Nokkrum sinnum hefur verið nefnt hér óskiljanlegt dálæti fjölmiðlamanna á orðunum fjölskyldumeðlimur og áhafnarmeðlimur. Af vef Ríkisútvarpsins (04.08.2012): Clifton Truman Daniel, elsta barnabarn bandaríska forsetans Harry Truman, varð í gær fyrsti fjölskyldumeðlimur Truman-fjölskyldunnar til vera viðstaddur minningarathöfn í japönsku borginni Hiroshima … Fjölskyldumeðlimur fjölskyldunnar! Hversvegna ekki að nota hið ágæta orð afkomandi í stað þess að tala um fjölskyldumeðlim? Enn komu áhafnarmeðlimir við sögu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (06.08.2012) þegar sagt var að einungis þrír áhafnarmeðlimir hafi bjargast er Þjóðverjar sökktu breska herskipinu Hood á Grænlandssundi í seinni heimsstyrjöld.
Fyrir gamlan blaðamenn ( og fyrirsagnasmið) var skemmtilegt að fylgjast með fréttaþul Sky sjónvarpsstöðvarinnar á laugardagsmorgni (04.08.2012) sem brá upp forsíðufyrirsögnum bresku stórblaðanna þar sem ólympíufréttir voru í fyrirrúmi. Það er list að semja góðar fyrirsagnir og það kunna breskir blaðamenn. Sá sem samdi fyrirsögnina: Fékk gat á hausinn og tennur brotnuðu eftir hnefahögg (visir.is 05.08.2012) fær hinsvegar engin verðlaun. Sumarliði eða fréttabarn á ferð nema hvort tveggja sé.
Það var dálítið undarleg og óvenjuleg framsetning í fréttum Ríkissjónvarps þegar fjallað var um hallarekstur tónlistarhússins Hörpu. Reiknað var út að tapið næmi 50 þúsund krónum á klukkustund. Hefur þetta verið venja í fréttum Ríkissjónvarps, eða er verið reyna að sýna og sanna fyrir áhorfendum að Harpa sé illa rekið óþarfahús, eða monthús eins og það var einhversstaðar orðað? Þegar rekstur Ríkisútvarpsins gekk sem verst var þá tíundað í fréttum Ríkisútvarpsins hve mikið tapið væri á klukkustund? Ekki minnist Molaskrifari þess. Hvernig væri að fréttastofan tíundaði til dæmis hve mikið skattgreiðendur á Íslandi greiða til landbúnaðarkerfisins á klukkustund, eða mínútu?
Einstaklega illa unnin og illa skrifuð frétt á mbl.is (03.08.2012). http://www.mbl.is/frettir/erlent/2012/08/03/vill_rettlaeti_fyrir_latinn_son/ Þarna hefur líklega , eins og Bjarni Sigtryggsson sagði á fésbók um aðra frétt í öðrum miðli, ,,enginn fullorðinn verið á vakt”.
Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (05.08.2012) af að því er virðist óhjákvæmilegum óeirðum liðinnar nætur var tekið svo til orða að manni hefði verið hótað með hnífi eða hníf. Molaskrifaði hefði talið eðlilegra að tala um að ógna með hnífi. Hann hótaði mér lífláti og ógnaði mér með hnífi. Mbl.is ræður betur við þetta en þar sagði um þennan atburð: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók þrjá einstaklinga í gærkvöldi sem hótuðu leigubílstjóra og ógnuðu honum með hnífi. Fyrirsögnin á dv.is var: Ógnuðu ökumannnumi með hníf, – jafngilt eru þágufallið hníf og hnífi. Gott.
Líklega er Ríkissjónvarpið ein örfárra sjónvarpsstöðva þar sem auglýstir dagskrártímar skipta engu máli. Á sunnudagskvöld (05.08.2012) hófst sýning þáttarins Glæstra vona (Great Expectations) meira en 20 mínútum eftir auglýstan tíma. Engin skýring , engin afsökun. Hér- hikk- á Rúv konuröddinn sem kynnir dagskrána lét sem ekkert væri. Líklega eru dagskrárkynningar teknar upp löngu fyrirfram. Óboðleg ókurteisi.
Ekkert lát er á enskum framburði á heiti borgarinnar Damaskus í fréttum Ríkisútvarpsins. Í tíufréttum (05.08.2012) var kerfisbundið sagt: /da´maskus/. Í íslensku er áhersla á fyrsta atkvæði. Það er ekkert mjög flókið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Linda skrifar:
07/08/2012 at 22:18 (UTC 0)
…… Rúv konuröddinn sem kynnir… 🙂
Eiður skrifar:
07/08/2012 at 10:28 (UTC 0)
Kærar þakkir, Kristján.
Kristján skrifar:
07/08/2012 at 09:59 (UTC 0)
Þetta birtist á RUV.is eftir árekstur í Lækjargötu: „Það var rútu fyrirtækisins Iceland Excursions sem var keyrt aftan á rútuna“.
Athyglisvert með Damaskus. Sama má segja um framburð á % (prósent). Fjölmargir Íslendingar leggja ekki lengur áherslu á fyrsta atkvæði og segja því pró´sent.