«

»

Molar um málfar og miðla 1085

Tveir teknir þegar bruggverksmiðja var stöðvuð á Selfossi, segir í fyrirsögn á visir.is (12.12.2012). Á hvaða ferðalagi skyldi sú verksmiðja hafa verið?

 

Einn umsjónarmanna  morgunþáttar Rásar tvö talaði á miðvikudagsmorgni (12.12.2012) um disk sem hefði verið tekinn upp árið 1999 hér Rúv. Þetta er misskilningur. Diskurinn var tekinn upp í Ríkisútvarpinu árið 1999. Þá var ekkert Rúv. Þá átti þjóðin Ríkisútvarp. Rúv þruglið endalausa kom til löngu seinna. Það er samkvæmt sérstakri tilskipum núverandi útvarpsstjóra. Honum virðist meinilla við hið rétta heiti stofnunarinnar, Ríkisútvarpið, og því er starfsmönnum bannað að taka sér það í munn. Ráðherra Ríkisútvarpsins þarf að taka í taumana og hefja hið rétta heiti stofnunarinnar til vegs að nýju.

 

Leiðréttingar á því sem rangt er farið með vefjast ærið oft fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins. Á þriðjudagskvöld (11.12.2012) var farið rangt með nafn í fréttum. Í stað þess að leiðrétta eins eðlilegt hefði verið var sagt að rétt væri að halda því til haga að maðurinn hefði heitið ….. Þetta er eiginlega ósköp hallærislegt. Þegar farið er rangt með mannanöfn er það sjálfsögð kurteisi við þann sem í hlut á að leiðrétta skýrt og skorinort.

 

Um verðbólguna var sagt í fréttum Stöðvar tvö (12.12.2012): … fátt bendir til að hún sé að fara lækka. Betra hefði verið að segja , til dæmis: … fátt bendir til að draga muni úr verðbólgu.

 

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (12.12.2012) var sagt um þjálfara að hann hefði verið orðaður við kvennaliðið. Nýtur greinilega kvenhylli, sá ágæti maður.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (12.12.2012) var farið rangt með nafn sendiherra Noregs á Íslandi. Það var ekki leiðrétt. Næsta frétt á undan var um það að fréttastofa Ríkisútvarpsins nyti meira trausts samkvæmt skoðanakönnun en aðrir fjölmiðlar. Í fréttinni hét fréttastofan auðvitað fréttastofa RÚV, – allt er nú rúv í Efstaleiti. Samkvæmt skipunum að ofan. Ef traustið á að vera verðskuldað verður fréttastofa Ríkisútvarpsins að fara rétt með og leiðrétta það sem rangt er farið með, en vissulega gerir fréttastofa Ríkisútvarpsins margt vel. Þar eru hins vegar líka gerð mistök eins og á öðrum bæjum. Þegar rangt er farið nöfn á að leiðrétta það. Það er ekkert flókið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>