«

»

Molar um málfar og miðla 1478

 

Real Madrid sigraði meistaradeildina, var sagt í tíu fréttum Ríkisútvarpsins á laugardagskvöld (24.05.2014). Meistaradeildin steinlá! Ætlar íþróttadeildin að aldrei að læra þetta? Hvar er málfarsráðunauturinn? Real Madrid bar sigur úr býtum í meistaradeildinni. Ósköp var að hlusta á þetta , – enn einu sinni.

 

Úr Viðskiptablaðinu (23.05.2014), – sá sem þetta skrifar, kann greinilega ekki að nota viðtengingarhátt:,, Í tilkynningu vegna viðskiptanna segir að fyrirtækið hefur alla tíð verið í eigu fjölskyldunnar”. Ætti að vera: … segir að fyrirtækið hafi alla tíð verið í eigu fjölskyldunnar.

 

Dálítið einkennileg fyrirsögn í Morgunblaðinu (23.05.2014) um álftarvarp við Elliðaárnar: Krúttklak Svanhildar við Elliðaár, – eiginlega óskiljanlegt, nema fréttin sé lesin. Einhverjum finnst þetta sjálfsagt fyndið, – jafnvel krúttlegt! Fyrirsagnir eiga að vera skiljanlegar.

 

Er ekki tímabært að útvarpsstjóri aflétti banni forvera síns á því að nota hið rétta heiti Ríkisútvarpsins? Stofnunin heitir ekki RÚV eins og tönnlast er á. Hún heitir Ríkisútvarpið. Það er er ekki óþjált í framburði, eins og til dæmis heiti norska ríkisútvarpsins, Norsk Rikskringkastning, og enginn tungubrjótur venjulegu fólki. Það er miklu skiljanlegra að Norðmenn tali um NRK en að við tölum sífellt um RÚV.

 

Það er ekki hægt að búa til ,,kemestrí”, segir í fyrirsögn í sunnudagsmogga (25.05.2014). Óskiljanlegt. Jafnvel þeim sem þekkja enska orðið chemistry . Þetta er í svokölluðum Smartland dálki Mörtu Maríu, bls. 41. Þessir dálkar eru jafnan til sérstakrar fyrirmyndar um vandað málfar, eða hitt þó heldur! Þeir eru ekki vandir að virðingu sinni í þessum efnum, þeir Morgunblaðsmenn.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps var nýlega talað um íslenskar heilsugæslur. Ekki kann Molaskrifari að meta það orðalag. Átt var við heilsugæslustöðvar á Íslandi. Hefur reyndar heyrst áður.

 

 

Enn setur Ríkissjónvarpið hlið við hlið á sunnudagskvöldum Ferðastiklur þeirra feðgina, Ómars og Láru og þætti un mannlíf í sveitum við Inndjúp.   Undarleg dagskráruppsetning. Þetta er hvort tveggja gott efni, enda þó ýmsum þyki nokkur fljótaskrift á Stiklunum og of mikill auglýsingakeimur af þáttunum.

Inndjúpsþátturinn í gærkveldi (25.04.2014) var sérdeilis góður. Eins og innlend dagskrárgerð gerist best. Áhugavert mannlíf, sem nú er á hverfanda hveli. Vel gerður þáttur og vel fluttur texti Þóru Arnórsdóttur. Smekkleg samtvinnun viðtalanna við þetta ágæta fólk. Hljóð hefði mátt vera betra og ekki hefði sakað að texta Ráðskonuraunir Indriða, þótt hann væri sannarlega vel skýrmæltur.   En þetta er bara smánöldur um frábæran þátt. Takk.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>