«

»

Molar um málfar og miðla 1224

Úr frétt á mbl.is (06.06.2013) Upplýsingafulltrúi Biskupsstofu mun tísta fyrir biskup meðan hún er í prédikunarstólnum. Eins gott að lesendur Morgunblaðsins skilji að sögnina að tísta hefur nú fengið aðra merkingu en þá sem tengist dýrum.

Landbúnaðar- sjávarútvegs- og umhverfisráðherra sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að utanríkisráðherra væri að fara erlendis. Hann átti við að utanríkisáðherra væri á förum til útlanda, færi utan. Meðan ráðherra er í útlöndum er hann erlendis. Það fer hinsvegar enginn erlendis.

Molalesandi vitnar í Viðskiptablaðið (06.06.2013) en þar segir í frétt um fjárlagahalla yfirstandandi árs að í óbirtum útreikningum fjármálaráðuneytis sé gert ráð fyrir að fjárlagahallinn í ár verði nær tífalt hærri en áður hafi verið gert ráð fyrir. lesandi spyr: Hvernig getur halli verið hár? Ekki er nema von að spurt sé. Yfirleitt er talað um halli sé lítill eða mikill, ekki hár eða lágur.

Í fréttum Ríkisútvarps (065.06.2013) var sagt frá skýrslu Hafrannsóknastofnunar um aflahorfur á næsta ári. Þar var meðal annars sagt: … samkvæmt því leggur aflareglan til að … Aflareglan leggur ekkert til. Það er bara bull. Þarna hefði til dæmis mátt segja: Samkvæmt aflareglunni ….

Á Stöð tvö var (06.06.2013) var fjallað um fangelsismál . Sama frétt birtist á visir.is. Þar sagði : Þar er einna helst horft til menntunar sem öflugan áhrifaval(svo!) í þeim efnum. Heldur er þetta óhönduglega orðað. Betra hefði til dæmis verið að segja: Þá er einna helst horft til þess að menntun er öflugur áhrifvaldur í þessum efnum. Það er ákaflega erfitt að átta sig á því hversvegna fréttaskrifari lætur svona texta frá sér fara. http://www.visir.is/milljonasparnadur-i-faekkun-endurkomu-fanga/article/2013130609380

Í að minnsta kosti tveimur morgunfréttatímum Ríkisútvarpsins (07.06.2013) var okkur sagt, að forsætisráðherra Tyrklands hefði flutt ræðu fyrir framan stuðningsmenn sína. Ekki finnst Molaskrifara þetta vera íslenskulegt orðalag. Ef til vill var hér verið að þýða úr ensku: in front of his supporters.

Í gærkveldi (07.06.2013) sýndi Ríkissjónvarpið þátt um vin okkar Lewis lögreglufulltrúa, sem sjaldan bregst. Aldrei þessu vant var þátturinn sýndur á kristilegum tíma. Sýning hófst upp úr klukkan níu. Takk fyrir það.

Hversvegna talaði íþróttafréttamaður íslenska Ríkissjónvarpsins ensku við sænskan knattspyrnuþjálfara (07.06.2013)? Ráða íþróttafréttamenn ekki lengur við norðurlandamálin? Eru aðeins gerðar kröfur um að íþróttafréttamenn geti talað ensku? Sumir þeirra mættu reyndar tala betri íslensku, þótt innanum séu menn sem eru ágætlega máli farnir.

Trausti bendir á þessa frétt á mbl.is og spyr: Stendur þá hundurinn í kúnni? http://www.mbl.is/bill/frettir/2013/06/05/hjolin_ad_sla_bilunum_ut_a_italiu/

Sómatilfinningin er ekki rík hjá ráðamönnum Ríkisútvarpsins. Viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, er hellt yfir hlustendur morgunþáttar Rásar tvö enskuslettum, ambögum og leikaraslúðri vestan frá Hollywood. Þetta er gert á hverjum einasta föstudagsmorgni. Halda ráðamenn Ríkisútvarpsins að hlustendur standi á öndinni og bíði þess að borið sé í þá slúður um leikara í Hollywood? Það er fjársóun hjá þessari almannastofnun að kaupa svona rusl.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála.

  2. Gunnar skrifar:

    Þetta verður að telja eðlilegt orðalag. Orðalagið er aðeins notað um skriðjökla, sem ýmist skríða fram, standa í stað ellegar hopa. Þegar jökullinn hopar styttist hann, þannig að í ljós kemur land, sem áður var hulið jökli.
    Kveðja
    Gunnar

  3. Eiður skrifar:

    Sæll Már, – takkk fyrir þetta. Ég er nú enginn sérfræðingur, en jarðfræðingar og jöklafræðingar hafa lengi notað þetta orðalag og ég sé svo sem ekkert athugavert við það. Það hefur eiginlega unnið sér hefð. Notað um það þegar jöklar bráðna, minnka – jökulsporðurinn styttist. K kv ESG

  4. Már Elíson skrifar:

    Sæll Eiður,

    Þú ferð um víðan völl í þínum skrifum og er það vel. En með þína visku, geturðu svarað mér þessu :

    Hvernig stendur á því, að ég sé oft og iðulega orðfærið…“jökullinn hefur hopað..“
    Ég hélt (miðað við mannskepnuna), að þegar einhver hopar, þá fer hann skref til baka ?
    Það getur ekki verið að heill jökull geti farið afturábak, eða er það ?
    Er ekki möguleiki snjór haf minnkað og fremri hluti „jökulsins“ sé orðinn meir sýnilegur ?
    Ég er ekki á því að jökull eða fjall, geti „bakkað“.

    Takk fyrir annrs ágæt bréf.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>