«

»

Molar um málfar XXIV

Vefvísir hefur tekið sérstöku ástfóstri við íslenska stúlku sem búsett er í Búlgaríu og birtir oft pistla þar sem orð hennar og gjörðir eru til umfjöllunar. Í dag er sagt frá þátttöku hennar í einhverskonar keppni og fylgja sex myndir af henni og unnustanum. Frásögnin er hrærigrautur af ensku og íslensku. Líklega er stúlkan búin að gleyma móðurmálinu að hluta, því samkvæmt frásögn blaðsins talar hún um „charity night“ og segist vera „nominated í over all flokki „. Þetta er vondur grautur og Vefvísi ekki til vegsauka.

Meira um slettur. Á leiðinni austur í Grímsnes í morgun sá ég, að við þjóðveg 1 líklega skammt austan við borgarmörkin hafði verið komið fyrir bíl með auglýsingaskiltum. Auglýsingar af þessu tagi munu vera ólöglegar. Á auglýsingaskiltunum stendur „Diggaðu Dew“,sem mér skilst að eigi að vera auglýsing fyrir svaladrykk. Þetta ætti að fjarlægja sem skjótast, – þó ekki væri nema vegna málfarsins. Slæmt væri ef við fengjum skiltaskóg meðfram vegum landsins þar sem móðurmálinu væri misþyrmt með þessum hætti. Lögreglan ekur áreiðanlega framhjá þessu lögbroti oft á dag.

Talað var um beitingu hryðjuverkalaga í Bretlandi gegn Íslandi í fréttatímum beggja sjónvarpsstöðva í kvöld. Í fréttum Stöðvar tvö sagði þulur ranglega , „vegna beitingu hryðjuverkalaga“. Hefði átt að vera vegna beitingar hryðjuverkalaga . Í sjónvarpsfréttum RÚV var réttilega talað um „að mótmæla beitingu hryðjuverkalaga“.

Framburður nokkurra  erlendra staðaheita hefur unnið sér  hefð í íslensku. Þannig  er um heiti borgarinnar Hull þar sem íslenskir  togarar og   bátar   seldu afla  forðum tíð. Í íslensku  hefur  borgin  jafnan verið kölluð Húll. Nú  eru íþróttafréttamenn allt í einu farnir að  tala um Höll. Mér  finnst að þrátt fyrir allt  eigum  við að halda íslenska framburðinum og kalla borgina Húll. En auðvitað er það álitamál.

Meira um framburð. Mikið  væri  gaman ef forystumenn Frjálslyndaflokksins hættu að  tala um   „Frálsdaflokkinn“. Jón Magnússon alþingismaður  bar nafn flokksins yfirleitt skýrt  fram , en hann hefur  nú flúið  flokkinn.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. doddý skrifar:

    ég hnaut einnig um þennan frjálsdaflokk um helgina. til margra ára höfðum við líka embætti sem oft var nefnt í talmáli fossæsráðherra. kv d

  2. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Kærar þakkir Beggi. Ég er kominn þangað þar sem ég þarf ekki á  neinum  velvilja  fjölmiðlafólks að halda. Úr  mínum nú helga steini  skrifa ég   nú út  og  suður  svo sem mér  sýnist.

    Rétt er  það að pistlum mínum er leitað  lúsa. Það er  bara  gott. Því  ég geri auðvitað mistök eins og allir  aðrir.

    Hinsvegar  hef ég lúmskt gaman af smæð  sumra  fjölmiðlunga. Í fréttaauka  Sjónvarps  ríkisins  sýndi Elín Hirst nýlega gamalt viðtal  frá í maí minnir mig  á árinu 1967. Þetta var fyrsta  viðtalið sem ég  tók fyrir  fréttastofu  sjónvarps. Ævinlega hefur  verið  sagt (  eins og  eðlilegt er)  þegar  sýnd hafa verið  gömul  viðtöl hverjir þar áttu hlut að máli. Elín lét þess  rækilega ógetið. Líklega hef ég  einhverju sinni  gagnrýnt hana og henni fallið það  miður vel.

    Þakka  þér orðin og  sömuleiðis  tilvitnunina. Nú stel ég henni frá þér !

  3. Beggi skrifar:

    Sammála hverju orði, Eiður.

    Íslendingar hafa – að mínu viti – lítið annað gert síðustu árin en stæla leikni sína í slæmri umgengni við móðurmálið og eru fyrir löngu orðnir að atvinnu-þykkskinnungum sem taka engri tamningu og hafa engan áhuga á því – annar hver maður talar og skrifar einsog sprokverskur táningur – hvort sem viðkomandi er 10 eða 60 ára. Sorglegast við stöðu íslenskunnar um þessar mundir er þó að öllum er svo til skítsama. Nú er í alvöru svo komið að 100 apar með ritvél væru líklegri til að skrifa vandaða íslensku en frónskir blaða- og auglýsingamenn (tala ekki um netblaðamenn). Vissulega eru til örfáar undantekningar, en þær eru svo fáar að hinir ágætu pennavíkingar kæmust fyrir í sardínudós.

    Það er því tilbreyting að rekast á smá málfarsflengingar á þessum síðustu og verstu, því núorðið þorir enginn að segja fjólupöbbunum og bögubósunum til syndanna af hættu við að fólk dæmi viðkomandi sem barlómskráku – eða finni villur í máli þeirra sjálfra (og ætla þannig að öllu sé jafnað út). Vissulega gera allir villur, en Íslendingar hafa forherst í sínum og gifst þeim.

    Vil enda þetta á að vitna í nóbelsverðlaunahöfundinn Derak Walcott – (stal þessu af netinu fyrir löngu):

    Ef maður býr í þjóðfélagi þar sem vont mál (og með vont mál á ég ekki við ósiðlegt mál, heldur klaufa-málfar) er talið gott og gilt, og ekki aðeins litið á það sem eðlilegan hlut, heldur leið til að tjá þjóðernisást (þannig að ef maður talar ekki vont mál er maður orðinn óvinur fólksins, því að allir eru farnir að tala vont mál) er skipan tungumálsins á fallandi fæti. Og hnignun málfræðinnar er skyld hnignun þjóðfélagsins, og áður en maður veit af er hver sá sem hefur einhverja hæfileika eða hefur einhvern metnað álitinn vera haldinn sýndarmennsku, því það er alltaf tilhneigingin að beygja slíkan mann til að vera einsog hinir“. (Sunday Express (Trinidad), 14 mars 1982)

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>