Líklega er til lítils að gera athugasemdir við málvillur á bloggsíðum. Sigríður Laufey Einarsdóttir (27.04.) skrifar: „Hvers vegna einhliða áróður þar sem heildarhagsmunir þjóðarinnar er ekki gerð skil … “ Hér ætti auðvitað að standa: — „ … þar sem heildarhagsmunum þjóðarinnar eru ekki gerð skil“. Ekki virðist það skipta miklu, þegar að málvillum kemur, hvort fólk státar af háskólagráðum, eður ei. Guðfræðingurinn Sigríður Laufey er í hópi þeirra bloggara, sem ekki leyfa ritun athugasemda við bloggfærslur sínar. Það er sérkennilegt og þeir bloggarar skipa sér skör hærra,en við sem leyfym að skoðunum okkar sé andmælt. Kannski eru þessir bloggarar bara ekki áhugasamir um skoðanir annarra. Það væri athugandi að birta lista yfir þá afkastabloggara sem ekki leyfa athugasemdir við skrif sín.
Það henti ágætan fréttamann RÚV (27.04.) að tala um „skipsbrot“. Þetta orð er ekki til. Við tölum um skipbrot og skipbrotsmann, þann sem bjargast úr sjávarháska, þegar skip strandar eða ferst. Kannski ekki villa sem kemur á óvart. Villa samt.
Hafið þið tekið eftir því, ágætur lesendur, hve oft er ekki tenging eða samhengi milli fyrirsagnar fréttar og textans sem á eftir fylgir? Gaman væri að fá send dæmi um þetta.
10 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Stefanía skrifar:
30/04/2009 at 00:33 (UTC 1)
Þakka ábendinguna Eygló þú kvittaðir nú eiginlega þegar þú skrifaðir að þú ætlaðir að “ breyta þessu smá “ 😉
Mér þykir Maíja flott, þegar ég veit merkinguna.
Og , endilega senda ábendingu þegar maður skrifar einhvern hroða !
Ég tek því með ánægju.
Bergsteinn Sigurðsson skrifar:
29/04/2009 at 17:32 (UTC 1)
Mæltu manna heilastur, Eiður! Einu sinni reyndi ég að gera vinsamlegar athugasemdir við ambögur hjá vinsælum bloggara. Hann lét það sem vind um eyru þjóta pg sakaði mig um derring.
Eygló skrifar:
29/04/2009 at 13:49 (UTC 1)
Yngvi, ekki átta ég mig á því hvað þú átt við með „… ætti ekki …“ Sé ekki útskýringar, leiðbeiningar eða ábendingar : ) Hitt er annað að ég 'ætti' e.t.v. ekki að skrifa á síðuna hans Eiðs .
Oft er notaður titilinn “ Fr. “ þegar ekki er vitað um hjúskaparstöðu (Valur, Yngvi). Reyndar eru þessir titlar á undanhaldi. (Ég er piparkerling).
„leyfym“, „fryir“, „hveð“ (Sigurveig, Valur) – virðist nú flokkist undir prentvillu, ekki stafSETNINGarvillu. (leifum, firir, kvað > > væru stafsetningarvillur)
Veit ekki hvort Valur á við setninguna í heild eða dönskuslettuna. Við höfum allavega ekki samskonar tilfinningu fyrir kímni enda fólk býsna ólíkt.
Ég vil endilega umræður, en allra helst ábendingar og fræðslu, eins og Eiður veitir.
Valur Kristinsson skrifar:
29/04/2009 at 11:48 (UTC 1)
Frú Eygló, Hveð þýðir þessi setning hjá þér: Ég ætla að breyta þessu smá, þú ert ekki sú fyrsta finnst þetta ekki 'göre sig'. Ertu ekki komin út á hálan ís, málfarslega séð?
Sigurveig skrifar:
29/04/2009 at 10:21 (UTC 1)
Aðeins smá leiðrétting, þú skrifar leyfym en á náttúrulega að vera leyfum.
Sem sýnir að á bestu bæjum geta orðið stafsetningavillur 😉
Yngvi Högnason skrifar:
29/04/2009 at 07:03 (UTC 1)
Ég held að frú Eygló ætti ekki skrifa um málfar og málnotkun.
Eygló skrifar:
29/04/2009 at 02:22 (UTC 1)
Stefanía, nú ætla ÉG að vera PÚKI en viltu samt taka því sem stríðni en ekki lasti.
Í athugasemdinni þinni notarðu orðfæri sem fær hárin til að rísa, og það á sköflungunum, á málfarsfasista eins og mér. Bíddu, bíddu, ég bað þig að brosa 🙂
Ég hef alla þessa fyrirvara af því að margt fólk fer strax í eldtrausta vörn .
Þetta ku vera bein þýðing úr enskri setningamyndun; „I am not getting this“ Nú segir meira en hálf þjóðin: „Ég er ekki að skilja þetta“ (ég er ekki að fatta þetta). Ef þú ert að gera eitthvað, þá er það ferli, og því ekki lokið.
Íslenska útgáfan er víst: „En…. ég skil ekki alveg nafnið þitt hér…“
Æi, já þetta er asnalegt „gælunafn“. Ég heiti Eygló og fannst þetta líka óskaplega sniðugt að nota fæðingarmánuðinn (maí) sem nefni. Ég ætla að breyta þessu smá, þú ert ekki sú fyrsta finnst þetta ekki 'göre sig'.
EIÐUR Eftir tilvikum, takk eða fyrirgefðu notkun/misnotkun síðunnar þinnar.
Helgi Kristinn Sigmundsson skrifar:
29/04/2009 at 01:12 (UTC 1)
Sæll og takk fyrir þessar athugasemdir. Það er gott að einhver veitir aðhald og öll umræða um bætt málfar er af hinu góða. Það virðist vera orðið ekkert tiltökumál að ræða um hækkanir og lækkanir t.d. skatta eða vöruverðs. Hvað segir þú um þetta?
Stefanía skrifar:
29/04/2009 at 00:53 (UTC 1)
Maður á stundum ekki til orð yfir bæði stafsetningar og málfarsvillum hjá fólki, ekki það að ég telji mig einhvern sérfræðing, en margt af þessu getur “ Púkinn“ lagað, en það er eins og sumt fólk hafi engan metnað fyrir að hafa pistla sína og athugasemdir rétt skrifaðar.
Stundum skilur maður varla það sem skrifað er.
En….ég er ekki alveg að skilja nafnið þitt hér…Maíja !
Púkinn ekki heldur
Eygló skrifar:
29/04/2009 at 00:04 (UTC 1)
(bara ætlað til 'skemmtunar'; ekki beint leiðrétting)
Bylgjan í gær, fréttir e.h.
Ellý Ármannsdóttir las… að fæðst hefði tvíhöfða lamb… en það væri í annað skiptið á mjög stuttum tíma. Hið fyrra lifði þó aðeins í hálfan sólarhring áður en það drapst…!
Ég ég eina fíflið sem fannst þessi frásögn drepfyndin? (þótt efnið sé ekkert gleðilegt)
„hlæja“ rosalega margir sem skrifa 'hlægja'. Sennilega er fólk ekki með kennimyndirnar á takteinum. Þá eru orðmyndir sem dregnar eru af þt. auðvitað með „g-i“. Getum við skýrt þetta út?
Margir nota þessa sögn á blogginu og það er svo auðvelt að hafa þetta „rétt“ vegna þess að oftar notum við g-lausu myndina.
Takk fyrir Málfarsmolana – ég er einlægur aðdáandi. Nokkuð góð sjálf, en get alltaf á mig blómum bætt 🙂