Molavin sendi eftirfarandi: ,,Bjarki Ármannsson skrifar í frétt á Vísi í dag (25.5.14) „…tveir karlar veittust að þeim og börðu þau í höfuð með flöskum í gærnótt…“ Hvaða kemur þetta barnamál, sem einkennir fréttaskrif nú orðið? Það hefur áður verið bent á þetta tiltekna atriði, „í gærnótt“ en leiðbeiningar virðast ekki skila sér. Innan um er margt mjög vel skrifandi ungt fólk við fréttaskrif en það er eins og ekkert eftirlit sé á ritstjórnum. Ef til vill endurspeglar það almennt vaxandi kæruleysi og skort á metnaði.”. Molaskrifari þakkar sendinguna. Barnamálið gærnótt heyrist æ oftar. Skýringuna má að hluta rekja til stjórnenda sem eru metnaðarlausir og værukærir.
Það var nefnt í Molum gærdagsins sem dæmi um sérkennilega samsetningu dagskrár að setja Ferðastiklur Láru og Ómars og Inn-Djúps þættina hlið við hlið á sunnudagskvöldum. Það liggur við að það sé enn sérkennilegra, þegar Ríkissjónvarpsins loksins sýnir fína bíómynd, Pappírstungl (Paper Moon), að setja hana á dagskrá klukkan að ganga tólf á sunnudagskvöldi (25.04.2014). Það er sjaldgæft að sjá kvikmyndir í sjónvarpinu sem fá einkunnina 8,2 á IMDb. Þessa mynd hefði átt að sýna fyrr í kvölddagskránni.
Í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins (25.04.2014) talaði þulur tvisvar sinnum um bandarríska píanóleikarinn Van Cliburn. Í bæði skiptin bar hann nafnið rangt fram, talaði um /van klíbörn/ sem er rangt. Réttur framburður er / van klæbörn/ . Kannski smáatriði, en þau skipta líka máli og þulir eiga að kappkosta að bera nöfn listamanna rétt fram. Það er reyndar fremur sjaldgæft að heyra mistök af þessu tagi í Ríkisútvarpinu.
Á sunnudagskvöld (25.04.2014) var rúmlega fimmtán mínútna langur sérstakur íþróttafréttatími. Það styttist í það með sama áframhaldi, að íþróttafréttatíminni verði lengri en aðalfréttatíminn.
Úr frétt á mbl.is (25.05.2014): ,,Einn lögreglumaður veitti hinum eftirför á fæti. “ Ja, hérna. Lögreglumaður ,, á fæti”!
Hafa setið á samningsfundi, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (26.05.2014) Talað er um samningafundi, ekki samningsfundi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar