«

»

Molar um málfar og miðla 1437

Af dv.is (15.03.2014). Hann þekkir vel til hjólreiða og starfaði meðal annars hjá Örninum í Reykjavík frá árinu 2010 til 2011. Starfaði hjá Örninum! Það var og. Erninum, hefði það átt að vera. Fákunnátta eða beygingahræðsla.

Meira af dv.is: Skúli Gunnar Sigfússon benti á eftirfarandi á dv.is (15.03.2014): Þetta er í fyrsta skipti sem skólinn sigrar keppnina en þeir öttu kappi við Borgarholtsskóla. Það ætlar seint að eldast af fjölmiðlum að sigra keppni. Við tölum um að sigra í keppni, vinna keppni en sigra andstæðing.

 

Rafn bendir á þessa frétt á mbl.is (16.03.2014):

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/03/16/semur_log_baedi_i_starfi_og_fritima/

Rafn segir: ,, Í þessari frétt segir að tónskáld sé ráðherra að aðalstarfi og í því starfi sé hlutverk þess lagasmíð. Í mínum huga er þetta rangt. Ráðherra fer með framkvæmdavald en ekki löggjafarvald. Hins vegar gegnir viðkomandi jafnframt starfi þingmanns og sinnir í því starfi löggjafarstörfum. “ Hverju orði sannara, bætir Molaskrifari við og þakkar Rafni sendinguna.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (16.03.2014) var sagt að ef hætt yrði við byggingu fyrirhugaðs háhýsis við Skúlagötu í Reykjavík yrði það bæði dýrt og kostnaðarsamt. Molaskrifara er ekki alveg ljós munurinn á því sem er dýrt og því sem er kostnaðarsamt.

 

Gísli Marteinn þarf ekki að hrópa á okkur, þegar hann er að kynna þátttakendur í Ríkissjónvarpsþætti sínum Sunnudagsmorgni. Svona vinsamleg ábending.

 

Ágætur veðurfræðingur, Birta Líf, ætti að reyna að venja sig af því að færa  áherslu yfir á síðari hluta samsettra orða. Önnur vinsamleg ábending.

 

Af visir.is (17.03.2013): Hún tók spurningum blaðamanns Vísis fremur óstinnt upp þegar frétt Eyjunnar var nefnd. Hér hefði verið rétt, að mati Molaskrifara, að segja: Hún tók spurningar blaðamannsins heldur óstinnt upp. Taka eitthvað óstinnt upp, taka einhverju fálega eða illa. Reiðast einhverju. Viðtalið við aðstoðarframkvæmdastjóra Bændasamtakanna er annars alveg lestursins virði: http://www.visir.is/baendasamtokin-styrkja-tha-sem-theim-synist/article/2014140318987

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>