«

»

Molar um málfar og miðla 897

 

Í Sunnudagsmogga (29.04.2012) Skrifar Gísli Sigurðsson í Tungutalkspistli að það sé ekki lengur vinsæl iðja að hlusta eftir málvillum í fjölmiðlum. Það má rétt vera, en samt eru þeir ótrúlega margir sem láta sig varða hvernig íslensk tunga er notuð í fjölmiðlum. Viðbrögð við Molaskrifum eru til marks um það. Víðar en hér á landi fylgist almenningum með skrifum fjölmiðla.. Einar sendi Molum þessa ágætu ábendingu ((28.04.2012): ,,Hrakandi málfar blaðamanna, og athugasemdir lesenda við það, er ekki bundið við íslenska fjölmiðla.  Æ oftar sé ég til dæmis í breskum netfjölmiðlum að athugasemdir lesenda beinast að rangri og vanhugsaðri málnotkun blaðamanna, við góðar undirtektir annarra lesenda. Á fréttamiðlinum Yahoo World News UK í gær var m.a. sagt: „Obama is currently on the campaign trail as he bids to be re-elected for a second time.” (þ.e. endurkjörinn í annað sinn). Lesandi frá Halifax í Englandi gerði athugasemd: ,,Re-elected for a second time’ would be a third time!…I don’t think so…” (,,endurkjörinn í annað sinn” þá yrði hann kjörinn í þriðja sinn! … ég held ekki). Umsvifalaust bætti annar lesandi við: “Well spotted“. Lesandi frá Cincinnati í Bandaríkjunum bætti við: „Good catch.“ Molaskrifari þakkar Einari þessa ágætu sendingu.

 

Stundum er fréttastofa Ríkisútvarpsins fljót með fréttirnar. Þannig var í hádeginu á föstudag (27.04.2012) er sagt var frá umsátursástandi við hús skammt frá Tottenham Court Road í London þar sem talið var að maður með sprengju héldi fjórum í gíslingu. Þessi frétt náði ekki inn í fréttayfirlit BBC One klukkan eitt, en sagt var frá málinu seinna í fréttatímanum. Betur fór en á horfðist því maðurinn gafst upp, gaf sig fram við lögreglu og enginn slasaðist.

 

Í fréttayfirliti Stöðvar tvö (27.04.2012) var réttilega talað um Lögmannafélag Íslands. Fréttamaður talaði hinsvegar um Lögfræðifélag Íslands, – sem er ekki til.

 

Skrifað er á mbl.is (28.04.2012): Öll gólfefni séu ónýt og flestar hurðar í húsinu. Fleirtalan af hurð er hurðir, – ekki hurðar. Málfjólur hafa verið með ólíkindum margar á mbl.is að undanförnu, – hvað sem veldur.

 

Þegar íþróttafréttir hefjast á Stöð tvö og fréttaþulur skipar áhorfendum að fara ekki langt fer Molaskrifari yfirleitt að horfa á norrænu stöðvarnar. Þannig sá hann lokakafla klukkutíma þáttar á NRK2 um píanistann og húmoristann heimsfræga Victor Borge. Þannig þættir eiga ekki upp á pallborðið hjá Ríkissjónvarpinu né heldur heimildamyndaflokkurinn sem sama stöð er að sýna úr seinni heimsstyrjöld og heitir í lauslegri þýðingu Ókunn örlög.

 

Stundum er hægt að hafa gaman af fólki sem kallar sig kynjafræðinga og viðrar vísdóm sinn í fjölmiðlum. Molaskrifari hafði gaman af að hlusta á konu sem skartar þessu starfsheiti og kom fram í fréttum Stöðvar tvö (27.04.2012). Hún hafði helst áhyggjur af því hvernig væri hægt að gera deildir  verslana sem selja skrúfjárn og skiptilykla meira aðlaðandi fyrir konur! Margt er manna bölið eins og þar stendur.

 

Fyrir kemur að Molaskrifari horfir á alþingisrásina í sjónvarpinu, en staldrar oftast stutt við. Oftar en ekki er Ásbjörn Óttarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks í innihaldslausum andsvörum við Framsóknarmenn eða flokksbræður sína. Í dag var þingmaður sama flokks Guðlaugur Þór Þórðarson með pólitíska flokkun og bókhald yfir þá sem komið höfðu fram í fréttaskýringaþætti Ríkisútvarpsins  Speglinum. Þótti honum halla þar mjög á sinn flokk. Þetta minnti Molaskrifara á þegar  Ríkisútvarpið byrjaði að segja frá umræðum á Alþingi 1963 eða 1964. Áður hafði aðeins verið lesið upp úr þingskjölum. Þá  fór einn af þingmönnum Framsóknar, Skúli Guðmundsson, í ræðustól eins og Guðlaugur Þór og  hafði setið með skeiðklukku við útvarpið og tiltók nákvæmlega í hve margar mínútur og sekúndur sagt hefði verið frá ræðum þingmanna úr mismunandi flokkum. Skúla þótti sem mjög hallaði á sinn flokk. Það er sem sé ekkert nýtt undir sólinni, eins og þar stendur.  

 

Það er ekki metnaðinum fyrir að fara hjá þeim sem bera ábyrgð á nafni tískuvöruverslunar fyrir konur ,  sem auglýsir í Sunnudagsmogga (29.04.2012) en verslunin er kölluð Möst.C. Afbökun á ensku orðunum must see, verð að sjá. Umfram allt er þetta hallærislegt og ber ekki vott um hugmyndaauðgi.

Fín er ný auglýsing frá DAS þar sem Ómar Ragnarsson er í öndvegi. Allt annað en auglýsingarnar frá  happadrætti SÍBS (með fullri virðingu fyrir þeim gagnmerku samtökum) sem eru einhvernveginn fullar af  væmni og depurð. Auglýsingar Ferðafélags Íslands eru sömuleiðis til fyrirmyndar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

 

 

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt er það. En ekki veit í til þess að neitt sé til sem heitir Lögfæðifélag Íslands.

  2. Hrannar Magnússon skrifar:

    Lögfræðingar eru ekki allir lögmenn. http://www.logfraedingafelag.is/

  3. Eiður skrifar:

    Allt er þetta rétt, Snjólaug. Molaskrifari játar að hafa ekki verið sjálfum sér samkvæmur og stundum skrifað happdrætti og stundum happadrætti. Sem er ekki gott !

  4. Snjólaug Bragadóttir skrifar:

    Þótt stóru happdrættin heiti „Happdrætti“ segja og skrifa flestið „happadrætti“ nú orðið, molaskrifari líka. Ég á erfitt með að sætta mig við þessa breytingu og líka á orðinu „ungabarn“. En það eru fleiri aukastafir sem hafa laumast inn í orð. Ég hef í nokkra mánuði heyrt fréttamenn tala um „Laugarveg“ og Rómarborg“. Það getur varla talist eðlileg málþróun að breyta sérnöfnum.

  5. Sæmundur Bjarnason skrifar:

    Það er til gleraugnaverslun sem heitir „Ég C“. Brandara af þessu tagi er yfirleitt ekki hægt að margnota. Skyr.is er t.d. hallærislegt. Einu sinni var Jón Múli Árnason að lesa í ríkisútvarpið auglýsingu þar sem „Hi-C“ kom fyrir. Hann sagði „hi sé“ en hikaði dálítið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>