«

»

Molar um málfar og miðla 1283

Í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (17.08.2013) var farið í Laugardalinn í mikilli veðurblíðu. Fréttamaður sagði: ,, … sýna sig og sjá aðra og versla ýmsan varning”. Fréttamenn, einkum af yngri kynslóðinni, eiga margir hverjir afar erfitt með að gera greinarmun á sögnunum að versla og að kaupa. Hér hefði fremur átt að tala um að kaupa ýmsan eða ýmiskonar varning.

 

Af mbl.is (18.08.2013): ,,Stríðsfréttamaðurinn Ammar Abd Rabbo segist hafa brugðið mikið nýverið þegar fregnir bárust af því … “. Hér hefði farið betur á að segja: ,,… segir að sér hafi verið mjög brugðið, eða að sér hafi mjög brugðið. Ekki segist hafa brugðið. Hann segist hafa brugðið fæti fyrir þjófinn , – svo hann féll kylliflatur.

 

Fréttamenn Ríkissjónvarps komu sér ekki saman um það í fréttunum á laugardagskvöld (17.08.2013) hvernig bera ætti fram heiti enska háskólabæjarins Cambridge. Sumir sögðu /kambrids/ aðrir /keimbbrids/. Seinni framburðinn er réttur og hann notaði Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttaþulur þetta kvöld. Í þessum sama fréttatíma var farið rangt með nafn höfundar textans í Ragnheiði , óperu Gunnars Þórðarsonar. Það var ekki leiðrétt í fréttaímanum, svo undarlegt sem það nú er. Síðbúin leiðrétting og afsökun kom á vefsíðu Ríkisútvarpsins. Þar var talað um höfund Librettósins ( með upphafsstaf), en libretto er alþjóðlegt orð yfir óperutexta. Höfundurinn er Friðrik Erlingsson.

 

Ég dreg ekki neitt dul á það, sagði utanríkisráðherra í fréttum Ríkissjónvarps (17.08.2013). Það var og. Ég dreg ekki dul á ,er venjulega sagt.

 

Bifreið valt í Arnarfirði, sagði í fyrirsögn á mbl.is (17.08.2013) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/08/17/bifreid_valt_i_arnarfirdi/ Í fréttinni segir hinsvegar: ,,Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í Álftafirði í dag með þeim afleiðingum að bifreiðin valt.”   Engir prófarkalesarar á vakt á laugardagskvöldi.

 

Berglind Eygló Jónsdóttir sagði í frétt Ríkissjónvarps (17.08.2013) um brúarvígslu í Harðangursfirði í Noregi að margir gestanna hefðu verið klæddir í sitt fínasta púss. Plús fær hún fyrir það ágæta orðalag.

 

Fróðlegt viðtal við blaðamennina Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson í morgunþætti Rásar tvö (20.08.2013) um nýja bók þeirra félaga ,Ísland ehf.  Greinilega skyldulesning fyrir áhugafólk um þjóðmálin og þróun samfélagsins eftir hrun.

 

Molalesandi benti á enska hugsun í orðalagi í fyrirsögn og frétt á mbl.is (18.08.2013) Verðmiði á fréttamönnum í Sýrlandi , en þannig hljóðar fyrirsögn fréttarinnar. www.mbl.is/frettir/erlent/2013/08/18/verdmidi_a_frettamonnum_i_syrlandi/ Réttmæt ábending. Það er óíslenskulegt orðalag að tala um að setja verðmiða á fólk.

 

Af mbl.is (17.08.2013): en talið er að upplýsingarnar sem breska lögreglan hefur undir höndum sanni að meðlimur breska hersins hafi verið valdur að slysinu. Meðlimur breska hersins? Það skyldi þó ekki hafa verið hermaður?

 

Dv.is sagði (17.08.2013) frá útsendingarklúðri hjá Ríkissjónvarpinu. Vitnað er í skýringar fulltrúa sjónvarpsins á fésbókarsíðu þess. Á dv.is segir: ,,Fulltrúi Nýmiðladeildar Ríkisútvarpsins, sem væntanlega hefur umsjón með Facebook-síðu RÚV, biðst afsökunar á þessari bilun fyrir hönd RÚV. „Hef heyrt því fleygt að myndin var í 25 römmum en hljóðið í 24 römmum og vegna sumarfría hafi viðbragðið við villunni ekki verið eins og það átti að vera,“ segir í afsökunarbeiðninni til áhorfenda” Venjulegu fólki allsendis óskiljanleg afsökunarbeiðni.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>