«

»

Molar um málfar og miðla 1216

Molalesandi skrifar (28.05.2013) Í frétt undir yfirskriftinni ,,Heimska vex á Vesturlöndum“ sem birtist á visir.is (28. maí 2013) má lesa eftirfarandi: ,,Vísindamenn hafa verið að rannsaka greind þeirra sem uppi voru á Viktoríutímanum, sem er frá 1837 til 1901, og kennt er við Viktoríu Englandsdrottningu, og hafa komist að þeirri niðurstöðu að menn voru greindari á þeim tíma.“
Hvers vegna ekki er einfaldlega skrifað ,,Vísindamenn hafa rannsakað greind…“ en líklegt er að þetta sé bein þýðing úr ensku og upphaflega (stolna?) fréttin hafi orðað það svo að vísindamenn ,,have been researching“. Þá er frumlagið Viktoríutíminn í karlkyni í upphafi setningar en skömmu síðar er sagnorðið að kenna í sömu setningu í kvenkyni (,,og kennt er við“). Ef til vill hefur blaðamaður haft þennan háttinn á til að staðfesta frétt sína um minnkandi greind?! Það er von að maður spyrji. – Já, ekki nema von, segir Molaskrifari.

Af mbl.is (27.05.2013): Lögreglan í Ástralíu tilkynnti í dag að opnað hefði verið um hálfrar aldar gamalt mannshvarf í kjölfar þess að borin voru kennsl á líkamsleifar sem fundust árið 2009. Líklega er hér á ferðinni einhverskonar aulaþýðing eða þýðingarvilla. Enginn les yfir áður en birt er. Þetta er illskiljanlegt eða óskiljanlegt.

Nú þykir líklega ýmsum að fávíslega sé spurt. Þetta er af vef Ríkisútvarpsins (27.05.2013): Íslenski hópurinn er fjölmennur og glæsilegur, en í honum eru 125 keppendur og tugir fararstjóra, flokkstjóra og annars fylgdarliðs, þannig að alls telur hópurinn um 200 manns. Hvernig má það vera að með 125 keppendum þurfi 75 fararstjóra, flokksstjóra o.fl.? Eitthvað mun þetta kosta.

Margsagt var í morgunfréttum Ríkisútvarps (28.05.2013) að sýslumaður hefði særst í skotárás í Texas. Sýslumaður er séríslenskt starfsheiti ( að vísu eru Norðmenn með sýslumann á Svalbarða). Hér hefði átt að tala um lögreglustjóra eða lögreglumann. Enska orðið hefur væntanlega verið sheriff.

Margt er undarlegt við Fésbókina. Þar er hægt að haka við eða samþykkja, ummæli fólks og segja: Líkar við. Einkennilegt að lesa til dæmis þegar fólk greinir þar frá fráfalli nákomins ættingja þá koma lesendur og segja að sér líki það vel! Ekki kann Molaskrifari að meta þetta.

Lesandi spyr (28.05.2013): „Er ekki nafn Kaldakinnar dregið af nafnorðinu kalda (nefnifall: kaldi), en ekki lýsingarorðinu?? „http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/28/aurskrida_lokar_veginum_um_koldukinn/ Í fréttinni segir: ,,Norðurlandsvegur, vegur 85, er lokaður við Ystafell í Köldukinn vegna aurskriðu sem féll á veginn í nótt. Aurskriðan var 50-100 metra breið að sögn lögreglunnar á Akureyri og um einn metri að þykkt.” Nú stendur Molaskrifari á gati. Hvað segja staðkunnugir?

Undarleg umræða hefur spunnist í fjölmiðlum og í netheimum eftir að alþingismaðurinn góðkunni og verðandi ráðherra Vigdís Hauksdóttir hélt því fram að einhversstaðar úti í buskanum sæti fólk á launum við að skrifa illa um hana. Þetta er undarlegasta umræða sem lengi hefur komið upp. Það er margt sem fólk gerir til að vekja athygli fjölmiðlamanna þegar lítið er í fréttum. Stjórnmálamenn sem gagnrýndir eru fyrir störf sín og ummæli verða að þola það án þess að væla um einelti. Ef þeir ekki þola gagnrýni, eiga þeir að finna sér annað starf. Einelti er allt annað.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Valgeir sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Afsakið pennaglöpin, félagar. Þetta átti nú auðvitað að vera“springi“, en ekki „skringi“!
    -Skringilegur klaufaskapur!
    VS.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Valgeir.

  3. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir,Markús.

  4. valgeir sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Kærar þakkir fyrir þessa skemmtilegu umræðu. Má ég bæta einu við: Í bréfasafni Jónasar Hallgrímssonar, (útg. 1989) stendur þetta: „Eða þá þessa úr Skagafirðinum – ég háttaði um kvöldið í góðu veðri, en um morguninn þegar ég kom út var snjóhret og norðan-kuldastormur:
    Nú er sumar í köldu kinn,
    kveð ég á milli vita,
    fyrr má nú vera, faðir minn!
    en flugurnar skringi´af hita“
    Takið eftir að hann skrifar köldu kinn, með lágstöfum. Hann er ekki með sérnafn í huga. – Hitt er annað mál, að beygingin Kaldakinn – Fagradalur er ævaforn. „Þeir bjuggu að Fagrabrekku“, stendur í Landnámu.
    Kkv. VS.

  5. Markús Þórhallsson skrifar:

    Hér segir á vef Þingeyjarsveitar að Kaldakinn beri nafn sitt af vindstyrknum kalda: http://thingeyjarsveit.is/forsida/frettir/nr/12609/

  6. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Jón.

  7. Jón skrifar:

    Nú er sumar í Köldukinn, –
    kveð ég á millum vita.
    Fyrr má nú vera, faðir minn,
    en flugurnar springi af hita!

    Jónas Hallgrímsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>