«

»

Molar um málfar og miðla 1201

Stór uppgötvun danskra lækna, segir í undirfyrirsögn í Morgunblaðinu (08.05.2013). Molaskrifari er á því að eðlilegra hefði verið að tala um merka uppgötvun, fremur en stóra uppgötvun.

Hurð er fleki til að loka dyrum eða opi, segir orðabókin. Þessvegna er ekki rétt að tala um að ganga í gegn um hurð, eins og maður sem rætt var við í fréttum Ríkisútvarps (08.05.2013) sagði. Þetta heyrist samt nokkuð oft.

Kastljósið lagt undir Evróvisjón í gærkveldi (10.05.2013), síðan hinar hallærislegu Hraðfréttir og svo meira en klukkustundar löng dagskrá um Evróvisjón. Nú er víst bannað að tala um Evróvisjón í Efstaleiti. Júróvisjón skal það heita. Má þá tala um evru, á ekki að tala um júró? Hvað segir málfarsráðunautur?
Hvað kostar annars Evróvisjónævintýri Ríkissjónvarpsins?

Gúrkutíð í fréttum á miðvikudegi (08.05.2013) hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins. Langloku umfjöllun um gamla tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur um að flytja fimmtudagsfrídaga eins og uppstigningardag og sumardaginn fyrsta fram á föstudag. Svo er líka hægt að vera svolítið hissa á endalausri umfjöllun fjölmiðla um knattspyrnustjórann Sir Alex Ferguson sem um ævina hefur stundum hegðað sér eins og fótaboltabulla.

Í frétt í Ríkissjónvarpi (08.05.2013) af því er brú hrundi í Noregi var sagt að steinsteypa hefði sprungið með þessum afleiðingum. Molaskrifari er eiginlega jafn nær. Ef grannt var skoðað mátti geta sér þess til að steypumót hefðu gefið sig, þegar verið var að steypa hluta brúarinnar.

Í fréttum Ríkisútvarps (08.05.2013) var sagt:Strákarnir áttu eftir að spila stóra rullu fyrir klúbbinn …. Molaskrifari hélt eiginlega að búið væri að drepa þessa gömlu dönskuslettu, en hún lifir góðu lífi, – í sumum miðlum.

Í Íslandi í dag (08.05.2013) á Stöð tvö sagði fréttamaður: Hann er ekki að gera neitt rosalega mikið fyrir lúkkið þessi galli … áður talaði fréttamaðurinn um dresskód í svona ferðum Yfirmenn Stöðvar tvö ættu að brýna fyrir sínu fólki að vanda mál sitt. Ekki tala við okkur á hrognamáli. Ef fréttamanninum var mikið í mun að segja okkur að hún kynni svolitla ensku, hefði hún átt að tala ensku. Ekki hræring.

Sigurgeir skrifaði (08.05.2013): ,,Í Viðskiptablaðinu frá 2. maí sl. rakst ég á heilsíðuauglýsingu frá Lean Island 2013. Þar stóð m.a.: Daniel T. Jones er einn helsti sérfræðingur heims í Lean stjórnun en hann er m.a. höfundur metsölubókarinnar sem kynnti heiminn fyrir Lean stjórnun, Lean Thinking: Banish Waste.
Ekki ónýt kynning þar á ferð.” Þakka bréfið. Kannski hefði verið betra að hafa auglýsinguna á ensku. Hræringur er yfirleitt verri en hafragrautur eða skyr..

Soldið svona skerí (e. scary), sagði fréttamaður Ríkissjónvarps sem ræddi við grunnskólanema um stuttmynd sem þeir höfðu gert(08.05.2013) . Brýnir ekki fréttastjóri Ríkisútvarpsins fyrir sínu fólki að vanda mál sitt? Þetta var ekki boðlegt orðalag. Hvar er nú málfarsráðunautur?

Smáforrit eða app Moggans til að lesa blaðið á spjaldtölvu er viðmótsvænt og gott. Mogginn hefur oft verið í fararbroddi með netnýjungar enda Moggavefurinn vinsæll eftir því.

Með því kjánalegra sem lengi hefur heyrst eru tilmæli ISAVIA um að fólk og fjölmiðlar hætti að tala um Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli vegna þess að einhver maður fyrir vestan segist eiga réttinn á heitinu Leifsstöð. Ekki skal það dregið í efa. Okkur er bent á að kalla flugstöðina Flugstöð Eiríkssonar eða FLE ! Þetta er út í hött. Fólk og fjölmiðlar munu halda áfram að kalla flugstöðina Leifsstöð. Hvað sem hver segir. Þessu fá engin ISAVIA tilmæli stýrt eða stjórnað. Heldur ekki maðurinn fyrir vestan.

Molaskrifara varð það á á dögunum að skrifa: Lái mér hver sem er. Málglöggur maður benti á að þetta ætti eftir málvenju að vera: Lái mér hver sem vill. Það er hárrétt.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>