Molavin sendi eftirfarandi (14.09.2012): Morgunblaðsfrétt 14.9.12 hefst á þessum orðum:,,Lömb, sem föst voru í snjó í Hamraheiði neðan og sunnan við Mælifellshnjúk í Skagafirði, voru étin lifandi af tófum. Lömbin gátu sig hvergi hreyft, tófan át af þeim andlitin og í einu tilfelli var lærið étið af lambi.“ Þarna voru lömb étin af tófum og læri étin af lömbum. Þá bara eftir að spyrja sig; hver át hvern? – Eðlileg spurning. Þolmyndin er viðsjálverð.
Og hér er meira sem Molavin sendi (14.09.2012): ,,Hjónin Kate Middleton og William Bretaprins“ segir í upphafi fréttar á síðunni Vísir.is (14.9.12). Miðað við það hve mikið þessi sami fjölmiðill hefur fjallað um brezku konungsfjölskylduna mætti ætla að þeim, sem skrifa fréttir ætti að vera kunnugt um að Vilhjálmur prins ber nú titilinn Hertoginn af Cambridge og eiginkona hans, fyrrum Catherine Elizabeth „Kate“ Middleton heitir nú Catherine, Hertogaynja af Cambridge. Það er gömul og góð venja að íslenzka eftir mætti nöfn konungborinna. Ókunnugleiki og/eða kumpánaháttur einkenna því miður oft skrif íslenzkra fjölmiðla um konungsfjölskyldur. Á öllum virtari fjölmiðlum í heimi gilda vinnureglur, sem farið er eftir, um rithátt og málfar. Það er óþarfi að leggja sig eftir lágkúru, eins og til dæmis er að finna í þeim hluta Morgunblaðsins, sem með svo smekklegum hætti er kallaður ,,Smartland“ eða í samsvarandi dálkum Vísis. Þessi skrif rýra trúverðugleika miðlanna.” Satt er það og rétt Molavin.
Í fjögur fréttum Ríkisútvarps á sunnudegi (16.09.2012) Var í upphafi talað um forseta líbíska hersins. Í fréttinni voru hinsvegar ummælin sem vitnað var til eignuð forseta líbíska þingsins. Þetta var ekki leiðrétt. Í sömu frétt var talað um ræðismannaskrifstofu, átti að vera ræðismannsskrifstofa. Þá var í íþróttafréttum í sama fréttatíma sagt að staðan væri eitt núll fyrir Lundúnaliðinu. Molaskrifari er á því að hér hefði átt að segja að staðan væri eitt núll fyrir Lundúnaliðið. Eða … eitt núll Lundúnaliðinu í vil. Þarna skorti vandvirkni.
Af mbl.is (14.09.2012): Þessa dagana er Mercedes Benz að skjóta auglýsingu hér á landi af nýjum bíl fyrirtækisins sem fengið hefur nafnið CLA. Átt er við að á vegum Mercedes Benz bílaframleiðandans sé verið að kvikmynda nýja auglýsingu hér á landi um þessar mundir. Líklega hefur sá sem þetta skrifar hlustað of mikið á slúðurfréttaritara Rásar tvö í Los Angeles sem alltaf er að skjóta eitthvað þegar hún vinnur við myndatökur.
Maðurinn bankaði upp á Mýri (14.09.2012) var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps. Maðurinn bankaði upp á á Mýri.. Ýmislegt fleiri var sagt í þessum fréttatíma,sem orða hefði mátt betur, – til dæmis: Fimmtíu og átta prósent af frambjóðendum skilaði ekki … Betra hefði verið : .. skiluðu ekki. Og: Nærri sex af hverjum tíu á eftir að skila… Betra: Nærri sex af hverjum tíu eiga eftir að skila.
Í lok fréttanna í Ríkissjónvarpinu á föstudagskvöld (14.09.2012) var okkur sagt að næstu fréttir yrðu klukkan tíu í kvöld.. Seinni fréttir hafa aldrei verið á föstudagskvöldum í Ríkisjónvarpinu. Það er ekki gott þegar þulirnir tala hugsunarlaust til okkar af skjánum.
Það er um að gera að vinna sér hlutina létt og hagræða. Þessvegna tóku umsjónarmenn morgunþáttar Rásar tvö viðtal við umsjónarmenn hins morgunþáttarins á Rás tvö (14.09.2012) á föstudagsmorgni. Áður var búið að endurtaka aulafyndni úr gömlum þáttum. Það er líka hagræðing.
Það er léleg fjölmiðlun og skaðleg neytendum þar sem mörkin mást út milli auglýsinga, keypts og kostaðs efnis og frétta- og dagskrárefnis. Þetta gerist of oft á Rás tvö í Ríkisútvarpinu ( T.d. Virkir morgnar og Sirrý á sunnudagsmorgni). Í Útvarpi Sögu hafa þessi mörk aldrei verið til staðar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
17/09/2012 at 14:23 (UTC 0)
Satt segirðu! Varla hefðu þau komist ómeidd í gegnum hurðina. K kv ESG
Eiður skrifar:
17/09/2012 at 14:22 (UTC 0)
Þessi ritháttur, Líbía, er nú reyndar í samræmi við það sem stafsetningarorðabókin segir. Sjálfsagt er ég líka sekur um að skrifa Líbýa.
Haukur Kristinsson skrifar:
17/09/2012 at 12:41 (UTC 0)
Hvaða sérviska er það að skrifa Líbía, en ekki Líbýa?
Betra væri Libýa.
Sigurður Karlsson skrifar:
17/09/2012 at 10:40 (UTC 0)
Í frétt Ríkisútvarpsins (16.09.2012) um ferðafólk sem varð veðurteppt í skála Ferðafélags Akureyrar var sagt að það hefði „komist inn í skálann í gegnum ólæsta hurð“.
Úr því að hurðin var ólæst hefði kannski verið fyrirhafnarminna að fara inn um dyrnar en í gegnum hurðina.