«

»

Molar um málfar og miðla 1171

Aftur og aftur sér maður sömu villurnar. Í viðtali við veitingamann í Páskablaði DV (27.03. 2013) sagði: … þegar hér var komið við sögu. Rétt hefði verið að segja: …þegar hér var komið sögu. Hinsvegar má segja til dæmis: Hann kom ekkert við sögu, þegar húsið var byggt. Allt annar handleggur.

Í síðdegisfréttum Ríkisútvarps (27.03.2013) var sagt frá frumvarpi um breytingar á stjórnskrá sem verið var að ræða á Alþingi. Þar var sagt að tveir þriðju hlutar greiddra atkvæði þurfi til …Þarna hefði verið rétt að segja að tvo þriðju hluta greiddra atkvæða þurfi til …

Í nýju FÍB-blaði er bílaprófun. Þar segir m.a. um Hyundai Santa Fe: Aftursætin rýma auðveldlega 3 fullorðna farþega … Molaskrifari hefði sagt rúma en ekki rýma. Þarna segir líka: … sem gerir Santa Fe að skynsömum valkosti .. Molaskrifari hallað því að þarna hefði verið betra að tala um skynsamlegan valkost fremur en skynsaman valkost.

Við atkvæðaskýringu á Alþingi (27.03.2013) svaraði Steingrímur J. Sigfússon fyrrum flokksbróður sínum Atla Gíslasyni og brá fyrir sig enska orðinu pathetic. Hann þýddi það lítilmótlegur. Molaskrifari er ekki sammála. Hann telur orðið enska orðið pathetic miklu frekar þýða aumkunarverður.

Enn flaska menn á framburði heitis ríkisins Arkansas í Bandríkjunum nú síðast veðurfræðingur í Ríkissjónvarpinu (28.03.2013). Nafn ríkisins er ekki borið fram eins og það er skrifað ( frekar en svo ótal margt í ensku). Það er borið fram /akansoo/.

Á páskadagsmorgni tók þulur á Rás eitt svo til orða, að séra Páll Jónsson hefði ort textann. Þulur var að tala um sálminn , Ó , Jesú bróðir besti. Ekki kann Molaskrifari að meta þetta orðalag, né heldur er sami þulur sagði nokkru síðar: … stígið um borð á fljótabát. Fast er í málinu að tala um að stíga um borð í bát ekki á bát. Þulur sagði okkur einnig að í dag væri 31. mars, 2013, páskadagur, en eins og allir vissu bæri páskadag altaf upp á sunnudag. Öruggara að taka það fram. Undantekning er að heyra misfellur í málfari þula á Rás eitt.

Þessir Molar eru seinna á ferð en ætlunin var. Molaskrifari lenti í tölvuhremmingum. Fyrst brást internetið austur í sveitum þar hann dvalist um páskana. Er heim kom tók ekki betra við því þá brást heimilistölvan. Það bjargaðist með aðstoð góðra manna. Rafhlaðan sem klukka og dagatal tölvunnar fá orku frá reyndist tóm. Þá neitar tölvan að vinna. Skiljanlegt. Hún vill auðvitað hvaða dagur er.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>