«

»

Molar um málfar og miðla 1391

 

Það er búið að segja svo margt um einstaklega ósmekkleg og óviðeigandi ummæli þáttastjórnanda í svokallaðri EM-stofu Ríkissjónvarpsins um frammistöðu íslenska handboltaliðsins gegn Austurríki að litlu er þar við að bæta. Ummæli af þessu tagi eru sem betur fer einsdæmi. Það eina sem Molaskrifari furðar sig á er að íþróttafréttamaðurinn skuli enn starfa fyrir Ríkissjónvarpið. Hjá alvöru stöð í alvöru landi þarf ekki að efast um að hann hefði verið látinn taka pokann sinn. Samstundis. Hér gerist ekkert nema, hvað fram er borin afsökunarbeiðni. Starfandi útvarpsstjóri skrifar bréf. Þar við situr. Haft er eftir honum á mbl.is (19.01.2014) að tekið verði á málinu á ,,viðunandi máta”og ,,gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana”. Því fylgja engar skýringar. Hvað þýðir það? Sennilega ekki neitt.

 

Úr frétt um villikött á mbl.is (18.01.2014): Eyrun á honum bera merki þess að vera frostbitin auk þess sem hann er með eyrnarmaur og mikil óhreinindi í eyrum. Það sem á ensku er kallað frostbite heitir kal á íslensku. Kötturinn var kalinn á eyrum. Svo er ekkert til sem eyrnarmaur, eins og talað um í fréttinni. Réttara væri að tala um eyrnamaur.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (17.01.2014) var sagt: …var háttaður upp í rúm af móður sinni. Leiðinleg þolmyndarnotkun. Germynd alltaf betri. Móðir hans hafði háttað hann upp í rúm.

 

Þetta er ekki að fara koma fyrir aftur. ..” Þetta var haft eftir ungri telpu á visir.is (18.01.2014). sennilega er þetta algengur talsmáti hjá ungu fólki nú um stundir.

 

Í íþróttafréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (18.01.2014) var sagt að lið hefði spilað mjög vel, eða frábærlega, varnarlega. Orðskrípin sóknarlega og varnarlega virðast orðin föst í máli íþróttafréttamanna.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Gunnar. Má ég birta þessa athugasemd þína undir nafni?

  2. Gunnar Þór Finnbjörnsson skrifar:

    Takk fyrir frábæra pistla Eiður, sem ég les gjarnan.

    Við Íslendingar notum orðatiltækið „búnir að hinu og þessu“ óþarflega mikið.
    “ Strákarnir okkar eru búinir að vera að spila svo…“ í stað þess að segja
    “ hafa spilað.“

    Hér að ofan stendur “ það er búið að segja svo margt um…“ Ég held að snotrara hefði verið “ það hefur svo margt verið sagt.“

    Bestu kveðjur.

    Gunnar Þór Finnbjörnsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>