«

»

Molar um málfar og miðla 1172

Þau Sigmar og Jóhanna Vigdís komust ágætlega frá því að stjórna löngum umræðuþætti við stjórnmálaleiðtoga á þriðjudagskvöld (02.04.2013) Molaskrifari veit af gamalli reynslu að það meira en að segja það að stjórna umræðum þar sem þátttakendur eru svo margir. Þetta tókst prýðilega.

Málfróður Molalesandi sendi eftirfarandi ((02.04.2013)
“Ekki batnar Birni enn
banakringlu verkurinn,
var ort forðum
Frétt á „ruv-vef“ 1. apríl hljóðar:
Ekki liggur fyrir hvernig eldurinn kviknaði en einhverjir hundruð fermetrar brunnu. Slökkviliðið er nú farið af vettvangi.
Höfundur þessarar fréttar atti að snúa sér að öðru en ritstörfum.
Ekki er ljóst hvernig eldurinn kviknaði en nokkur hundruð fermetrar brunnu … “ Þessi banakringluverkur batnar líklega seint!

Helgi Haraldsson , Osló benti á eftirfarandi: (02.04.2013). Helgi segir: Kannski aparnir gætu kennt þessum manni eitthvað um málfar og réttritun?
Mér finnst það ekki ólíklegt!:
,,Humm,,,,,,mer datt í hug gamlan stjórnmálamann sem lísir fyrstu skrefum sínum á pöllum alðingis Islendinga….Fanst fyrirsögnin einhvernvegin gefa það upp….” Ja, hérna! Vonandi er þetta ekki maður sem hefur fréttaskrif að atvinnu !

Molalesandi vakti athygli á heldur afkáralegu orðalagi í frétt um harmleikinn í Flórída þar sem tveir Íslendingar biðu bana í fallhlífarstökki:,, Áttum saman kyrrðarstund fyrir heiðurs og minningarstökkið þar sem hugar okkur sameinuðust í góðum minningum um þessa föllnu vini Stökkheimurinn stendur á öndinni og við höfum fengið samúðarkveðjur frá öllum heimsálfum sem við erum afskaplega þakklát yfir.“ Molaskrifari verður að taka undir það að ekki er þetta vel að orði komist.

„XXX tók 33 stig XXX í pípu og reykti þær!“ Óviðeigandi orðalag í Skólahreysti í kvöld, skrifaði Gunnar. Molaskrifari játar að honum er þetta orðalag óskiljanlegt.

Var það misheyrn að dagskrárkynnir Ríkisútvarpsins kynnti kvikmyndina um Járnfrúna um páskana með þeim orðum að í myndinni ræddi frúin við eiginmann sinn nýlátinn? Reyndar verður maður ekki lengur hissa á neinu sem sagt er í þessum dagskrárkynningum.

Í fréttum Ríkissjónvarps (02.04.2013) var sagt um gjaldeyrishöftin að þau hefðu verið sett haustið 2008, en hæglega hefur gengið, að afnema þau. En illa hefur gengið, hægt hefur gengið að afnema þau. Hæglega þýðir auðveldlega.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka þér, Kristín. Þetta orð er bara rugl.

  2. Kristín Pétursdóttir skrifar:

    Sæll.
    Rakst á undarlegt málfar í Pressunni 4. apríl, frétt með mynd af bíl sem var lagt upp á gangstétt svo stúlka með barnakerru þurfti að fara út á götu til að komast fram hjá.
    En það var orðið „bílastæðalagning“ sem fékk mig til að senda þér þetta.

    Er þetta orð til í þessu samhengi?

    Það var ekki verið að leggja bílastæði heldur var bíl lagt upp á gangstétt.

    Kv.
    Kristín,
    ekki birta nafnið takk, ef þú notar þetta.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>