«

»

Molar um málfar og miðla 983

Það sem kalla mætti nefnifallssýki ágerist mjög í fjölmiðlum. Hér er dæmi af pressan.is (15.08.2012) Vegfarendur í Williamsburg í Bandaríkjunum brá heldur betur í brún þegar þeir sáu lík fljóta niður eftir Susqueanna ánni. Vegfarendur brá ekki í brún. Vegfarendum brá í brún, var brugðið. Önnur villa úr sömu frétt: Fólkið trúðu vart sínum eigin augum … Hér hefði átt að standa: Fólkið trúði vart sínum eigin augu,. Hér skortir nokkuð á fréttaskrifari hafi vald á grundvallaratriðum íslenskrar málfræði.

 

Þýðingarvilla var í fréttum Ríkissjónvarps (15.08.2012) hjá annars prýðilegum fréttamanni þegar sagt var frá deilum Japana og Kínverja um umdeildar eyjar í Austur Kínahafi. Yasukuni shrine er ekki Yasukuni skrínið heldur Yasukonu grafreiturinn eða helgireiturinn.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (15.08.2012) var sagt: Fjöldi manns hlaupa til styrktar þeim. Rétt hefði verið að segja: Fjöldi manns hleypur til styrktar þeim.

 

Nýr þulur Ríkisútvarps sem m.a. les auglýsingar þarf tilsögn. Það er hvimleitt að hlusta á auglýsingalestur þar sem allar auglýsingar enda á lækkandi tóni. Þannig framsögn er framandi á íslensku. Þetta er hægt að lagfæra með réttri tilsögn. Rétt eins og hægt er að laga það að íþróttafréttamanni hættir til að skrúfa  setningar upp í lokin.

 

Lesandi sendi eftirfarandi ábendingu (15.08.2012): ,,Mig langar að benda á eitt sem fer alveg einstaklega í taugarnar á mér og það er hvað fólk er farið að skrifa upp á amerísku allskonar orð með stórum staf inni í setningum t.d. frétt í um
að Landsbankinn væri að bjóða einhverjum í Laxveiði „. Þetta er réttmæt ábending. Vaxandi tilhneiging er til að nota stóra stafi, upphafsstafi, þar sem þeir ekki eiga heima skv. íslenskum ritreglum. Sjá fyrirsögn fréttar á dv.is: http://www.dv.is/frettir/2012/8/15/landsbankinn-bydur-stjornanda-i-laxveidi/

Réttmæt ábending.

 

Í frétt Ríkissjónvarps (15.08.2012) um kornskurð í Hörgárdal var hvað eftir annað talað um að skríða og skrið. Hvenær fór akurinn að skríða hjá ykkur? Molaskrifari er alls ekki viss um að allir hlustendur/horfendur hafi skilið hvað hér var átt við. Með skriði er átt við að axið komi í ljós. Það er mikilvægt í fréttum að nota orð og orðalag sem vænta má að allir skilji.

 

Molaskrifari undrast að íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins skuli tala ensku (15.08.2012) við sænskan þjálfara landsliðsins í knattspyrnu.

 

Oft er áhugavert efni í morgunþætti Rásar tvö en þar þarf að bæta vinnubrögð. Greint var frá því (16.08.2012) að rússneskri farþegaþotu hefði verið stefnt til lendingar á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar. Fréttamaður var fenginn að hljóðnemanum. Honum varð aðeins fótaskortur á tungunni eins og stundum er sagt. Hann sagði að þegar sprengjuhótunin barst hefði vélinni verið stefnt til Keflavíkur sem snöggvast. Þotunni var samstundis stefnt til Keflavíkur. Umsjónarmenn morgunþáttar ræddu svo við fréttamann (og spurðu fyrst um það sem fréttamaðurinn var nýbúinn að segja!) . Skömmu síðar var spurt hvort vitað væri hvort þetta væri raunveruleg sprengjuhótun! Ekki mikil hugsun á bak við það. Einnig var okkur sagt að þetta mundi ekki hafa áhrif á innanlandsflug. Flestir vita að innanlandsflug fer um Reykjavíkurflugvöll, – ekki Keflavíkurflugvöll.

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

9 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Gæti lagast þegar röðin kemur að mér í augasteinaskipti, – hvenær sem það nú verður.

  2. Valur skrifar:

    Það að hafa ekki lært vélritun afsakar ekki að lesa ekki yfir textann áður en maður sendir athugasemdina frá sér. Það tekur yfrleitt ekki langan tíma, sérstaklega ekki í stuttum athugasemdum einsog hér.

  3. Eiður skrifar:

    Það er líklega vegna þess að Eiður gekk í MR áður en þar var kennd vélritun. Hann hefði átt að fara í Vélritunarskólann.

  4. Valur skrifar:

    Særún einsog þú sérð þá er Eiður oft ekki barnana bestur þegar kemur að villum, þá aðallega klaufalegum innsláttarvillum.

  5. Særún skrifar:

    Takk fyrir svarið. -U villan fór framhjá mér þar sem augun einblíndu á aðra villu: …trúði ekki sínum eigin augu… Þarf vart að útskýra þá villu.

    Með bestu kveðju Særún

  6. Eiður skrifar:

    Fólkið trúði, ekki , fólkið trúðu. Menn trúðu … Fólk trúiði á álfa …. Hélt að þetta þyrtti ekki að skýra.

  7. Særún Ástþórsdóttir skrifar:

    Sæll Eiður,
    gætirðu útskýrt nánar þessa athugasemd hér fyrir neðan:

    Önnur villa úr sömu frétt: Fólkið trúðu vart sínum eigin augum … Hér hefði átt að standa: Fólkið trúði vart sínum eigin augu,. Hér skortir nokkuð á fréttaskrifari hafi vald á grundvallaratriðum íslenskrar málfræði.

    Mér dettur helst í hug að setningarnar hafi víxlast því ég á erfitt með að sjá að síðara dæmið sé rétt en hið fyrra rangt?

    Með bestu kveðju
    Særún

  8. Eiður skrifar:

    Þakka þér ábendinguna, Trausti. Málfar á þessu sviði er reyndar ekki mín sterka hlið. En málfarið á sykur greininni er hinsvegar ekki upp á marga fiska!

  9. Trausti Harðarson skrifar:

    Varðandi kornskurðinn í Hörgárdal er það helst að segja að það er KORNIÐ sem skríður, en ekki akurinn. Í því felst villan, svo öllu sé nú haldið til haga.

    Hefurðu nokkuð skoðað þetta hérna Eiður?
    http://hallgeir.blog.is/blog/hallgeir/entry/1253581/
    Ekki dettur mér í hug að mótmæla efni greinarinnar, enda er þetta margsannað á vísindalegan hátt. Flestar sannanirnar hafa þó verið þaggaðar niður vegna hinna gríðarlegu efnahagslegu hagsmuna allra þeirra sem að sykurframleiðslu standa. Þó er þetta kennt í lífeðlisfræðinni, enda ekki annað hægt, þar sem engin lífeðlisfræðileg leið er fyrir mannslíkamann að búa til líkamsfitu án tilkomu sykurs. Norðmenn eru líklega lengst komnir í almennri viðurkenningu á þessarri staðreynd.
    Það sem fer fyrir brjóstið á mér er hins vegar málfar greinarinnar, sem ég kýs að hafa ekki frekari orð um. Sjón er sögu ríkari!

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>