Stjórn Íbúasamtaka miðborgarinnar gagnrýna, var sagt í fréttayfirliti fyrir og eftir fréttir og í upphafi fréttar í hádegisfréttum Ríkisútvarps (04.08.2012). Hér hefði átt að segja: Stjórn Íbúasamtaka miðborgarinnar gagnrýnir … Stjórn ganrýna ekki. Stjórn gagnrýnir.
Þeim bregst svo sannarlega ekki bogalistin þeim sem færa okkur fréttirnar á visir.is. Búnir að gefa skautbúningnum nýtt nafn: http://www.visir.is/dorrit-klaeddist-skrautbuningi-fra-1938/article/2012120809663
Nú hefur enginn fullorðinn verið á vaktinni eins og svo ágætlega hefur verið sagt. Skrautbúningur skal það vera.
Molalesandi kom því á framfæri við skrifara að fréttirnar í kvöld (07.08.2012) hefðu verið einstakar þar sem ekki var minnst á 1)nauðganir,2)eiturlyf, 3) barsmíðar, 4)innbrot ; og megi semsagt teljast nýjung núorðið, að ekkert þessara efna sé í fréttum, en reyndar yfirleitt líka fremst. Hann bætir við: ,,Svo finnst mér að fossinn sem Ómar myndaði ( úr Steinholtsjökli ?) megi vel heita Ómur, úr því að syngur vel í honum” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Nýr vegur kom við sögu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (05.08.20129. Þar var sagt frá umferðarslysi við Skeiðarveg, en þess ekki getið við hverskonar skeið vegurinn er kenndur. En fréttamaður sagði okkur að betur fór á en horfðist ! Hér var reyndar sagt frá umferðarslysi við Skeiðaveg þar sem betur fór en á horfðist. Í þessum sama fréttatíma var okkur hlustendum sagt frá skotfimismanni, skyttu, eða manni sem keppti í skotfimi.
Hversvegna birtir Ríkisútvarpið (05.08.2012) ekki heiti skemmtistaðar á Akureyri þar sem reglur voru brotnar og þar sem ráðist var á lögreglumann? Hverjum er verið að hlífa? Dólgahlífð er landlæg í íslenskum fjölmiðlum. Það má ekki eini sinni birta númer bíla sem lagt hefur verið ólöglega. Fáránlegt.
Ný orðatiltæki og nýmæli í notkun gróinna orða eru stöðugt að sjá dagsins ljós. Í stað þess að skemmta sér hafa menn nú gaman. Þetta virðist hafa byrjað sem barnamál en heyrist nú einnig hjá fullorðnum. Sértu sammála viðmælanda þínum þá segir þú: Nákvæmlega, eða bætir um betur og segir algjörlega. Þetta hljómar nú í tíma og ótíma.
Mótshaldarar eiga vart orð yfir því hvað vel hafi gengið um helgina, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (05.08.2012). Hér hefði verið betra að segja: Mótshaldarar eiga vart orð yfir hve vel hefur gengið….
Uppgröfturinn á Alþingishússreitnum var settur á ís, – sagði fréttamaður Stöðvar tvö (05.08.2012). Hrá ensk þýðing. Uppgreftri var hætt um tíma, hefði til dæmis mátt segja. Í sama fréttatíma var talað um reiðhjólamenn, – hvað er að orðinu hjólreiðamaður?
Í kynningarmynd, annars ágætri, frá Umferðarstofu (05.08.2012) er talað um tjón sem gæti numið tugum milljónum. Ætti að vera tugum milljóna. Þetta ætti að færa til betri vegar.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (06.08.2012) var sagt: Makríllinn er að koma inn í íslenska lögsögu í (júní) …. Hversvegna ekki: Makríllinn kemur inn í íslenska lögsögu í …. Af hverju makríllinn er að koma ?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Jón skrifar:
08/08/2012 at 17:07 (UTC 0)
Þú ættir að hlusta á bókmenntaþáttinn Skorninga sem sendur var út síðdegis og sagður í umsjá Brynhildar Heiðar- og Ómarsdóttur. Ég hlustaði á hann með hléum og fannst þar óvenju mikið af málblómum. Þegar umjónarkonan sagði „hafði ollið“ slökkti ég á henni. Einhvern veginn finnst mér að þetta eigi ekki heima í bókmenntaþætti á Rás 1.
Eiður skrifar:
08/08/2012 at 12:14 (UTC 0)
Þakka ábendinguna, Björn. Í beygingalýsingu íslensks máls á vef Árnastofnunar er bæði að finna eignarfallsmyndina uppgrefti svo og uppgreftri.
Björn Baldursson skrifar:
08/08/2012 at 10:21 (UTC 0)
Í Molum nr. 875 stendur orðið uppgreftri en á vitaskuld að vera uppgrefti.