Málglöggur lesandi sendi eftirfarandi athugasemd. ,,Í fréttum RÚV í bítið í morgun (7.8. ’12) var forsætisráðherra Sýrlands sagður hafa ,,hlaupist undan merkjum“ þegar hann hætti í ógnarstjórn Assads forseta. Þar sem afsögn ráðherrans felur í sér að hann vill ekki lengur bera ábyrgð á borgarastyrjöldinni í landinu og standa að því að brytja lífið úr sýrlenskum borgurum á umrætt orðalag ekki við. Orðalagið er neikvætt og lýsir háðulegri framgöngu en ekki lofsverðri. Nær hefði því verið að segja t.d. að forsætisráðherrann hefði sagt af sér eða sagt skilið við Assad og stjórn hans.” Þetta er hárrétt ábending. Molaskrifari er hjartanlega sammála.
Það er (vond) regla í Ríkissjónvarpinu að við fáum snubbóttar fréttir klukkan sex og að seinni fréttir klukkan tíu byrji 15-20 mínútum of seint meðan Ólympíuleikarnir fara fram í London. Enginn skjáborði þar sem áhorfendum er sagt er frá röskun á dagskrá. Bogi Ágústsson biðst ævinlega afsökunar á seinkun þegar hann les seinni fréttir og ekki er staðið við auglýstan tíma, en alveg er undir hælinn lagt hvort aðrir þulir gera það. Molaskrifari þekkir enga sjónvarpsstöð sem kemur svona fram við viðskiptavini sína. Fréttum NRK seinkaði í gærkveldi um hálftíma vegna handboltaleiks kvennaliða Noregs og Suður Kóreu. Margisinnis var sagt frá seinkuninni á skjáborða.
Þetta er upphaf fréttar á mbl.is (07.08.2012): Hermaður Atlantshafsbandalagsins sem féll í Afganistan í dag af mönnum í búningi afganska hersins var Bandaríkjamaður. Hér er fréttin í heild. Þar er mörgu ábótvant. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2012/08/07/arasir_graenna_gegn_blaum_aukast/ Viðvaningur hefur skrifað og enginn lesið yfir. Fyrirsögnin : Árásir ,,grænna gegn bláum”aukast, – er óskiljanleg.
Ekki hljómar það rétt í eyrum Molaskrifara að tala um að vegir sem orðnir eru lélegir vegna þess að viðhald hefur setið á hakanum séu hrörlegir eins og sagt var í fréttum Stöðvar tvö (07.08.2012). Ekkert er að því að tala um hrörlegan kofa,,- einnig er sagt um þann sem elli kerling hefur leikið grátt að hann sé orðinn hálfhrörlegur. Hrörlegir vegir hljómar ekki rétt.
Í stað þess að vera á varðbergi, sýna aðgát, aðgæslu, eru nú allir á tánum. Skólameistari sem rætt var í fréttum (07.08.2012) var á tánum , sýndi aðgát varðandi útgjöld skólans. Molaskrifari velti því fyrir sér hvað hans góði íslenskukennari í landsprófi og þriðja bekk M.R. dr. Guðrún Pálína Helgadóttir hefði sagt um þetta orðalag. Líklega hefði hún ekki verið hrifin.
Molavin sendi þetta (07.08.2012): ,,Lögreglan þarf oft að senda frá sér fréttir um sorgleg og viðkvæm mál. Þá fer bezt á því að tala einfalt og skýrt mál en flýja ekki inn í skúmaskot stofnanamálfars, sem einkennist af uppskrúfuðu orðalagi og torskildum hugtökum. Hér er dæmi frá liðinni helgi: „Á daglegum samráðsfundi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum með viðbragðsaðilum var farið yfir verkferla sem tengdust andlátinu…“
Hugtökin ,,viðbragðsaðilar“ og ,,verkferlar“ tilheyra hvorugt daglegu máli. Auk þess er það beinlínis rangt að segja að andlát fylgi einhverjum verkferlum. Það hefðu lífgunaraðgerðir hins vegar hugsanlega gert.
Mbl.is lét nægja að birta orðrétt kafla úr fréttatilkynningu lögreglunnar. Betra hefði verið ef blaðamaður hefði sagt frá þessu á mannamáli, og sagt t.d.: ,,Það var mat lögreglu að við lífgunartilraunir hafi verið farið eftir settum reglum…” “
Molaskrifari þakkar sendinguna. Allt er þetta satt og rétt sem Molavin segir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
11/08/2012 at 00:03 (UTC 0)
Takk fyrir þetta, Ragnar. Þú heyrðir rétt. Blessuð stúlkan var svo yfir sig hrifin af Íslandi að hún var heillum horfin. Makalaust!
Ragnar Böðvarsson skrifar:
10/08/2012 at 22:48 (UTC 0)
Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi var sagt frá elskendum sem trúlofuðust uppi á Eyjafjallajökli. Líklega var átt við að þeir hefðu sett upp hringana þar. Samt var það ekki þetta orðaval sem aðallega vakti undrun mína, heldur hitt hvernig ósvikin hrifning þeirra á landinu var látin hljóða á íslensku. Þau voru svo heilluð af fegurð landsins að þau voru „heillum horfin“.
Getur annars verið að ég hafi heyrt þetta rétt? Ég nenni ekki að fletta því upp í tölvunni.
Þakkir fyrir góða þætti.
Eiður skrifar:
10/08/2012 at 21:35 (UTC 0)
Kærar þakkir fyrir þetta, Bergsteinn.
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
10/08/2012 at 15:02 (UTC 0)
Til er orðasambandið að berjast undir merkjum einhvers, með öðrum orðum að berjast í nafni einhvers. Orðatiltækið er tekið úr hernaðarmáli því merki vísar til gunnfána. Ætli það sé ekki óhætt að segja forsætisráðherra Sýrlands hafi lengst af barist undir merkjum ógnarstjórnar Assads. Því er ekkert óeðlilegt við það að segja að hann hafi hlaupist undan þessum sömu merkjum. Ég hvet molaskrifara og molavin til að fletta þessu orðatiltæki upp í Merg málsins. Þar stendur meðal annars: „Líkingin vísar til þess þegar hermaður víkst undan skyldum sínum, gerist liðhlaupi.“ Og það má til sanns vegar færa um forsætisráðherra Sýrlands -burtséð frá málstaðnum.