«

»

Molar um málfar og miðla 1075

Fyrirsögn á visir.is (30.11.2012): Útvarpsþættinum Harmageddon tímabundið vikið úr starfi. Hvernig er hægt að víka útvarpsþætti úr starfi. Eru útvarpsþættir ráðnir til starfa ? Í fréttinni kemur fram að umsjónarmönum þáttarins hefur tímabundið verið vikið úr starfi.

Það fór algjörlega framhjá fréttastofu Ríkissjónvarpsins að á laugardaginn (01.12.2012) var fullveldisdagurinn fyrsti desember. Fréttastofa Stöðvar tvö sýndi deginum sóma með svolítilli frétt. Hrós fyrir það. Þess sá raunar engan stað í dagskrá Ríkisútvarps eða sjónvarps að þennan dag væri fullveldisdagur okkar Íslendinga. Laugardagskvöldið í sjónvarpinu var lagt undir ameríska afþreyingu, ef undan er skilinn Dans, dans, dans sem að líkindum er dýrasta afþreyingarefni í sögu Ríkissjónvarpsins.

Molaskrifari er ekki hrifinn af sjónvarpsauglýsingu Icelandair þar sem notað er lagið við Heims um ból. Finnst að auglýsingastofur ættu að láta þann ágæta jólasálm í friði.

Hvað þýðir það þegar stjórnmálamáður segist ætla að vinna lausnamiðað? Molaskrifari er því að það þýði eiginlega ekki nokkurn skapaðan hlut. Tískuorð sem tönnlast er.

Af mbl.is (01.12.2012): Forráðamenn matvöruverslunarinnar Iceland færðu í morgun Lífsspori eina milljón króna til styrktar kvennadeildar Landspítalans … Hér ætti að standa: … til styrktar kvennadeild Landspítalans.

Merkileg frétt á Stöð tvö á laugardagskvöld (01.12.2012). Kvótaeigendur í LÍÚ keyptu sér skoðanakönnum um ágæti kvótakerfisins og þótti það fréttnæmt. Meðal annars var spurt um ágæti kvótakerfisins íslenska í samaburði við fiskveiðistjórnunarkerfi í öðrum löndum. Mörg hundruð manns höfðu skoðanir á því. Molaskrifari hefur miklar efasemdir um að hér sé fyrir hendi almenn vitneskja um fiskveiðistjórnunarkerfi annarra landa, – en svona getur verið auðvelt að plata fréttastofur þegar lítið er í fréttum á laugardagskvöldi.

Ríkissjónvarpið heldur uppteknum hætti og segir okkur ósatt, eða í besta falli hálfan sannleikann. Á föstudagskvöld (30.11.2012) undir miðnætti var endursýnd hin frábæra kvikmynd frá 1962 um Arabíu-Lárus. Þess var ekki getið að um endursýningu væri að ræða. Hversvegna getur þessi stofnun í eigu þjóðarinnar ekki sagt okkur satt? Undarlegt. Hversvegna þarf að fóðra okkur á ósannindum? Internet Movie Database vefurinn gefur myndinni 8, 5 af 10,0. Óvenju hátt, en vissulega verðskuldað. Á besta tíma á föstudagskvöldi var þjóðinni hinsvegar boðið upp á enn eina varúlfa- og blóðsugumyndina en dagskrárstjórar Ríkissjónvarpsins hafa óskiljanlegt dálæti á slíkum kvikmyndum. Næstum sjúklegt dálæti, liggur mér við að segja. IMDb. gefur þeirri mynd einkunnina 4,5. Flokkar hana sem rusl. Kvikmynd í ruslflokki í ruslakistunni sem Ríkisjsónvarpið er þegar að kvikmyndum kemur. Miklu betri dagskrárgerð hefði verið að sýna Arabíu-Lárus með Peter O´Toole , Alec Guinness og fleiri stórleikurum á besta tíma og blóðsugubullmyndina eftir miðnætti.
Það er annars gaman svona í lokin að geta hrósað Ríkissjónvarpinu dálítið. Dagskráin í gærkveldi, (02.12.2012) var alveg prýðileg að mati Molaskrifara. Sunnudagskvöldin eru lang bitastæðustu kvöldin hjá Ríkissjónvarpinu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

2 athugasemdir

1 ping

  1. Eiður skrifar:

    Þetta er fáránleg uppröðun dagskrárog líklegt er eins og þú segir, Axel, að unglingar séu löngu búnir að sjá þetta og víðsfjarri sjónvarpi þegar þessu er hellt yfir okkur sem heima sitjum.

  2. Axel skrifar:

    Twilight serían er í gríðarlega miklu uppáhaldi hjá unglingum nánast um allan heim. Raunar er um eina vinsælustu kvikmyndaseríu allra tíma að ræða. Þannig að dálæti á þessum myndum er ekki bundið við dagskrádeild Rúv, þrátt fyrir að kvikmyndaáhugamenn og eldri áhorfendur séu kannski á ekki á eitt sáttir. Þess vegna er vel hægt að rökstyðja sýningu myndarinnar. Líklegast eru þó flestir unglingar löngu búnir að sjá myndina og líklegast horfa unglingar upp til hópa ekki á skipulagða sjónvarpsdagskrá.

  1. Eiður Guðnason: RÚV segir okkur ósatt skrifar:

    […] pistli á heimasíðu sinni 3. desember skrifar Eiður: „Ríkissjónvarpið heldur uppteknum hætti og segir okkur ósatt, eða í besta falli hálfan […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>