«

»

Molar um málfar og miðla 1308

Fyrstu tveir þættirnir í þáttaröð Ríkissjónvarpsins um tónlist, Útúrdúr ( fínt nafn!) eru tvímælalaust eitt vandaðasta tónlistarefni sem Ríkissjónvarpið hefur boðið okkur. Ef ekki það vandaðasta. Vonandi verður framhaldið ekki síðra. Þessir fyrstu þættir opna áhugafólki um tónlist nýjar víddir, nýja tónheima. Allir aðstandendur þessara þátta , – og Ríkissjónvarpið, – eiga heiður skilinn fyrir þetta framtak. Mikinn heiður. Fyrstu þættirnir hafa einkennst af óbrigðulli smekkvísi og tæknihliðin, myndhliðin, er að mati Molaskrifara óaðfinnanleg. Það er tilhlökkunarefni að eiga fleiri svona þætti í vændum. Takk.

 

Úrslit kosninga í Þýskalandi eru auðvitað stórfrétt. Fréttastofa Ríkissjónvarps gerði þeim góð skil í gærkveldi (22.09.2013) og Ingólfur Bjarni stóð fyrir sínu. Fréttastofa Stöðvar tvö leit á kosningar sem minniháttar frétt, sem holað var niður aftarlega í fréttatímanum. Undarlegt fréttamat.

 

Fróðlegur og tímabær pistill Þórdísar Arnljótsdóttur um eitraða sveppi í fréttatíma Ríkissjónvarpsins á laugardagskvöld (21.09.2013). Þarft verk að vekja athygli á þessu.

 

Í viðtali í Fréttatímanum (20-22.09.2013) talar útvarpskonan Gunna Dís (morgunstjarna Rásar tvö) um einhverja fjóra mánuði. Einhverja fjóra mánuði? Hvaða fjóra mánuði? Voru það fjórir mánuðir í fyrra eða fjórir mánuðir fyrr á þessu ári? Þetta verður æ algengara að sjá og heyra, – bein áhrif úr ensku, some four months. Konan átti líklega við um það bil fjóra mánuði.

 

Í sama tölublaði Fréttatímans var sagt í fyrirsögn að engin lífræn mjólk væri fáanleg. Þá er væntanlega nóg til að ólífrænni mjólk, – hvernig sem hún nú er og hvaðan sem hún nú kemur.

 

Íslenskir fjölmiðlar láta eins og hugmyndir Alvogens lyfjafyrirtækisins um stórhýsi og stórrekstur í Vatnsmýrinni séu þegar orðnar að veruleika. Molaskrifari minnist þess ekki að hafa heyrt nokkurn frétta spyrja um fjármögnun þessara miklu áætlana sem vonandi reynast ekki hreinar skýjaborgir.

 

Í veðurfréttum Stöðvar tvö (21.09.2013) var talað um að slydda hefði fallið inn til landsins. Molaskrifara hefði þótt eðlilegra að segja að slydda hefði verið á hálendinu.

 

Elimar Hauksson blaðamaður skrifar um Jón Gnarr borgarstjóra á visir.is (21.09.2013): Jón segist ekki skammast sín fyrir faðir sinn og segist í dag vera sáttur við að vera sonur þessa merkilega, hrausta og óvenjulega manns. Varla er þetta rétt eftir borgarstjóra haft,- er blaðamaðurinn kannski ekki betur skrifandi en þetta? Molaskrifari hafði góð kynni af Kristni, föður borgarstjórans.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>