«

»

Molar um málfar og miðla 1392

 

Molalesandi skrifaði (20.01.2014): ,,Þú skrifar um málfar fjölmiðla – hvað teljist vera góð íslenska og hvað miður góð. Þar hefur þú m.a. barist við að reyna að leiðrétta það orðalag íþróttafréttamanna að segja ,,að sigra keppni“ í stað þess að segja „að sigra í keppni“. Hingað til hefur þú ekki þurft að berjast við það geðslag íþróttafréttamanna að líkja sigri íslenska landsliðsins á því austurríska við þegar þýskir nasistar stráfelldu forfeður austurríska landsliðsins. Þegar nasistar murkuðu lífið úr öfum og langöfum handboltamannanna, sem mættu ,,strákunum okkar“ í kappleik.

Svo heillum horfin virðist íslenska þjóðin vera – og stjórnendur Ríkisútvarpsins – að það þyki barasta allt í lagi að opinber starfsmaður láti slík orð falla í ríkisútvarpi Nóg sé að segja:,, Fyrirgefðu, góurinn, þetta var bara sagt í hita leiksins“.

Hvers er þá að vænta, ef svo skyldi fara að íslenska landsliðið bæri sigurorð af því spænska? Mun þá starfsmaður Ríkisútvarpsins líkja því afreki við þegar Íslendingar undir forystu Ara frá Ögri slátruðu óvopnuðum og hröktum spænskum fiskiönnunum í fjörðum vestur? Gera hvorki umræddur fréttamaður, stjórnendur Ríkisútvarpsins né þorri íslensku þjóðarinnar sér grein fyrir því, að þessi ,,uppákoma“ var og er þjóð okkar til háborinnar skammar og enn fremur til skammar að sami einstaklingur skuli halda áfram þáttastjórnun sinni á sama vettvangi. Það hlýtur að þýða að ef þessi opinberi starfsmaður hefði látið sér það um munn fara áður en hann var ráðinn til starfa að íslenska landsliðið myndi slátra því austurríska líkt og nasistar slátruðu Austurríkismönnum þá hefði hann engu að síður verið ráðinn til starfsins? Ummælin eru ekki talin valda því að honum sé ekki lengur sætt í starfi. Þá hefðu þau ekki heldur valdið því að honum hefði ekki verið treyst til starfsins af ráðamönnum Ríkisútvarpsins ef hann hefði látið sér þau um munn fara áður en hann var ráðinn til starfans.

Gerir fólk sér virkilega ekki grein fyrir þeim skammarbletti, sem þessi ummæli hafa sett á íslensku þjóðina, íslenska ríkisútvarpið – og íslenska íþróttafréttamenn?  Að ,,sigra keppni“ er hjóm eitt samanborið við það að sigra í keppni – svona.”  Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Úr frétt Ríkisútvarpsins (19.01.2014) um eldsvoðann í Lærdal í Noregi: … því hvort tveggja hiti og rafmagn eru úti vegna eldsvoðans. Ekki verður sagt að þetta sé vel orðað. Þarna var sem sagt rafmagnslaust og enginn hiti í húsum.

http://www.ruv.is/frett/snua-heim-i-kold-hus-og-rafmagnslaus

 

Í fréttum Ríkisútvarps og í fleiri fjölmiðlum, reyndar (20.01.2014) var sagt frá innbroti. Tekið var þannig til orða að þjófurinn hefði farið í gegnum svalahurð. Af mbl.is (20.01.2014) : Þá var farið inn um svalahurð í öðru íbúðarhúsnæði og þaðan stolið Dell fartölvu og síma. Hann hefur væntanlega verið illa útleikinn eftir að hafa farið í gegnum hurðina, eða inn um hurðina! Hurð er nefnilega flekinn sem lokar dyraopi. Þjófurinn fór inn um svaladyr. Þetta hefur verið nefnt í Molum áður. Orðalagið er sennilega ættað úr dagbók lögreglunnar og svo étur hver fjölmiðillinn á fætur öðrum það upp, – athugasemdalaust.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>