«

»

Molar um málfar og miðla 1017

Aðstandendur Kastljóssins eiga heiður skilinn fyrir að fletta ofan af Skýrr/Advania hneykslinu, sem verður ótrúlegra með hverjum deginum sem líður. Við erlendar sjónvarpsstöðvar mundu 15 til 20 manns eða þaðan af fleiri vinna að rannsókn og framsetningu svona máls. Það er eiginlega kraftaverk hvað fámennt starfslið Kastljóssins hér hefur gert til að fletta ofan af dæmalausri spillingu sem að vísu hefur lengi verið að vitorði manna sem þekkja til í tölvuheimi Íslands. Sleifarlag Ríkisendurskoðunar er vissulega ámælisvert en sökudólgurinn í málinu er Skýrr/Advania.

Molavin sendi eftirfarandi (23.09.2012): ,,Meðbyr Hollandes fellur“, segir í fyrirsögn fréttar á ruv.is (23.09.12). Fréttin hefst svo á þessum orðum:,,Mjög hefur dregið úr vinsældum Francois Hollandes Frakklandsforseta næstliðnar vikur…“
Það er tvennt við þetta, sem kemur mér á óvart og ég hef undirstrikað, en kann svo sem að vera rétt. Það er mjög algengt að nota myndlíkingar í frásögnum í íslenzku máli, en þá verða þær að falla að málvenju. Fellur meðbyr eða lægir hann? Og hvað er átt við með ,,næstliðnar“ vikur? ,,Liðnar vikur“ eru gott og auðskiljanlegt mál, eins o g,á liðnum árum.“ Ég kannast ekki við hitt.”. Þetta er Molaskrifara einnig framandi orðalag.
Og hér kemur meira sem Molavin sendi: (23.09.2012):,, ,,Nema hann sjá sæng sína útreidda..“ segir þingmaður í bloggi, og er ekki sá fyrsti sem ruglar hugtakinu,,að sjá sæng sína upp reidda,“ (komið úr dönsku: op redet sæng = uppbúið rúm). Oft má líka sjá menn skrifa: „að sjá sæng sína út breidda.“ Íslendingar nota mjög myndlíkingar í máli og þyrftu þá helzt að þekkja og skilja þau hugtök, sem þeir nota.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Þetta er af pressan.is (22.09.2012): Borghildur Guðmundsdóttir var gert að yfirgefa landið og mæta barnsföður sínum í forræðisdeilu fyrir bandarískum dómstól. Þeir sem svona skrifa hafa ekki mikla tilfinningu fyrir beygingakerfi tungunnar. Borghildi Guðmundsdóttur var gert að ….

Molalesandi spyr (22.09.2012): ,,http://www.kreditkort.is/kortin/fekort/ Þetta kreditkort er mikið auglýst þessa dagana. En orðið fékort virkar eitthvað svo vitlaust, ætti þetta ekki frekar að heita fjárkort?” . Molaskrifari er heldur ekki hrifinn af orðinu fékort. Hvað segja lesendur?

Konráð bendir (24.09.2012) á frétt sem visir.is birti: http://visir.is/schwarzenegger-vidurkennir-syndir-sinar-/article/2012120929528
Hann segir: ,,Nú fer mælirinn að verða fullur!:
,,..viðurkenndi hann fyrir Mariu Shriver, eiginkonu sinni, að húsfreyja þeirra hjóna hefði alið barn hans.“ Er húsfreyja þýðing á orðinu housemaid?” Það er heldur sennileg tilgáta, Konráð. Takk fyrir ábendinguna.

Sushistaðir breiðast út, segir í fyrirsögn á mbl.is (22.09,.2012) http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2012/09/22/sushistadir_breidast_ut/ Betra væri líklega að segja að þessum veitingastöðum fari fjölgandi eða sé að fjölga eins og segir í fréttinni.

Á föstudögum dynja slúður og slettupistlar frá Los Angeles á hlustendum morgunþáttar Rásar tvö. Nú eru hlustendur ekki lengur óhultir aðra daga. Á mánudagsmorgni (24.09.2012) dundi slettuhríðin á hlustendum frá Kyrrahafsströndinni. Þá var eitt af gullkornunum: Að spyrja flatt út ! Dómgreindarleysið í Efstaleitinu á sér ótrúlega margar birtingarmyndir.

Í fréttum Ríkissjónvarps var fjallað um fjárskaðana fyrir norðan (24.09.2012) og sagt að tjón bænda væri stórt. Talað er um stórtjón, en málvenja er að tala um mikið tjón ekki stórt tjón. Í sömu frétt sagði fréttamaður: … og hefur þurft að lóga eitthvað af því fé. Betra hefði verið að segja : … og hefur þurft að lóga, eða farga, einhverju af því fé.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Paul. Það hvarflaði að mér að þetta væri ekki alveg rétt, en þorði ekki að leiðrétta.

  2. Paul B Hansen skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég vil þakka fyrir molana þína og hef líklega lesið þá alla.
    Danska: Opredt seng, en á ekki að vera op redet sæng.( Hefur ekki sömu þýðingu á dönsku.) Sæng er dyne á dönsku.
    Annars hefur danskan breyzt svo mikið á seinni árum að mín danska (síðan 1950) er „gammel dansk“ og mér gengur t.d. frekar illa að skilja talaða dönsku hjá ungu fólki.
    Með bestu kveðju.
    Paul

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>