Óttalegt barnamál var talað í Heimskringlu Stöðvar tvö (08.08.2012) þegar sagt var frá eldgosi á Nýja Sjálandi: … talið er að eldgosið hafi sprengt þrjú ný göt á fjallið. Hér hefði mátt segja að farið væri að gjósa á þremur nýjum stöðum á fjallinu eða að þrír nýir gígar hefðu myndast í fjallinu. Það var heldur ekki vel að orði komist í sama fréttatíma þegar sagt var um höfnina í Shanghai: … uppskipunarhöfn borgarinnar er ein sú fjölsóttasta heimi. Hér hefði til dæmis mátt segja: Meiri skipaumferð er um höfnina í Shanghai en flestar aðrar hafnir í veröldinni.
Í Morgunblaðinu (08.08.2012) segir: … en maðurinn sem er meðlimur í áhöfn skipsins hafði fengið hjartaáfall. Víða koma meðlimir við sögu. Hér hefði verið fínt að segja: Maðurinn, sem er í áhöfn skipsins, eða: Skipverji hafði fengið hjartaáfall.
Í morgunþætti Rásar tvö (08.08.2012) þegar kynnt var efni dagblaðanna varð umsjónarmanni tíðrætt um frétt á forsíðu Morgunblaðsins um að framkvæmdir væru hafnar við Vaðlaheiðargöng. Umsjónarmaður hefur sjálfsagt þóst vera að leiðrétta Morgunblaðið því hann tönnlaðist á jarðgangnagerð og jarðgangnamunna. Morgunblaðið var með þetta rétt. Í undirfyrirsögn við forsíðufrétt er talað um jarðgangamunna. Eignarfallið af orðinu göng er ganga. Eignarfallið af orðinu göngur (fjárleitir) er gangna, sbr. gangnamenn. Hvar er nú málfarsráðunautur? Til hvers er fréttastjóri? Það ætti með réttu að verara hans hlutverk að sjá til þess að málfar í fréttum sé boðlegt Lögð er áhersla á að hann beri alla ábyrgð á öllum fréttatímum þegar nafn hans er birt í lok frétta efst á lista þeirra sem helst hafa komið að vinnslu hvers fréttatíma.
Af mbl.is (08.08.2012): Vindar eru miklir og þrátt fyrir … Vindar eru miklir, þýðir líklega að það sé hvasst.
Lesandi benti Molaskrifara á að hlusta á bókmenntaþáttinn Skorninga á Rás eitt og segir: ,,Þátturinn er sagður í umsjá Brynhildar Heiðar- og Ómarsdóttur. Ég hlustaði á hann í dag (08.08.2012) með hléum og fannst þar óvenju mikið af málblómum. Þegar umsjónarkonan sagði „hafði ollið“ slökkti ég á henni. Einhvern veginn finnst mér að þetta eigi ekki heima í bókmenntaþætti á Rás 1.” Því er Molaskrifari sammála, en metnaður Ríkisútvarpsins til að vanda málfar er ekki lengur til staðar.
Annar lesandi þessar línur (09.08.2012): ,,Fá ár eru síðan ég heyrði orðið,,stríðsherra“ í fyrsta skipti – og notkun þess orð kemur mér alltaf jafnmikið á óvart. Ég má fullyrða að orðið ,,stríðsherra“ sé fyrst og fremst bundið við fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Í fréttum fyrir stuttu sagði Rúv frá því að fórnarlömb stórglæpamannsins og óþokkans Thomas Lubanga, sem eitt sinn stýrði Austur-Kongo, gætu fengið bætur fyrir að vera neydd til að gegna hermennsku á barnsaldri. Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag komst að þessari niðurstöðu.
Í frétt Rúv er þessi maður titlaður ,,stríðsherra“ og það er mér óskiljanlegt. Maðurinn er ekkert annað en réttur og sléttur stríðsglæpamaður, óþokki og rakinn dullusokkur og ber að tala um hann sem slíkan.”
Molaskrifari þakkar bréfið. Hann hefur alltaf talið að orðið ,,stríðsherra” væri tilraun til að þýða enska heitið warlord á íslensku. Það hefur verið notað um herforingja sem ná undir sig landssvæðum eða héruðum, hafa ribbaldaherlið í þjónustu sinni og fara um rænandi og myrðandi. Tímabilið 1916 til 1928 í Kína er kennt við stríðsherra eða warlords, en herforingjaklíkur skiptu þá landinu milli sín og kúguðu landsfólkið. Molaskrifari hefur reyndar ekki betri tillögu um þýðingu á þessu orði og telur það hafa fest sig í sessi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
11/08/2012 at 17:58 (UTC 0)
Hárrétt, Björn. Vona að hann hafi ekki mjög marga nemendur.
Björn Baldursson skrifar:
11/08/2012 at 16:52 (UTC 0)
Nafnið átti auðvitað að vera Björn.
Bj0rn skrifar:
11/08/2012 at 16:47 (UTC 0)
Maður nokkur er kynntur sem íslenskukennari í Gautaborg. Hann skrifar blogg í DV. Hann skrifar svo: Margir sem ég hef talað við reka í rogastans. Rétt mál er: Einhvern rekur í rogastans.