Margt var mjög vel gert í söfnunarþættinum í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (14.09.2012). Það er meira en að segja það að koma svona þætti saman. Ragnhildur Steinunn og Felix Bergsson héldu vel utan um þetta. Sama er að segja um hlut þeirra Helga Seljan og Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur.
Landsmenn sýndu góðum málstað mikið örlæti og konurnar sem hrintu þessu í framkvæmd eiga mikinn heiður skilinn. Molaskrifara fannst þó afar ósmekklegt innslag þar sem leikarar léku foreldra langveiks barns. Það var einhvern veginn í hrópandi ósamræmi við allan þáttinn ,óskiljanlegt og algjörlega misheppnað. Hversvegna létu leikararnir hafa sig í þetta einstaklega ófyndna rugl?
Það var mikil ósvífni Ríkissjónvarpsins að sýna langa auglýsingu með dagskrárgerðarmanninum, starfsmanni Ríkisútvarpsins, Andra Frey Viðarssyni, rétt áður en söfnunarátakið hófst í gærkveldi. Andri þessi Freyr lék eitt af aðalhlutverkunum í söfnunarþættinum. Með þessu var Ríkissjónvarpið að tengja saman söfnunina og Gevaliakaffi. Þetta er skýrt brot á reglum sem Ríkisútvarpið sjálft hefur sett. Það má um það deila um hver er ósmekklegastur í þessu máli Andri Freyr Viðarsson, yfirmenn Ríkisútvarpsins eða kaffifyrirtækið Gevalia. Dagskrárgerðmenn sem annast fréttatengda þætti eiga ekki að vera í auglýsingum. Með því smækka þeir sig. Hvað sjáum við næst? Sigmar úr Kastljósinu að auglýsa súkkulaði eða súputeninga? Nei. Sigmar léti ekki hafa sig í slíkt.
Það var líklega haustið 1980 í San Fransisco að Molaskrifari fylgdist með svona söfnunarþætti í sjónvarpi Jerry Lewis Telethon þar sem gamanleikarinn víðfrægi safnaði fé til styrktar börnum með hrörnunarsjúkdóminn MDA. Þátturinn var jafnan sýndur um öll Bandaríkin sunnudagskvöldið fyrir verkalýðsdaginn sem er fyrsti mánudagur í september. Samtals var safnað nær 2,5 milljörðum dala í þessum þáttum allt frá 1966 fram á þessa öld. Heimkominn orðaði ég það í Útvarpsráði, að efnt yrði til svona söfnunar í sjónvarpssal fyrir verðugan málstað- en hugmyndin hlaut ekki hljómgrunn. Hennar tími var líklega ekki kominn. En nú er hann svo sannarlega kominn. 100 milljónir fyrir aðstöðu til hjálpar langveikum börnum og aðstandendum er glæsilegur árangur. Til hamingju með það.
Ambögur af Smartlandi mbl.is (13.09.2012): Eitthvað finnst Wilson Sigurður Gísli með sérstakan klæðaburð því undir myndinni stendur hvort einhver viti leiðina til Texas. Að vita leiðina til Texas ! Að rata til Texas. Hér skín enskan í gegn: Know the way to Texas. Google þýðingarvélin hefur ef til vill komið hér við sögu. Þýðingarvélin náði ekki að spilla fyrirsögninni. Þar var talað um að rata til Texas. Mikil ambögulind er Smartland á mbl.is.
Sambandsríkið Arkansas kom við sögu í fréttum Stöðvar tvö (12.09.2012). Fréttamaður talað ítrekað um [arkanSAS] en Logi Bergmann Eiðsson bar heiti ríkisins rétt fram [a:kanso]. Bogi Ágústsson var með þetta á hreinu í fréttum Ríkissjónvarpsins. Þetta er í rauninni ekki flókið og ekki erfitt. Þarf bara að kunna rétta framburðinn.
Glöggur maður hefur gaukað því að Molaskrifara að sennilega hafi Páll Magnússon útvarpsstjóri ekki verið að víkja að Ólafi Ragnari Grímssyni þegar hann í blaðagrein (Molar 1006) talaði um stjórnmálaforingja sem hefði kveinkað sér mjög undan umfjöllun Spaugstofunnar um sig. Páll hefði að líkindum verið að beina spjótum sínum að forvera Guðna í formannsembætti Framsóknarflokksins.
Það var gaman að kínversku heimildamyndinni sem Ríkissjónvarpið sýndi í vikunni (11.09.2012) , – ekki síst hafa þeir notið myndarinnar sem bæði hafa áhuga á matargerð og Kína. Í útsendingu var hinsvegar skorið aftan af myndinni, annaðhvort var þar á ferð klaufaskapur, útsendingarsubb eða ásetningur. Mjög undarlegt. Molaskrifari er stundum spurður hvort hann sakni einhvers eftir fjögurra ára dvöl í Kína? Já. Matarins og verðlagsins.
Hann var ekki upp á marga fiska fyrri þátturinn af tveimur sem Ríkissjónvarpið sýndi um lífeyrissjóði (10.09.2012). Umfjöllunin var fremur ruglingsleg, ómarkviss og val viðmælanda einkennilegt. Tók líklega mið af sérskoðunum stjórnandans. Athyglisverð voru ummæli Benedikts Jóhannessonar stærðfræðings um verðtrygginguna og krónuna. Hann veit sínu viti í þeim efnum. Þarna birtist einnig á skjánum ,,doktor í stofnanalegu atferli”. Merkileg grein. Á ýmsa lund hefði mátt verja takmörkuðu fé til dagskrárgerðar betur en með kaupum á þessum þætti eða þáttum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
15/09/2012 at 21:38 (UTC 0)
Ömurlegt, hallærislegt og húmorlaust.
Axel skrifar:
15/09/2012 at 21:28 (UTC 0)
Hvort grínið hafi verið fyndið má svo deila um. Sjálfum fannst mér þetta ekki sérstakt.
Axel skrifar:
15/09/2012 at 21:23 (UTC 0)
Af hverju mega leikarar ekki leika foreldra langveikra barna eins og hvað annað? Broddurinn í gríninu beindist að yfirborðsmennsku fjölmiðlafólks og var með engu móti móðgandi gagnvart langveikum börnum né foreldrum þeirra. Þeir sem hafa móðgast, hafa á sama tíma misskilið.
Eiður skrifar:
15/09/2012 at 17:02 (UTC 0)
Þökk fyrir þennan fróðleik ESG
HS skrifar:
15/09/2012 at 15:58 (UTC 0)
Raunar er það svo að á 19. öld var sett í lög í Arkansas að framburðurinn á nafni ríkisins skyldi vera á þennan hátt en ekki á sama hátt og Kansas þó að nöfnin séu af sama stofni. Af einhverjum ástæðum varð franski framburðurinn ofan á.