«

»

Molar um málfar og miðla 1281

Er enginn starfsmaður í forsætisráðuneytinu sem skammlaust getur  samið stutta fréttatilkynningu? Svo virðist ekki vera. Þetta er úr fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu á fimmtudag (15.08.2013): ,,Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mun eiga vinnukvöldverð hinn 4. september næstkomandi með Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og leiðtogum Norðurlandanna í Svíþjóð, en Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, býður til fundarins í tilefni af tvíhliða heimsókn forseta Bandaríkjanna til Svíþjóðar.” – SDG mun eiga vinnukvöldverð með  og  tvíhliða heimsókn forseta Bandaríkjanna … Þetta er ekki forsætisráðuneytinu til sóma.

 

Orðið á götunni á eyjan.is (14.08.2013):

,,En á þessum árum hefur staða Gísla Marteins sem stjórnmálamanns og borgarfulltrúa breyst töluvert. Orðið á götunni er að margir dyggir stuðningsmenn hans á fyrstu metrunum hafi nú alveg snúið við honum blaðinu meðan aðrir hafi gengið til liðs við baráttu hans fyrir nýrri sýn í borgarmálunum”. Hafa alveg snúið við honum blaðinu !!! Það var og. Átt er við að stuðningsmnnirnir hafi snúið við honum bakinu, – hætt að styðja hann.

Sjá: http://vefir.pressan.is/ordid/

 

Valur sendi eftirfarandi (14.08.2013): http://www.visir.is/viltu-lata-jarda-thig-i-geimnum-/article/2013130819613,, Hér er fjallað um fyrirtæki sem býður upp á að láta fljúga með ösku ástvina út í geim og dreifa henni þar. Þetta kallar Þórhildur Þorkelsdóttir hjá visir.is „Jarðarför“. Ég hefði nú frekar kallað þetta útför, þar sem ég fæ ekki séð að neinn sé jarðaður í þessari ferð.

Fyrir utan að við þessa frétt stendur: „Þórhldur Þorkelsdóttir skrifar:“ Það er nú slæmt þegar menn ná ekki einu sinni nafninu sínu rétt”.  Fyrirsögn fréttarinnar: Viltu láta jarða þig í geimnum er auðvitað arfavitlaust bull. Þakka bréfið, Valur.

 

Hversvegna kallar menntamáalaráðherra Ríkisútvarpið Rúv ?  ( fréttir Ríkissjónvarps 14.08.2013). Stofnunin heitir Ríkisútvarpið. Ráðherra ætti ekki að fara eftir þeirri skipan útvarpsstjóra að bannfæra hið  rétta heiti þessarar mikilvægu Ríkisstofnunar sem að lögum heitir Ríkisútvarpið.

 

Lesandi skrifar (15.08.2013): ,,Þú spyrð hvað lesendur segi um talsháttinn: ,,Matur var neyddur ofan í fanga“. Breytum lítillega einu orði til aukins skilnings. Segjum :,,Maður var neyddur ofan í fanga“. Hvor varð fyrir ,,nauðunginni“. Fanginn – eða maðurinn. Auðséð er í fyrra dæminu að verið er að neyða matinn, en ekki fangann.” Molaskrifari þakkar bréfið. Ekki þarf frekar um að spyrja.

 

Axel sendi eftirfarandi athugasemd (15.08.2013):

,,Ég er ekki alltaf sammála Molaskrifara um dagskrárstefnu Rúv. En ég er sammála því að Rúv mætti sýna meira af vönduðu efni um sögu og samfélag.

Þá hefur kvikmyndavalið verið sérlega slakt í sumar!” Það er ekki sterkt að orði kveðið um kvikmyndavalið !

 

Lesandi hafði samband við Molaskrifara vegna fréttar á Stöð tvö (14.08.2013) um fyrirhugaða sölu Landsbankans. Þar hefði verið talað um að sala bankans yrði raungerð. Átt var við að bankinn yrði seldur. Hann velti því fyrir sér hvort sá sem þetta skrifaði hefði talið sig vera að skrifa mjög vandað mál. – Sennilega. En að raungera sölu er bara hallærislegt stofnanamál um að selja eitthvað.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Mikið til í þessu hjáþér, Steingrímur.

  2. Steingrímur Kristinsson - 2102344-5449 skrifar:

    UM LAND ALLT…………..
    Ekki þykir mér óeðlilegt málfar að heyra veðurfræðing segja: „Búast má við rigningu UM LAND ALLT á morgun og ef til vill næstu daga……..“
    En það pirrar mig nokkuð þegar í auglýsingum frá ýmsum aðilum segir sem dæmi: „……..myndin verður sýnd í völdum kvikmyndahúsum UM LAND ALLT“ –Það eru aðeins örfá kvikmyndahús á landinu sem teljast „valin“ það er geta sýnt viðkomandi kvikmyndir sem auglýstar eru með þeirri tækni sem auglýst er. (í þrívídd)
    Eða „Bensínstöðvar N1 eru UM LAND ALLT„ — Þær eru það alls ekki, til dæmis ekki á Siglufirði. Þessi dæmi eru aðein lítið brot um alhæfinguna „UM LAND ALLT.
    Er þessi háttur á alhæfingu setningarinnar eðlilegur, eða er ég bara orðinn of gamall, 79 ár ?

  3. Kristján skrifar:

    HM í frjálsum íþróttum er á RÚV. Annar lýsenda notar sögnina „að taka“ ótæpilega.

    Keppendur taka gull, silfur eða brons. Einn var búinn að taka tvö stökk og annar að taka fyrsta sætið. Svo var gert hlé vegna auglýsinga: „Við skulum taka auglýsingar“ !
    Áður fyrr fengu svona útsendingar frið fyrir auglýsingum, en það er annað mál.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>