«

»

Molar um málfar og miðla 1284

Svo sem Molalesendur gjörla vita er skrifari á stundum sérvitur, þegar að málfari kemur. Í fréttum að undanförnu hefur ítrekað verið talað um að fólk taki lögin í eigin hendur. Molaskrifari er vanur því að heyra talað um að fólk taki lögin í sínar hendur. Þegar fólk tekur til sinna ráða án tillits til laga og reglna. Hvað segja lesendur?

 

Kroppa í Seyðishóla án leyfis, er ágæt fyrirsögn á mbl.is (19.08.2013) um efnistöku úr Seyðishólum í Grímsnesi þar sem framkvæmdaleyfi eru ekki fyrir hendi. Þá hefur komið í ljós að Vegagerð ríkisins  skiptir  við verktaka sem taka efni  án tilskilinna leyfa. Það ber vott um slakt eftirlit hjá opinberu fyrirtæki.

 

Í DV (19.08.2013) er vitnað í svar frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem segir: ,,Á tímum skertra fjárheimilda hafa leigusamningarnir því orðið myllusteinar um höfuð stofnananna” . Sé eitthvað einhverjum mjög erfitt eða íþyngjandi er málvenja að segja að það sé eins og myllusteinn um háls viðkomandi. Ekki myllusteinn um höfuð.

 

Umfjöllun Stöðvar tvö (19.08.2013) um slys á knattspyrnu velli sólarhring áður bar vitni um skrítið fréttamat. Þessi gamla frétta var fyrsta frétt og svo ítarleg umfjöllun í íþróttafréttum. Í fréttum Ríkissjónvarps var þetta í eðlilegum hlutföllum og samhengi. Þarna fór sem betur fer miklu betur en á horfðist. Í sama fréttatíma Stöðvar tvö var sagt frá gíslatöku í Ingolstadt í Þýsklandi. Þá var hálfur annar klukkutími og rúmlega það frá því greint var frá því á vef Ríkisútvarpsins að búið væri að yfirbuga gíslatökumanninn og frelsa gíslana. Undarlega léleg frammistaða. Hinsvegar var Stöð tvö fyrst með mikilvæga frétt um að Kínverjar hefðu viljað kaupa tvo íslenska banka, Íslandsbanka og Arion banka ,- alveg sama hvað þeir kostuðu. Stórfrétt og mikið umhugsunarefni.

 

Leikurinn var aðeins fjögurra mínútna gamall, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins (19.08.2013) Einkennilegt hvað íþróttafréttamenn hafa tekið miklu ástfóstri við þetta enskulega orðalag.

 

Prýðileg fræðslumynd frá Umferðarstofu um hjólreiðamenn í umferðinni var sýnd í Ríkissjónvarpinu á mánudagskvöld (19.08.2013) Molaskrifari saknaði þess hinsvegar að ekki skyldi vikið að rétti hjólreiðamanna á gangbrautum. Eiga þeir sama rétt og fótgangandi vegfarendur ? Hver er réttur þeirra?

 

Steingrímur skrifaði (18.08.2013): ,,UM LAND ALLT…………..
Ekki þykir mér óeðlilegt málfar að heyra veðurfræðing segja: „Búast má við rigningu UM LAND ALLT á morgun og ef til vill næstu daga……..“
En það pirrar mig nokkuð þegar í auglýsingum frá ýmsum aðilum segir sem dæmi: „……..myndin verður sýnd í völdum kvikmyndahúsum UM LAND ALLT“ –Það eru aðeins örfá kvikmyndahús á landinu sem teljast „valin“ það er geta sýnt viðkomandi kvikmyndir sem auglýstar eru með þeirri tækni sem auglýst er. (í þrívídd)
Eða „Bensínstöðvar N1 eru UM LAND ALLT„ — Þær eru það alls ekki, til dæmis ekki á Siglufirði. Þessi dæmi eru aðein lítið brot um alhæfinguna „UM LAND ALLT.
Er þessi háttur á alhæfingu setningarinnar eðlilegur, eða er ég bara orðinn of gamall, 79 ár ?” Nei, þetta eru engin ellimörk, Steingrímur. Síður en svo. Það er mikið til í því sem þú segir um þessa alhæfingu sem við heyrum aftur og aftur. Þakka þér bréfið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt, Eirný. Takk .

  2. Eirný Vals skrifar:

    Samgöngustofa er ný stofnun er varð til þann 1. júlí, 2013 við sameiningu fjögurra stofnana, Siglingastofnunar, Vegagerðarinnar, Umferðarstofu og Flugmálastjórnar.

  3. Eiður skrifar:

    Þakka ábendinguna, Linda.

  4. Linda skrifar:

    Vinsamlega ábending.

    Það er þó nokkuð langt síðan að nafni Vegagerðar ríkisins var breytt í Vegagerðin og Umferðarstofa heitir nú Samgöngustofa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>