«

»

Molar um málfar og miðla 1170

 

Viðtöl fréttamanna Ríkissjónvarpsins við veðurfræðinga á undan íþróttafréttum eru oft dálítið hallærisleg. Stundum er eins og fréttamaðurinn hafi ekki mikinn áhuga á því sem veðurfræðingurinn er að segja og er búinn að snúa sér að íþróttafréttamanninum næstum áður en veðurfræðingurinn hefur lokið máli sínu. Þessu reyndar auðvelt að breyta.

 

Skólahreysti sem Ríkissjónvarpið er nú að sýna er svo sem ágætis efni. Það á hinsvegar ekkert erindi í kvölddagskrá. Þetta ætti að sýna  fyrir fréttir.

 

Umfjöllun Ríkissjónvarpsins um bankahrunið á Kýpur (25.023.2013) var dálítið sérkennileg. Fyrst var sagt að hrunið á Kýpur væri hliðstætt við bankahrunið hér á landi. Svo kom Gylfi Magnússon prófessor og sagði þetta ekki vera hliðstætt!

 

Í fréttum Stöðvar tvö (26.03.2013) var enn einu sinni fjallað ítarlega um mál mannsins sem var nokkra daga í tyrknesku fangelsi fyrir að reyna að fara með forngrip, óafvitandi, úr landi. Umfjöllunin um manninn og fjölskyldu hans líkist því helst að hann og fjölskyldan hafi lent í næstum ólýsanlegum hörmungum. Sem var auðvitað alls ekki. Þetta sýnir í hnotskurn sjálfhverfu og þröngan sjóndeildarhring íslenskra fjölmiðla. Ríkisútvarpið hefur ekki fallið í þessa gryfju með Stöð tvö.

 

 

K skrifar (25.03.2013): Íslenskan þróast hratt um þessar mundir!
,,Slysið varð með þeim hætti að jeppi og dráttarvél lentu saman til móts við Brautarholt.“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/03/25/alvarlegt_umferdarslys_a_skeidavegi/ Ekki var umfjöllunin betri á visir. is sama dag: ,,Alvarlegt umferðarslys varð á Brautarholti á Skeiðum þar sem dráttarvél og jeppi rákust framan á hvort annað um klukkan hálfeitt.” – Þetta var reyndar lagfært síðar. 

 

Áfram er haldið að tönnlast á því í fréttum Ríkissjónvarps (26.03.2013) að mál séu í ágreiningi, þegar ekki er samkomulag um afgreiðslu þeirra. Hvað um mál sem samkomulag er um ? Eru þau í samkomulagi? Hvar er málfarsráðunautur?

 

 

Einstaklega fallegar fjallamyndir í fréttalok í Ríkissjónvarpi á mánudagskvöld (25.03.2013)

 

 

Næstu Molar birtast eftir páska.

Gleðilega páska !

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>