«

»

Molar um málfar og miðla 1028

Þetta sendi Molavin (05.10.2012) :,,Að mati Umhverfisstofnunar er ekki um að ræða hættu fyrir fólk vegna aukið magn flúors í grasi…“ segir í upphafi fréttar Morgunblaðsins á Netinu 5. október. Ekki er ég í vafa um að blaðamenn Morgunblaðsins kunni að rita orðin ,,aukið magn“ í eignarfalli, svo þessa villu verður að skrifa á kostnað hroðvirkni. Hennar gætir hins vegar í vaxandi mæli í fréttum og ritstjórar geta ekki borið við þeirri afsökun að blaðamenn vinni undir tímaþrýstingi. Það er frumskylda blaðamanna að þeir lesi sjálfir texta sinn yfir gaumgæfilega áður en þeir senda frétt sína inn í fréttakerfi tölvunnar. Jafnvel þótt aðeins sé breytt einu orði í málsgrein þarf að lesa hana alla yfir að nýju og tekur varla lengri tíma en örfáar sekúndur.
,,Hefuru komið til Berlínar?“ spyr farmiðasalinn WOW í viðfangslínu tölvuskeytis, sem sent er öllum skráðum viðskiptavinum. Í hannaðri, meðfylgjandi auglýsingu segir réttilega: „Hefur þú komið til Berlínar?“ Þarna er á ferð annað afbrigði hroðvirkni; það að hirða ekki um málfar í opinberum samskiptum félags við viðskiptavini sína.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Þetta gefur Molaskrifara tilefni til að minna á það sem málglöggur félagi nefndi nýlega við hann og það er ofnotkun forsetningarinnar vegna. Allt er vegna. Vegna orðfátæktar ofnota fjölmiðlamenn vegna! Í setningunni í upphafi þessara Mola hefði til dæmis mátt segja: ,,Að mati Umhverfisstofnunar stafar fólki ekki hætta af auknu flúormagni í grasi.” Horfið og hlustið. Þið sjáið brátt og heyrið þessa heldur hvimleiðu ofnotkun.

Frétt Ríkissjónvarpsins um fyrirlestur Halldórs Jóhannssonar , erindreka kínverska auðjöfursins Huangs Nubos á Íslandi í Háskóla Íslands (08.10.2012)
var gott dæmi um kranablaðamennsku. Skrúfað var frá viðmælanda, einskis spurt og ekki minnst á gagnrýni sem fram kom á fundinum. Stöð tvö gerði þessu langtum betri skil.

Nefnifallssýkin. Ríkisútvarpið (05.10.2012): Snorri Magnússon formaður Landssambands lögreglumanna er mjög brugðið vegna …. Hér hefði átt að segja: Snorra Magnússyni formanni Landssambands lögreglumanna er mjög brugðið vegna … Þessi sýki er smitandi. Sagt var í sjö fréttum (06.10.2012) : … en óttast er að sterarnir hafi verið sprautaðir í fólk …. en óttast er að sterunum hafi verið sprautað í fólk .., Ef málfarsráðunautur er enn við störf hjá Ríkisútvarpinu ætti hann að koma því á framfæri þar sem þörf krefur að í íslensku er ekki bara nefnifall heldur einnig þolfall, þágufall og eignarfall. Hefur reiðareksstefnan tekið sér bólfestu í Ríkisútvarpinu?

Úr mbl.is (05.10.2012): … að draga saman í endurnýjun bílaflotans sem mun orsaka eldri bíla bæði hjá bílaleigum og í almennri eign hérlendis. Það er ekki vel orðað að tala um að orsaka eldri bíla. Þarna hefði til dæmis mátt segja að hægari endurnýjun bílaflotans gerði að verkum að bílar hjá bílaleigum og í eigu almennings verði lengur í notkun.

Hún er ein af fjölmörgum nemenda …. var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (05.10.2012).Hér hefði átt að segja: Hún er ein af fjölmörgum nemendum ….

Í fréttum Stöðvar tvö var sagt (05.10.2012): Þá sýnir rannsóknin að skólaganga barnanna er oft brotin … Molaskrifari er á því að hér hefði t.d. mátt segja: Þá sýnir rannsóknin að börnunum hefur gengið illa í skóla, að skólaganga barnanna hafi verið slitrótt. Játað skal að ekki liggur í augum uppi hvað átt er við þegar talað er um brotna skólagöngu.

Menningarást og málvöndun Ríkisútvarpsins rís jafnan einna hæst í Morgunþætti Rásar tvö þegar svonefndur slúðurfréttaritari stofnunarinnar mætir til leiks vestan frá Los Angeles. Þetta gerist nú æ oftar í hverri viku. Í morgun (09.10.2012) var þar talað um að kaupa ásetning.

Molaskrifari er svo íhaldssamur að hann fellir sig illa við það þegar Ísland er kallað klakinn. Fréttayfirlit Stöðvar tvö (05.10.2012).

Fréttir eiga að svara spurningum. Fréttin um fyrirvaralaust brotthvarf Sigrúnar Stefánsdóttur dagskrárstjóra (08.10.2012) frá Ríkisútvarpinu svaraði engum spurningum. Hún vakti hinsvegar margar spurningar um það hvernig þessari þjóðarstofnun er stjórnað.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála, Skúli.

  2. Skúli Víkingsson skrifar:

    Sæll Eiður og þakka þér góð skrif um málfar og fleira. Þú nefnir réttilega hvimleiðan ávana að tala um landið sem „klakann“. Annað þessu líkt er þegar Suðvesturkjördæmi er kallað „Kraginn“ og enn verra dæmi þegar okkar fyrrverandi höfuðborg, og sú sem lengst hefur verið í því hlutverki, Kaupmannahöfn, er nánast alltaf kölluð Köben í auglýsingum flugfélaga og ferðaskrifstofa.

  3. Eiður skrifar:

    Sigrúnar, – áttu líklega við? Fjölmiðlar hefðu átt að reyna að afla svara við orsökum þessarar skyndilegu uppsagnar , – eða var það brottrekstur?

  4. Gunnar Sverrisson skrifar:

    Þakka góða mola.

    Áttu fjölmiðlar ekki að segja frá brotthvarfi Sigríðar sökum þess hún vildi ekki svara spurningum um ástæður þess?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>