. Svo er sjálfhverfan slík að hann auglýsir kynhneigð sína í fjölmiðlum. Okkur kemur nákvæmlega ekkert við hvort maðurinn hneigist til karla eða kvenna. Heldur er þetta ósmekklegt.Og hvers eiga Vestur-Íslendingar að gjalda ef Ríkisútvarpið ætlar að kosta manninn vestur um haf þar sem hann segist ætla að heimsækja ættingja sína?
Axel skrifar:
24/03/2012 at 13:02 (UTC 0)
Almenningur diggar Andra. Sættu þig við það.
Eiður skrifar:
22/03/2012 at 14:31 (UTC 0)
Vissulega er mikið til í því sem þú segir, Bergsteinn.
Eiður skrifar:
22/03/2012 at 14:31 (UTC 0)
Vegna skorts á öðru betra, trúi ég. Mér finnst þetta vera sjálfhverf fimmaura útgáfa af hinum ágæta þætti Landanum og öldungis fráleitt að senda þann sem um þetta sér til að gera þætti á slóðum Vestur – Íslendinga , – þótt hann eigi frændfólk þar. Þekkjandi til þar um slóðir finnst það óbærileg tilhugsun. Það ágæta fólk á ekki svo slæma sendingu skilið.
viðar ingólfsson skrifar:
22/03/2012 at 12:01 (UTC 0)
Þú ættir kanski að skoða þetta.
ANDRALAND er greinilega að slá í gegn hjá landanum. Tæplega 50% uppsafnað áhorf og 44% meðaláhorf!
Þetta er sennilega besta útkoman á fimmtudagskvöldi frá því að rafrænar mælingar hófust (stórviðburðir undanskildir).
LANDINN fær einnig frábæra útkomu og FROZEN PLANET er skammt undan í vinsældum. Einu vonbrigðin (áhorfslega) eru laugardagskvöldin á RÚV.
Bergsteinn Sigurðssom skrifar:
22/03/2012 at 10:15 (UTC 0)
Mikið er traust Molavinar á leiðréttingarforritum. Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi að leiðréttingarforrit leiðrétta aðeins ritvillur en ekki ranga orðanotkun. Þar sem sögnin að una er sannarlega til myndi leiðréttingaforritið ekki amast við því, þótt það ætti ekki við.
Leiðréttingarforrit myndi benda á ef einhver skrifaði „sljúkingur“ í staðinn fyrir „sjúklingur“ en gerði engar athugasemdir ef misritað væri „kjúklingur“ í stað „sjúklingur“ – sem er þó mun bagalegri villa.