«

»

Molar um málfar og miðla 1084

Úr Víðsjá Ríkisútvarpsins (10.12.2012): … taldi sig eiga kröfu til þriggja verðlauna. Hér hefði verið betra að segja: … taldi sig eiga kröfu til þrennra verðlauna. Þetta svo sem verið nefnt hér áður. Oft.

 

 Fréttir af fólki sem málar pony-hesta, segir á Smartlandi á mbl.is (11.12.2012).  Ný dýrategund hefur verið uppgötvuð á Smartlandi, pony-hestar. Ekki að spyrja að þeim.

 

Tölvukerfi Landspítalans datt út og lá niðri í um sólarhring …. var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (11.12.2012). Það hefur verið mikið fall. Kerfið bilaði og var óvirkt í sólarhring.

 

Verður Gísli uppseldur? Þannig er spurt á mbl.is (11.12.2012) og átt er við hvort bókin um Gísla á Uppsölum muni seljast upp fyrir jólin. Kannski hefði verið eðlilegra að spyrja: Selst bókin um Gísla upp? Selst Gísli upp?

 

Lesandi leggur út af frétt um verðhrun á bensíni í Bandaríkjunum á mbl.is (11.12.2012) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2012/12/10/verdhrun_a_bensini_i_bandarikjunum/  og segir síðan: ,,Það er eitthvað bogið við þessa stærðfræði. Þegar ég var í skóla hefðu 489 kr fyrir $3,38 svarað til 14,47 kr fyrir 10 cent og 25 kr fyrir 10 c svarað til 845 kr fyrir $3,38 Síðan er opinbert gengi $1=126,57 kr sem gerir 428 kr fyrir $3,38 og 12,66 kr fyrir 10 c. Enn önnur saga er hvernig aukastafir eru afmarkaðir með „,“ hérlendis, en með „.“ vestra og í Mbl.“ Molaskrifari er máladeildarstúdent og hættir sér ekki frekar út í þessa umræðu, en þakkar sendinguna.

 

Annar lesandi bendir á þessa frétt á mbl.is (11.12.2012) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/12/11/endurheimta_naer_alla_upphaedina/. Hann segir: ,,Hvernig skyldi þessu vera farið?? Eiga blaðamenn Mbl. ekki orðabækur, eða duga þær ekki til? Það sem í Bretlandi heitir Building Society hefur verið nefnt ,,sparisjóður“ hér á landi, en ekki byggingafélag. “ Þetta er rétt ábending. Og hér er það sem Wikipedia segir um málið: http://en.wikipedia.org/wiki/Building_society

 

 Sumir fréttamenn hefðu gott af svolítilli leiðsögn um það hvers eigi að spyrja í viðtölum. Fréttamaður Ríkissjónvarps spurði formann Bændasamtakanna hvort svona mál (sóðaskapurinn í fjósinu á Brúarreykjum) væru slæm fyrir  ímynd bændastéttarinnar á Íslandi? Þarf að spyrja að því hvort myndir úr fjósi þar sem kýrnar standa í mykju upp á miðja leggi séu slæmar fyrir ímynd bænda? Nei. Það þarf ekki að spyrja að því. Svo var það ekki Matvælastofnun sem tók myndirnar. Starfsmaður Matvælastofnunar tók myndirnar. Myndirnar voru frá Matvælastofnun.

 

 Heimildamyndin úr flokknum Hversvegna fátækt? sem Ríkissjónvarpið sýndi i gærkvöldi (12.12.2012) var um margt athyglisverð en hún fjallaði ekki nema að litlu leyti um fátækt. Myndin var aðallega um auð og auðkýfinga, misskiptingu auðs og eigna í Bandaríkjunum viðvarandi skattleysi auðmanna, fjármögnun bandarískra stjórnmála og hvernig milljarðamæringar kaupa sér áhrif hjá stjórnmálamönnum. Vonandi hafa einhverjir íslenskir stjórnmálamenn sem þegið hafa milljónir á milljónir ofan frá íslenskum auðmönnum og alltaf sagt að engin skilyrði fylgdu milljónunum horft á þetta ! Dálítið fyndið að sjá einn af ríkustu mönnum heims í kjólfötum sem pössuðu honum svo hörmulega illa að þau gætu hafa verið frá þriðja flokks fataleigu. Í íslenskum texta var sagt að Lewis F. Powell jr. hefði verið ráðinn til hæstaréttar! Nixon skipaði hann dómara við hæstarétt Bandaríkjanna 1971. Í textanum orkaði líka tvímælis  að tala um töp tiltekins banka þótt á enskunni væri talað um losses. Fróðleg mynd um margt, en aðeins að litlu leyti um fátækt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>