Næst stærsta þjóðhátíðin ,segir í fyrirsögn á mbl.is (06.08.2012). Í fréttinni kemur fram að átt er við næst fjölmennustu þjóðhátíðina.
Viðvaningur á helgarvaktinni á mbl.is (06.08.2012): Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er talið að um sé að ræða bjarnarmóður og þrír bjarnahúnar sem hafa sést á svæðinu að undanförnu. Hér hefði átt að segja: … er talið að um séu að ræða birnu og þrjá húna sem sést hafa á svæðinu að undanförnu. Er þá ótalið ýmislegt annað sem var athugavert við þessi fréttaskrif.
Sautján ára stúlka sótti sér hjálpar, var sagt í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (06.08.2012). Rétt hefði verið að tala um að stúlkan hafi leitað sér hjálpar eða sótt sér hjálp.
Molaskrifari fylgdist með úrslitum 100 metra spretthlaups karla á OL á BBC. Sá svo þennan sama atburð endursýndan í Ríkissjónvarpinu (06.08.2012). Það var eiginlega hálf óhugnanlegt að heyra gargið í íslenska þulnum.
Hröktust undan ísingu á Halamiðum segir í millifyrirsögn í frétt á mbl.is um góðan afla Höfrungs III. (06.08.2012): Í fréttinni segir: Það hefur gengið mjög vel. Það var ísing að trufla okkur í upphafi túrs. Það kom hafís yfir veiðisvæðið og við hröktumst undan honum á Halamiðum, vestur af landinu … Molaskrifara þykir afar ósennilegt að ísing hafi verið á Halamiðum í byrjun ágúst og hallast að því að blaðamaður mbl.is hafi ekki hugmynd um hvað ísing sé. Sá sem skrifaði fréttina er líklega að rugla saman ísreki og ísingu.
Úr mbl.is (07.08.2012): Það var byggt eftir að upp voru teknir nýir staðlar í Atlantshafsbandalagsins sem sögðu til um að stjórnstöðvar ættu að vera í hertum byggingum sem gætu staðir af sér árásir. Hvað eru hertar byggingar? Er hér ekki á ferðinni enn ein aulaþýðingin úr ensku? Átt er við sérstaklega styrktar byggingar, traustbyggð hús, gerð til að standa af sér sprengjuárásir.
Stundum eru höfundar blaðagreina svolítið fyndnir , – alveg óvart. Til dæmis höfundur greinar í Morgunblaðinu (07.08.2012) sem hefst á þessum orðum: Væntanlega hefur það ekki farið framhjá neinum að þessa dagana fara Ólympíuleikarnir fram í London. ! Nei , – það hefur örugglega ekki farið framhjá neinum.
Enn um notkun forsetninga. Af mbl.is (07.08.2012): Skemmtiferðaskipið Celebrity Eclipse kom til hafnar í Skarfabakka um hádegisbilið í dag, … Molaskrifari er á því að hér hefði verið betra að segja: Skemmtiferðaskipið ( eða lystiskipið) Celebrity Eclipse kom til hafnar í Reykjavík í dag og lagðist við Skarfabakka í Sundahöfn. Skipið kom ekki til hafnar í Skarfabakka , enda er Skarfabakki ekki höfn heldur viðlegukantur eða bryggja. – Þá er æ oftar talað um að skip sem koma í höfn eða eru í höfn séu við höfn. Í fyrirsögn þessarar fréttar segir: 300 metra fley við höfnina. Að mati Molaskrifara er við höfn ekki sama og í höfn.
713.000 lítrar láku út, segir í fyrirsögn á mbl.is (07.08.2012) Fréttin var um áfengissölu fyrir verslunarmannahelgina. Hvaða kjánaskapur er hér á ferðinni? Eða á þetta að vera fyndið?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
09/08/2012 at 16:39 (UTC 0)
Því miður er ég hræddur um að þetta sé að festast í málinu. Ríkisútvarpið gerir sitt til þess.
Nína skrifar:
09/08/2012 at 14:20 (UTC 0)
Heyrði einhver þáttastjórnanda á Rás 2 Rúv ( um s.l. verslunarmannahelgi) tala um að það væri töluverð umferð á leiðinni til Selfossar? Þetta er í annað skipti með stuttu millibili sem ég heyri fólk tala svona. Áður ung kona sem var að tala um leiðina á milli Flúðar og Gullfossar. Er þetta málfar komið til að vera?