«

»

Molar um málfar og miðla 1282

Af mbl.is (16.08.2013): Á öðrum tímanum í nótt tilkynnti skip um þrjá borgarísjaka sem eru staðsettir um það bil 45-50 sjómílur norðnorðaustur af Hornbjargi. Hér hefði nægt að segja: … borgaírsjaka sem eru um það bil … Orðið staðsettir er óþarft, – eins og oftast.

Meira af mbl.is (18.08.2013): Þar segir í fyrirsögn:  Við munum sigra þetta stríð. Fréttin hefst svona: ,,Mustafa Hijazi, ráðgjafi hjá forsætisráðuneyti Egyptalands, segir að yfirvöld muni sigra stríðið við stuðningsmenn Mohamed Morsi,…” Það sigrar enginn stríð. Menn hafa sigur eða vinna sigur í stríði. Fréttabarn á sunnudagsvakt hjá mbl.is

 

Á laugardagskvöld (17.08.2013) sagði Stöð tvö frá útför hollenska prinsins Johans Friso. Þá sagði þulur: ,, … og mátti meðal annars sjá Ólaf Noregskonung við athöfnina”. Þetta væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að Ólafur Noregskonungur lést 17. janúar 1991. Við athöfnina var hinsvegar Haraldur Noregskonungur, sonur Ólafs og sást hann í fréttamyndinni frá athöfninni. Engin leiðrétting.

Kristján skrifaði (17.08.2013): ,,HM í frjálsum íþróttum er á RÚV. Annar lýsenda notar sögnina „að taka“ ótæpilega. Keppendur taka gull, silfur eða brons. Einn var búinn að taka tvö stökk og annar að taka fyrsta sætið. Svo var gert hlé vegna auglýsinga: „Við skulum taka auglýsingar“ !
Áður fyrr fengu svona útsendingar frið fyrir auglýsingum, en það er annað mál.”

Auðvitað ættu svona útsendingar að vera án auglýsinga. Það ætti kannski líka að gefa þessum fréttamanni frið, – frið til að vanda málfar sitt.

 

Á fésbók vakti sá ágæti blaðamaður Sigurður Hreiðar athygli á fjólufrétt á mbl.is um ljósabúnað bíla þar sem talað var um höfuðljós.

http://www.mbl.is/bill/frettir/2013/08/15/hofudljosin_i_olagi/. Réttilega benti Sigurður Hreiðar á að hér væri enskt orðalag á ferðinni. Á ensku er talað um headlights um það sem við köllum ökuljós, framljós eða aðalljós. Á leið um Hellisheiði um  helgina vakti það athyglu skrifara hve ótrúlega margir bílar voru með ljósabúnað, sem sýnilega var í ólagi, – voru eineygðir.

En á mbl.is hefur áður verið fjallað um höfuðljós, og þá réttilega. Það var 16.10.2012:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/10/16/hofudljos_til_skurdadgerda/

 

Þorvaldur vísað til tilvitnunar í afar illa skrifaða frétt á visir.is, sem bent á var á í Molum nýlega (1280). Þar segir m.a.: ,, Segir Musk að þessi nýja tækni muni aldrei lenda í árekstri eða klessa á, verði ódýrari og hraðari en háhraða lestir og þar að auki muni hún útvega alla orku sjálf sem knýr tækið áfram”.

Þorvaldur bendir á að það hafi farið hjá fréttaskrifaranum , – og fleirum að hér sé greinilega búið að finna upp eilífðarvélina! Rétt athugað, Þorvaldur.

 

Mbl.is birti (16.08.2013) fréttatilkynningu frá Ríkisútvarpinu um spurningaþáttinn Útsvar. Þar segir: “Fyrirkomulag og efni þáttarins verður að einhverju leyti stokkað upp og því mega áhorfendur meðal annars eiga von á nýjum keppnisgreinum og fjölbreyttari spurningahólfum “. Spurningahólf?

 

Á sjónvarpsforsíðu vefmiðilsins visir.is stóð á laugardag: Þúsundir úðu í sig ís í Hveragerði. Átti auðvitað að vera: Þúsundir úðuðu í sig ís í Hveragerði. Hámuðu í sig ís í Hveragerði.

 

Molaskrifari heyrði menntamálaráðherra segja í útvarpsviðtali að Morgunblaðið væri frjáls fjölmiðill. Það er misskilningur hjá ráðherra. Morgunblaðið er í eigu sægreifa, kvótaeigenda, og ræskir sig ekki um sjávarútvegsmál nema það sé í þágu eigenda blaðsins. Það er mikið frelsi.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Réttn athugað, Valur.

  2. Valur skrifar:

    Ekki nóg með staðsetninguna, heldur var það skiptið sjálft sem tilkynnti um jakana.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>