«

»

Molar um málfar og miðla 1191

Það fylgir sumardeginum fyrsta að hlusta á Sumarkomu í útvarpinu, íslensk lög og ljóð um sumarið og sumarkomuna á Rás eitt. Molaskrifara venst því hins vegar illa að heyra þul tala um texta Jónasar Hallgrímssonar, texta Páls Ólafssonar og texta Þorsteins Erlingssonar. Allir ortu þeir ljóð. Eitthvað var bogið við upphaf skátamessunnar hefðbundnu þennan dag. Ekki heyrði Molaskrifari betur en að messan hæfist ókynnt beint ofan í lesnar auglýsingar.

Trausti benti á þessa frétt á mbl.is (24.04.2013) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/04/24/vill_ekki_ad_gestur_verji_sigurd/ Þar stendur m.a. Gestur mótmælti þessum sjónarmiði. Molaskrifari hallast með velvild að því að hér sé um innsláttarvillu að ræða , en Trausti spyr: „Sjónarmjöður“? Trausti bendir á fleira af mbl.is þennan sama dag: http://www.dv.is/frettir/2013/4/22/tsarnaev-gaeti-verid-daemdur-til-dauda/
Hann spyr: Gæti orðið dæmdur, er það ekki? Skárra , en ekki gott segir Molaskrifari. Betra: Gæti hlotið dauðadóm.

Molaskrifari hefur svolítið velt fyrir sér auglýsingum stjórnmálaflokkanna nú í lok kosningabaráttunnar. Auglýsingar Samfylkingar og VG eru ekki vel heppnaðar. Ómarkvissar og hálfruglingslegar. Formaður Sjálfstæðisflokksins kemur vel fyrir, en það eru hnökrar á textanum sem hann fer með: Loforðin sem við veitum til kjósenda í landinu … geti fólk sagt með sjálfu sér,- ekki rangt en mætti orða miklu betur. Í lokin tekur svo við heldur óáheyrileg konurödd, sem skilar sér illa. Best og markvissust er auglýsing Framsóknarflokksins. Þar eru umbúðirnar bestar, en innihaldið er önnur saga. Kannski er auðveldast að pakka uppblásnu skrumi vel inn.

Molalesandi benti á þessa frétt á vef Ríkisútvarpsins (24.04.2013): http://www.ruv.is/frett/allir-saltbilar-uti-ad-draga-ur-halku. Réttmæt ábending. Saltbílar úti að draga úr hálku !!!

Kristinn Hrafnsson talsmaður Wikileaks var augljóslega létt, þegar dómsniðurstaða lá fyrir, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (24.04.2013) Hér hefði átt að segja: Kristini Hrafnssyni talsmanni Wikileaks var augljóslega létt, þegar … Kristinn Hrafnsson talaði í fréttinni um að almenningur gæti ráðstafað eigið fé. Betra hefði verið: ,…að almenningur gæti ráðstafað eigin fé …
Um þetta skrifar Gunnar: „Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, var augljóslega létt …“ sagði Hjörtur Hjartarson í fréttum Stöðvar 2 í dag. Svona beygingarvilla á ekki að heyrast. Honum var létt, hann var ekki létt.
Einnig var talað um „tölverðan mun“ en ekki töluverðan, í sama fréttatíma.” Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið.

Að morgni fyrsta sumardags leitaði Molaaskrifari án árangurs í fréttum af nýrri könnun Félagsvísindastofnunar að prósentutölum um fylgi þeirra flokka sem ekki höfðu náð 5% markinu. Þær voru hvergi finnanlegar. Kannski var þetta klaufaskapur , en ef ekki þá er þetta undarleg fréttamennska. Úr þessu var þó bætt síðar. Þetta hefði átt að koma fram strax.

Einhversstaðar í netheimum sá Molaskrifari (25.04.2013) auglýstan hvolp til sölu, sem væri,,tilbúinn til afhendingar”. Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt !

Í Molum var nýlega (1189) vikið að því að á reiki hefði verið í fréttum Ríkissjónvarps hvort talað væri um 800 íbúa eða 800 íbúða byggð við Reykjavíkurflugvöll. Nú hefur Molaskrifara verið bent á að í Ríkissjónvarpinu var eingöngu talað um 800 íbúa byggð, en það var mbl.is sem talað var um 800 íbúða byggð. Leiðréttist þetta hér með.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Fá það óþvegið, – hef ég lang oftast heyrt. Gæti verið að hitt hhafi einhvern tíma heyrst.

  2. Eiður skrifar:

    Auðvitað Kristni.

  3. Sigurður H. Ólafsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Langar að spyrja þig að einu. Hefurðu einhvern tímann heyrt eitthvað óþvegið!?

    http://visir.is/romario-let-pele-heyra-thad-othvegid/article/2013130429225

    Kv, Sigurður

  4. Sigurgeir Jónsson skrifar:

    -Kristini Hrafnssyni? Ég myndi hafa það Kristni Hrafnssyni.

  5. Linda skrifar:

    Kristini Hrafnssyni? Ekki Kristni Hrafnssyni?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>