Börn verða utanvelta, var sagt í upphafi kynningar á ágætu söfnunarátaki í Ríkissjónvarpi á föstudagskvöld (14.09.2012). Þetta orðalag var reyndar notað oftar en einu sinni, – ef til vill vegna áhrifa frá orðinu utangátta. Molaskrifari hallast að því að hér hefði átt að segja utanveltu ekki utanvelta.
Gullkorn af Smartlandi mbl.is (13.09.2012): … og eins og sést á myndunum er hægt að fara í allar stellingar í þessum fötum. Greinilega mikið þarfaþing, fötin sem hér um ræðir.
Við förum á tónleikaferðalag, var sagt í dagskrárkynningu í Ríkisútvarpinu (14.09.2012) um sjónvarpsþátt þar sem fylgst er hinni frægu hljómsveit Of Monsters and Men. Við förum í ferðalag, erum á ferðalagi.
Nýlega hlustaði Molaskrifari stundarkorn (14.09.2012) á símaþátt stjórnlagaráðsmannsins og stjórnarformanns Útvarps Sögu ,Péturs Gunnlaugssonar. Hann hnakkreifst við einn af símavinum stöðvarinnar sem vogaði sér að hafa aðrar skoðanir á byggingu nýs Landspítala en þáttarstjórnandinn. – Ekki heyrði Molaskrifari betur en Pétur segði við viðmælanda sinn: Þú ert bara tittlingaskítssnati. Og bætti við: Þú átt að fara í málefnið ekki persónurnar ! Molaskrifari viðurkennir að hafa aldrei heyrt þetta orð áður.
Orðin varnarlega og sóknarlega hafa heltekið íþróttafréttamenn og þjálfara.
Úr frétt af visir.is (14.09.2012): „Ef við tökum ensku útgáfuna af Fimmtíu Gráum Skuggum þá hefur hún á síðustu fjórum dögum selt fleiri rafbækur en hörð eintök. Þá er einnig merkilegt að flestir þeir sem kaupa hana sem rafbók hafa verið karlmenn.“ Ekki þarf að taka fram að enska útgáfan hefur auðvitað ekki selt neitt!. Rafbækurnar í enskri útgáfu hafa selst betur en prentaðar bækur. Fréttin var merkt svona á netinu: http://visir.is/baekurnar-seljast-nu-i-gigabaetum—ekki-bilforum/article/2012120919317 !
Visir.is (15.09.2012): Bílvelta varð við Litlu Kaffistofuna um klukkan tvö í nótt. Ómar vinur minn Ragnarsson hefur tekið þetta orðalag fyrir á bloggi sínu, muni ég rétt. Bíll valt við Litlu Kaffistofuna.
Fyrrverandi forstjóri Krossins segir á dv.is ( 15.09.2012) um söfnuð sinn að þar hafi hann marga sigrana sigrað. Menn vinna sigra. Sigra. Sigra ekki sigra.
Molaskrifara finnst það ekki vera í góðu samræmi við íslenska málvenju að kalla sjómenn veiðimenn eins og gert var í kvöldfréttum Ríkisútvarps (15.09.2012). Heldur ekki að tala um sigurvegara riðilsins eins og gert var í sama fréttatíma. Eða að tala um að kindur borði mat, eins og sagt var í fréttum Stöðvar tvö (15.09.2012). Þar var sagt að kindur gætu lifað lengi grafnar i fönn án matar.
Og enn einu sinni kemur Skeiðarvegur við sögu í fréttum (mbl.is 15.09..2012): Þriðja slysið átti sér svo stað á Skeiðarvegi við Kertasmiðjuna um klukkutíma síðar. Skeiðavegur hefði þetta átt að vera. Skeiðavegur liggur um Skeiðin. Skeiðarvogur er gata í Reykjavík. Meira um staðarnöfn. Af mbl.is (17.09.2012), en þar segir frá jarðskjálftum í Eyjafjarðaráli eins og segir í fyrirsögn. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/09/17/jardskjalftar_i_eyjarfjardarali/
Hér hefði átt að tala um jarðskjálfta í Eyjafjarðarál ekki Eyjafjarðaráli.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
18/09/2012 at 23:30 (UTC 0)
Af vef Árnastofnunar, beygingalýsing íslensks nútímamáls:
án greinis með greini án greinis með greini
Nf. áll állinn Nf. álar álarnir
Þf. ál álinn Þf. ála álana
Þgf.ál álnum Þgf. álum álunum
Ef. áls álsins Ef. ála álanna
Magnús Bjarnason skrifar:
18/09/2012 at 22:30 (UTC 0)
Er ekki sammála um þessa beygingu á orðinu ál. Þgf. finnst mér vera áli í eðlilegu tali.
Eiður skrifar:
18/09/2012 at 10:07 (UTC 0)
Hún bregst ekki, Vigdís.
Björn S. Lárusson skrifar:
18/09/2012 at 09:33 (UTC 0)
Málsnillingurinn Vigdís Hauksdóttir sagði á Facebook síðu sinni að hún hefði verið í Skeiðárrétt. Það var leiðrétt nokkru síðar enda eru réttirnar réttnefndar Skeiðaréttir.