Enn ein stólpípustofnunin virðist vera að komast á laggirnar og nú í Hvalfirðinum. Heyrði þátt um þessa stofnun í Útvarpi Sögu (02.04). Þátturinn var raunar svo samfelld lofrolla að hann hlýtur að hafa verið keypt auglýsing. Enn koma við sögu pólskir doktorar sem hafa þá köllun að innanhreinsa iður Íslendinga. Eru þeir sagðir hafa flutt til landsins sérstakan stól sem notaður er við laxeringuna. Það er líklega merkilegt apparat. En mér fannst þó öllu athyglisverðara að matnum sem þarna verður á boðstólum var lýst sem bæði „fallegum og skemmtilegum“.Svo var líka látið að því liggja að þarna mundi fólk ekki vera að drepast úr hungri eins og á Heilsustofnun í Hveragerði. Í Hveragerði starfa íslenskir læknar , en ekki veit ég til þess að nokkur íslenskur læknir hafi lagt nafn sitt og starfsheiður að veði varðandin þessa pólskættuðu starfsemi, sem er í besta falli gagnslaus en í versta falli skaðleg.
Gömlum blaðamanni finnst óþolandi, að ekki skuli í Útvarpi Sögu og á sjónvarpsstöðinni ÍNN vera greint milli efnis sem kemur frá stöðinni sjálfri og efnis sem keypt er inn í dagskrána. Í dag (02.04.) rambaði ég á þátt á ÍNN, sem örugglega hefur heitið „Skjallbandalagið“. Þar sátu tveir Vinstri græningjar og mærðu flokk sinn, stefnu hans og eigið ágæti. Örugglega keyptur áróðurstími , þótt ekki sæist það á skjánum. Það er grundvallarbrot á öllum reglum blaðamennsku og hreinn dónaskapur gagnvart hlustendum. Ljótur blekkingaleikur. Hvað segir Blaðamannafélagið ? Ekki neitt.
Í Fréttablaðinu (02.04) er auglýsing frá veitingahúsinu Rauðará. Þar stendur:„ Matseðill Rauðará hefur verið endurbættur svo um munar“. Aðstandendum þessa veitingastaðar virðist allsendis ókunnugt um að heiti staðarins á að fallbeygja og hér ætti að standa ,- Matseðill Rauðarár hefur…. o.sv.frv.Að þessu hefur verið vikið áður.
Í sama blaði er auglýsing frá verslun sem kallar sig „Sense Center“. vera má að hún sé búin að starfa lengi. Finnst eigendum þessa fyrirtækis fínt að nota enskt nafn? Mér finnst þetta hallærislegt.
Í Vefmogga var ánaleg fyrirsögn 02.04.Fyrirsögnin var svona: „Segir þingmann ganga erinda“. Þetta er skrítið ,að ekki sé meira sagt. Að ganga erinda sinna er er að hægja sér eða ganga örna sinna. Að ganga erinda einhvers er að ég hygg ekki rétt málnotkun. Hið venjulega og það sem átt er við í fréttinni er að reka erindi einhvers, – að vinna fyrir einhvern.
Dagskrárkynnir RÚV sjónvarps sagði í kvöld (o3.04), að nú færu fram „leiðtogaumræður fyrir verðandi kosningar“. Það er ekki rétt að tala um „verðandi kosningar“. Hér hefði til dæmis mátt tala um kosningarnar 25. apríl. Ríkisútvarpið gæti áreiðanlega sparað talsverða fjármuni með því að kynna dagskrána með öðrum hætti en nú gert, – að þulunum annars ólöstuðum. Held að tími þeirra sé liðinn.
Fréttastofa RÚV og fréttastofa Stöðvar 2 fá prik fyrir fréttapistla Sveins Helgasonar frá Bandaríkjunum og fyrir olíupistla Kristjáns Más Unnarssonar frá Noregi. Faglega unnið og vel fram sett efni.
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
05/04/2009 at 12:17 (UTC 0)
Það er rétt ,Gústaf , að það er miður að þetta ágæta starfsheiti erindreki skuli nær horfið. Ég þekkti vel Jón Sigurðsson formann (ekki forseta, – það er bara einn Jón forseti , sagði hann!) Sjómannasambands Íslands. Hann var kallaður Jón dreki frá því hann var erindreki ASÍ. Guðrún Helgadóttir rithöfundur endurvakti þetta heiti muni ég rétt í sínum frábæru bókum um Jón Odd og Jón Bjarna, en þar kom amma dreki við sögu, – hún var erindreki.
Gústaf Níelsson skrifar:
04/04/2009 at 18:01 (UTC 0)
Fróðlegur pistill, eins og jafnan hjá þér Eiður. Eitt er það starfsheiti sem alveg hefur horfið af sjónarsviðinu hin síðari ár, en það er erindreki, sá sem rekur erindi fyrir aðra. Erindrekar voru áður fyrr á vegum stjórnmálaflokka og ýmissa hagsmunasamtaka, en nú eru þeir bara aumir lobbyistar uppá ensku.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
04/04/2009 at 08:10 (UTC 0)
Vegna orðanna,,vegna verðandi kosninga“ hefði auðvitað átt að segja ,,vegna komandi kosninga“.
Steini Briem skrifar:
04/04/2009 at 07:25 (UTC 0)
Lífleg er sú laxering,
lekur stóll er þarfaþing,
og þegar allt er komið í kring,
kreista þeir þinn tippaling.
Eðalkrati skrifar:
03/04/2009 at 21:47 (UTC 0)
http://www.visir.is/article/20090403/LIFID01/124622665
Hef reyndar veitt því athygli áður, að það hafa orðið hausavíxl á notkun „af“ og „að“ í máli fólks. Ekki bara á visir.is.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
03/04/2009 at 21:45 (UTC 0)
Þetta orðatiltæki – að ganga erinda sinna , er útskýrt á bls. 173 í frábærri bók Jóns G. Friðjónssonar , Mergur málsins. Einnig er það að finna á bls. 285 í Íslenskri orðabók.
Heimir Tómasson skrifar:
03/04/2009 at 21:31 (UTC 0)
Ég hef heyrt það notað bæði norðan heiða og sunnan.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
03/04/2009 at 21:28 (UTC 0)
Ég kannast ekki við að ganga erinda sinna = ganga örna sinna. Hvaðan er það komið?