«

»

Fjögurra akreina friðlýsing Gálgahrauns

Þessi grein mín birtist í Morgunblaðinu í dag , 12.12.2012:
Fjögurra akreina friðlýsing Gálgahrauns

,,Víst er Gálgahraunið friðlýst”, er fyrirsögn á grein eftir formann bæjarráðs Garðabæjar, Erling Ásgeirsson í Morgunblaðinu 5. desember síðastliðinn. Við þetta má bæta: Gálgahraun er svo rækilega friðlýst að meirihluti bæjarstjórnar Garðabæjar ráðgerir að leggja fjögurra akreina hraðbraut eftir hrauninu endilöngu með tilheyrandi umferðarmannvirkjum, slaufum og göngustígum. Það er nú meiri friðlýsingin.

Undirritaður leyfir sér að efast um að formaður bæjarráðsins hefði skrifað þessa grein, ef hann hefði átt þess kost, eða kært sig um að sækja borgarafundinn sem Hraunavinir efndu til í safnaðarheimili Vídalínskirkju 29. nóvember síðastliðinn. Þar var húsfyllir, en formaður bæjarráðs var ekki meðal fundargesta. Því miður. Í fróðlegum erindum á fundinum, sem var fyrst og fremst fræðslufundur komu fram sterk og yfirgnæfandi rök gegn fyrirhuguðum skemmdarverkum bæjarstjórnarmeirihluta Garðabæjar í Gálgahrauni.

Það er heldur dapurlegt og lítið traustvekjandi að einn helsti trúnaðarmaður íbúanna í Garðabæ skuli grípa til ósanninda í Morgunblaðsgrein sinni. Það er ekki góður málstaður sem þarf á slíkum málflutningi að halda. Formaðurinn segir að það sé krafa Hraunavina að jarðgöng tengi Álftanes við þjóðvegakerfi landsins. Þetta er ósatt. Hraunavinir hafa aldrei sett þá kröfu fram. Sumir hafa sagt að á stuttum kafla mætti leggja veginn í stokk í núverandi vegstæði. Stokkur er ekki jarðgöng. Hraunavinir hafa bent á aðrar leiðir sem vel eru færar, en aldrei voru kannaðar. Úrbætur á núverandi vegi, svokölluð ,,núll lausn” var aldrei skoðuð. Lögum samkvæmt átti að gera það. Hvaða tilgangi á það að þjóna að fara með rangt mál í umræðunni um þetta mikilvæga mál? Það hafa komið fram raunhæfar hugmyndir um aðra kosti en að eyðilegga menningarminjar og söguminjar í hrauninu. Annaðhvort er hér talað gegn betri vitund eða að greinarhöfundur hefur alls ekki fylgst með umræðunni. Ég hygg að fremur eigi það síðarnefnda við. Hann hafi bara ekki fylgst vel með og sé sögulegum staðreyndum ekki nógu vel kunnugur.

Hér á höfuðborgarsvæðinu er stórkostlegt umhverfisslys í uppsiglingu ef áform bæjarstjórnarmeirihlutans í Garðabæ ná fram að ganga. Þessi meirihluti hefur verið lengi við völd. Sagt er að allt vald spilli og algjört vald gjörspilli. Þegar lengi, lengi hefur verið setið á valda- og stjórnarstólum trosna tengslin við þá sem stjórnað er. Það er næstum eins og menn haldi að þeir eigi þetta og geti ráðskast með það að vild. Bæjarstjórnarmeirihlutinn gerir sér sennilega enga grein fyrir því hve mikill þungi og hve mikil alvara er í andstöðu bæjarbúa við þessa fyrirhuguðu vegagerð. Það kom vel í ljós á borgarafundi Hraunavina. Nútímasjónarmið um menningarverðmæti og gildi sögunnar fyrir komandi kynslóðir hafa ekki náð eyrum bæjarstjórnarmeirihlutans í Garðabæ. Og það er eins og augu þeirra sjái ekki fegurðina í hrauninu.

Ef heilbrigð skynsemi verður borin ofurliði af fámennum hópi sveitarstjórnarmanna verður það ekki bara áfall fyrir náttúruvernd á höfuðborgarsvæðinu heldur um Ísland allt. Þetta eru verðmæti á heimsvísu sem okkur ber skylda til að standa vörð um vegna allra þeirra sem á eftir okkur koma.

Sameining sveitarfélaganna Garðabæjar og Álftaness um næstu áramót er brýn og næg ástæða til að endurskoða skipulagsmál hins nýja sveitarfélags í heild og þar með hin vondu áform um skemmdarverk í Gálgahrauni. Það leiðir eiginlega af sjálfu að sameiningin kallar á endurskoðun heildarskiplags alls svæðisins.

Hlífum þessari einstæðu perlu. Finnum aðra lausn í vegamálum. Það er vel hægt , ef menn vilja. Það á hinsvegar ekki að tala um að Gálgahraun sé friðað og ætla samtímis að leggja fjögurra akreina hraðbraut eftir hrauninu endilöngu.
Slíkt blekkingatal er með öllu óboðlegt.

Eiður Svanberg Guðnason
Höfundur er fyrrverandi umhverfisráðherra

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Er ekki rétt að skoða skipulagið og hvernig þetta á að verða? Held það.

  2. Grétar Halldórsson skrifar:

    Sæll Eiður
    Í upphafi og í lok greinar þinnar kemur fram að fyrirhugað sé að „leggja fjögurra akreina hraðbraut“ um Gágahraun. Ég hef orðið þess var að í skrifum margra, sem hafa verið að tjá sig um nýjan Álftanesveg, kemur það sama fram. Nú vill svo til, að starfs míns vegna, hef ég undir höndum útboðsgögn vegna Álftanesvegar. Samkvæmt þeim er alveg ljóst að nýr Álftanesvegur er ein akrein í hvora átt, öfugt við það sem þú heldur fram. Mér finnst að þú þurfir að kynna þér þetta. Þú mættir einnig kynna þér hvernig fyrirhuguðum vegi er ætlað að liggja í hrauninu. Honum er sökkt í hraunið og ættu þeir íbúar, sem næst veginum liggja, ekki að verða hans varir nema að litlu leyti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>