«

»

Molar um málfar og miðla 1429

 

Rafn skrifaði (05.03.2014): ,,Í málfarsmolum nr. 1427 finnur Haraldur Ingólfsson að því að í fréttaflutningi hafi verið talað um, að Suður-Afríkaninn Óskar Pistoríus hafi skotið unnustu sína og það lagt að jöfnu við, að hann hafi þar verið sagður morðingi hennar.

Samkvæmt þeim fréttum, sem ég hefi séð og heyrt um málið er ágreiningslaust, að hinn ákærði hafi skotið þá látnu. Ágreiningurinn er um hvort það hafi verið ásetningur hans eða slysaskot, það er að hann hafi talið sig vera að verjast innbrotsþjófi.

Það var samkvæmt því ekkert rangt við hinn gagnrýnda fréttaflutning og því hvergi slegið föstu, að um morð hafi verið að ræða.” Molaskrifari þakkar Rafni bréfið. Hann hefur mikið til síns máls.

 

Prýðilegur pistill í fréttum Ríkissjónvarps (05.03.2014) um meistaraverk þeirra Gunnars Þórðarsonar, óperuna Ragnheiði. Óperan var frumsýnd í Hörpu sl. laugardagskvöld og þar ætlaði fagnaðarlátunum í lokin seint að linna. Ógleymanlegt kvöld. Hversvegna rataði þetta ekki í fréttir fyrr en á miðvikudagskvöld?

 

Í fréttum Stöðvar tvö (05.03.2014) sagði Þórhildur Þorkelsdóttir, fréttamaður: Það var fjölskrúðlegt mannlífið í Kringlunni í dag … Fjölskrúðugt hefði alveg dugað.

 

Getur allt verið stórt? Í frétt á mbl.is is (05.03.2014) segir: Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2014 er sú stærsta í sögu félagsins … Getur áætlun verið stór? Hefði ekki til dæmis mátt segja að áætlunin væri sú viðamesta í sögu félagsins?

Ekki ber að vanþakka það þegar Ríkissjónvarpið býður upp á nýlegar heimildamyndir um samtímann, eins og gert var í gærkvöldi (05.03.2014). Þá fengum við að sjá mynd um Norður Kóreu. Molaskrifari er sérstakur áhugamaður um það land, sögu þessu og stöðu í samtímanum. Fannst raunar ekki mjög mikið til um þessa mynd. Efnislýsing í prentaðri dagskrá var ekki í góðu samræmi við raunverulegt efni myndarinnar. Minnist þess að hafa nýlega horft á mynd um þetta lokaða pyntingaríki (man ekki á hvaða stöð) sem var miklu áhugaverðari og gaf gleggri mynd að þessu undarlega landi. En takk, samt. Heimildamyndir og fréttaskýringamyndir um heimsmálin mætti alveg sýna tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Samtímis mætti draga úr endalausu íþróttadekri Ríkissjónvarpsins.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>