«

»

Molar um málfar og miðla 1436

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (15.03.2014, minnir mig) var tvívegis talað um LÍÚ sem Landssamband íslenska útgerðarmanna. Þetta á ekki að henda þrautreyndan fréttmann eins og Arnar Pál Hauksson. LÍÚ heitir fullu nafni Landssamband íslenskra útvegsmanna. Ástæðulaust er að útrýma því ágæta orði útvegsmaður. Einhverjum kann að finnast þetta smáatriði. Smáatriðin þurfa líka að vera rétt í öllum fréttum. Þetta hefur verið nefnt hér áður.

Í sama fréttatíma var sagt frá gjaldtöku af ferðamönnum sem koma að Geysi. Ævinlega var sagt á Geysi. Molaskrifara finnst eðlilegra að segja við Geysi eða að Geysi.

 

Nokkuð algengt er að sjá villur í auglýsingum,sem eiga rætur að rekja til auglýsingastofa, til þeirra sem semja og hanna auglýsingar. Í Morgunblaðinu á laugardag (15.03.2014) er heilsíðuauglýsing frá fyrirtæki sem heitir Kaupum gull. Í auglýsingunni segir: Kaupum gegn staðgreiðslu eða lánum út á eftirfarandi muni: Vönduðum úrum, skartgripum og demöntum, gull og verðmætum málmum, verðmætum bifreiðum, málverkum og antikmunum. Í upptalningunni ætti allt að vera í nefnifalli: Kaupum gegn staðgreiðslu eða lánum út á eftirfarandi muni: Vönduð úr, skartgripi og demanta, – og svo framvegis. Auglýsingastofur eiga að vanda málfar í auglýsingum.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (15.03.2014) sagði formaður Samfylkingarinnar Árni Páll Árnason (efnislega) að kynslóð genginna stjórnmálamanna stjórnaði gerðum formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Gengnir stjórnmálamenn eru dánir stjórnmálamenn. Samanber, – góður er hver þá genginn er. Allir eru góðir, þegar þeir eru dauðir!

 

Volkswagen Golf hefur verið valinn sem bíll ársins, segir í sjónvarpsauglýsingu frá Heklu. Hér er tilvísunarfornafnið óþarft. Betra hefði verið að segja: Volkswagen Golf hefur verið valinn bíll ársins.

 

Stjórnandi Gettu betur í Ríkissjónvarpinu heldur ítrekað áfram (15.03.2014) að kalla auglýsingar skilaboð. Það er út í hött. Hann á að kalla auglýsingar auglýsingar.

 

Í prentaðri dagskrá Ríkissjónvarps segir (16.03.2014): ,,Einstaklingar sem hafa verið taldir látnir til nokkurs tíma fara að dúkka upp …. “ Hvar er nú málfarsráðunautur?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>