Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (18.08.2012) var sagt frá sumarbústaðarbruna í Reykholti, annar bústaður var í hættu, en slökkviliðið dældi vatni á svæðið og tókst að bjarga bústaðnum. Eða eins og mbl.is segir: Fram kemur í fréttinni að nærliggjandi sumarbústaður hafi um tíma verið í hættu en slökkviliðsmenn hafi brugðist skjótt við eftir að þeir komu á svæðið og dælt vatni á svæðið. Það var og.
Af mbl.is (19.08.2012): Brasilískur byggingarvinnumaður jafnar sig nú eftir skurðaðgerð þar sem læknar fjarlægðu um 1,8 metra langa járnstöng úr höfði hans. Greinilega ekki höfuðsmár maður sem þarna kom við sögu. Byggingarvinnumaður er orð sem Molaskrifari minnist ekki að hafa áður heyrt.
Tónleikar halda áfram að vefjast fyrir sumum fjölmiðlamönnum …. þau léku á þremur tónleikum í gærkveldi, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö (19.08.2012). Þulur átti að tala um þrenna tónleika eins og fréttamaður Ríkisútvarpsins réttilega gerði. Við þetta er svo því að bæta að í morgunþætti Útvarps Sögu (20.08.2012) var vitnað í blað þar sem talað var um þrenna eða ferna tónleika, en umsjónarmaður talaði í sömu andrá um þrjá eða fjóra tónleika! – Í þessum sama fréttatíma Stöðvar tvö var talað um STÓRleikarann Russel Crowe sem hér hefur dvalist við að leika í STÓRmyndinni um Nóa. Já, STÓRT skal það vera!
Hversvegna þarf að sýna einn af dagskrárgerðarmönnum Ríkisútvarpsins þambandi bjór í kynningu á nýjum matreiðsluþætti í Ríkisjónvarpinu? Dulbúin bjórauglýsing?
Af mbl.is (19.08.2012): Erich Honecker, leiðtogi Austur-Þýskalands, borðaði með opinn munninn, drakk vestur-þýskan bjór, og heimtaði að maturinn sinn væri eldaður eftir nákvæmum fyrirmælum. Borðaði með opinn munninn! Merkilegt.
Forseti Íslands hefur séð þjóðinni fyrir ókeypis skemmtan að undanförnu með öllu bullinu um handaband eða handabönd á Keflavíkurflugvelli og tilfærslu valds. Alveg makalaust en bráðskemmtilegt! Líklega er þó ekki hlegið mikið á Bessastöðum.
Vonandi er það ekki til merkis um móralinn á Morgunblaðinu að maður sem setið hefur í fangelsi fyrir að misfara með fé almennings skuli fá heila opnu með litmyndum til að guma af lögbrotum sínum í Skálholti þar sem hann einnig hefur farið höndum um fjármuni almennings. Í opnugreininni hvetur hann lesendur Morgunblaðsis til að láta sig hafa meira fé og gefur upp bankareikningsnúmer. Hér er verið að tala um kofabyggingu alþingismannsins Árna Johnsens við kirkjuvegginn í Skálholti.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar