«

»

Molar um málfar og miðla 1488

 

Molavin skrifaði (05.06.2014): „Þar hafði verið brot­in rúða og stolið sjóðsvél. Málið í rann­sókn lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.“ (Mbl-frétt 6.6.14) Fréttabörn hafa ekki fengið þjálfun í því að umorða fréttatilkynningar lögreglu. Það segir sig sjálft í frétt um innbrot í hús í Reykjavík hvaða deild lögreglunnar rannsakar málið. Fullkominn óþarfi og málalenging að tala um „lögregluna á höfuðborgarsvæðinu“ – sem er í sjálfu sér afar klúðurslegt heiti. Orðið „sjóðsvél“ er reglugerðarheiti á því sem kallast á mannamáli „peningakassi.“ Stofnanamál er jafnan ólipurt og stríðir gegn málvitund fólks. Mannamál hentar betur í fréttatexta.’’.

 

Molavin sendi svo þessa viðbót seinna sama dag: ,,Það mætti halda að börnin, sem nú eru komin í sumarfrí úr skólum sínum hafi fengið vinnu á Vísi. Svo mjög færast málfarsfjólur þar í vöxt. Í dag (5.6.14) segir frá „hryssumjólk“ þar sem augljóslega er átt við kaplamjólk. Í annari frétt segir: „…utanvegaakstur er fyrst og fremst framkvæmdur af útlendingum á bílaleigujeppum.“ Og er hér aðeins fátt eitt talið af síðu dagsins.”  Molaskrifari þakkar þessar ábendingar.- Það er svo sem eftir þessum útlendingum ,, að framkvæma utanvegaakstur”.

 

Af mbl.is (05.06.2014): ,,Barna­barn hans hef­ur séð um að hirða bíl­ana sam­an og und­ir­búa þá fyr­ir upp­boðið.” Hvað er að hirða bíla saman?

 

Sagt var í fréttum Ríkisútvarps á miðnætti (05.06.2014):  ,, … og forðast ákvarðanir sem geti hamlað möguleika á friðarsamkomulagi”. Þarna hefði að mati Molaskrifa fremur átt að tala um að hamla möguleikum á friðarsamkomulagi.

 

Endalaust rugla menn saman og af. Glöggur lesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi á pressan.is (03.06.2014): ,,Í kvöldfréttur Stöðvar 2 í gær var sagt frá því að lagt hafi verið af forystu Sjálfstæðisflokksins að endurskoða eða slíta samtarfinu til þess að standa vörð um gildi flokksins”. Hér ætti að standa: … lagt hafi verið forystu Sjálfstæðisflokksins. Þar fyrir utan eru tvær villur aðrar í þessari stuttu setningu. Sjá: http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/06/03/bjarni-segist-finna-fyrir-thrystingi-i-hneinu/

 

Ágætur fréttamaður Stöðvar tvö virðist eiga erfitt með að segja saksóknari (06.06.2014), segir alltaf saksónari. Heldur hvimleitt. Talþjálfara ætti ekki að verða skotaskuld úr því að lagfæra þetta.

 

Molaskrifari getur ekki að því gert, en hann veltir því fyrir hversu mikið almennt fréttagildi frásagnir af forræðisdeilu íslenskrar konu og dansks fyrrum eiginmanns hennar hafa. Löngum fréttum af þessu máli hefur verið dengt yfir okkur í velflestum fjölmiðlum. Molaskrifara þykir þetta ekki hafa mikið fréttagildi, nema fyrir þær fjölskyldur sem málinu tengjast.

 

Í nokkra daga hafa veðurfræðingar spáð blíðviðri á föstudag (06.06.06.2014), laugardag og hvítasunnudag. Í blíðunni á föstudag var skondið að heyra fréttamann Ríkisútvarps ræða við veðurfræðing í hádegisfréttum. Veðurfræðingurinn spáði allt að tuttugu stiga hita inn til landsins. Þá spurði fréttamaður: Og er þetta gott ferðaveður? Og ekki var látið þar við sitja, því svo var spurt: … Getur fólk farið í útilegur um þessa helgi? Ja, hérna. Það má eiginlega hafa svolítið gaman af þessu!

Molaskrifari ók austan úr Grímsnesi til Reykjavíkur undir kvöldmat í gær, föstudag. Þá var næstum óslitin bílaröð frá Selfossi að Rauðavatni. Sennilega voru einhverjir að fara í útilegu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það má rétt vera, – en ég orðaði þetta svona vegna þess að ég var á leið að austan til Reykjavíkur.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Hafi nú einhverjir í bílaröðinni löngu verið á leið í útilegu liggur þá ekki beinast við að álykta að bílaröðin hafi náð frá Rauðavatni að Selfossi? Voru þeir ekki annars á leið út úr bænum?

  3. Jón skrifar:

    Útilega eða ekki útilega. Ég fór inn á vef Veðurstofunnar í gær. Í glugga sem nefnist Mesti og minnsti hitiá landinu í dag mátti sjá að mestur hiti var á Þingvöllum, rúm 20 stig, en þar var líka minnsti hitinn, 1,5 stig. Ég efast um að það geti verið gaman að hafast við í tjaldi í þeim „hita“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>