«

»

Molar um málfar og miðla 1419

Trausti benti á þessa frétt á visir.is (19.02.2014): http://www.visir.is/kinverjar-aetla-ad-byggja-lengstu-jardgong-i-heiminum/article/2014140218822
Hann segir: Kostnaður við gerð gangnanna verður á bilinu 26 milljarða Bandaríkjadala.
Hér er ekkert bil í kostnaðaráætlun.
Kostnaðurinn er áætlaður 26 milljarðar USD!

Molaskrifari þakkar Trausta og bætir við. Svo á þetta auðvitað að vera: Kostnaður við gerð ganganna, ekki gangnanna!

Af mbl.is (19.02.2014): Slit varð á ljósleiðara Mílu milli Flúða og Laugaráss fyrr í dag. Undarlegt orðalag. Ljósleiðari slitnaði, fór í sundur. Hafi það verið vinnuvél sem sleit ljósleiðarann hefði mátt segja það.

Meira af mbl.is sama dag: Geir er menntaður vélvirki frá Vélsmiðjunni Héðni hf., menntaður lögreglumaður frá Lögregluskóla ríkisins og menntaður í stjórnunarfræðum frá Háskóla Íslands. Þetta er vissulega mikil menntun, en ekki er orðaforðinn mikill hjá þeim sem skrifaði.

 

Molalesandi spyr: Hversvegna virðast menn hafa gleymt hinu ágæta orði ókeypis og tala þess í stað um að eitt og annað sé frítt? Molaskrifari tekur undir með spyrjanda og þakkar ábendinguna.

 

Úr frétt á visir.is (14.02.2014): Gífurlegt magn svifryks hefur þyrlað um alla Reykjavík í dag. Hér hefði nægt að segja: Gífurlegt magn svifryks hefur verið í Reykjavík í dag, eða í loftinu í Reykjavík í dag. Ekki þyrlað um alla Reykjavík. http://www.visir.is/folk-hvatt-til-ad-halda-sig-innandyra-/article/2014140218609

 

Hverjum langar ekki í kjúkling marinereðan á Portúgalskan hátt? Svona auglýsir fyrirtækið Portugalgrill á fésbók (19.02.2014). Tvær villur í stuttri setningu. Ætti að vera: Hvern langar ekki í kjúkling marineraðan á portúgalskan hátt? Ef matreiðslan er í stíl við málfræðina gefur Molaskrifari ekki mikið fyrir þetta.

 

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (19.02.2014) var talað um fjórfættan senuþjóf (hund sem gerði stykki sín á vellinum í miðjum knattspyrnuleik í Argentínu) og sagt hann hefði svo spássérað agalega lukkulegur út af vellinum. Ja hérna!

 

Á fésbók var bent á þessa villu í fyrirsögn á dv.is (20.02.2014): Húðskammar keppenda fyrir að skrópa. Sjá: http://www.dv.is/lifsstill/2014/2/19/hudskammar-keppenda-fyrir-ad-skropa/ Húðskammar keppanda, á þetta að vera.

 

Molaskrifara finnst mælirinn fullur og skekinn, þegar Kastljósið í Ríkissjónvarpinu er líka lagt undir íþróttir að loknum fyrri íþróttafréttum kvöldsins, – á fimmtudagskvöld (20.02.2014). Kastljós um íþróttir milli tveggja íþróttafréttatíma !

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>