«

»

Molar um málfar og miðla 1492

 

Molavin skrifaði: ,,Af  Netmogga 10.6.14: „… hafi maður­inn verið hand­tek­inn til að tryggja fram­kvæmd ákvörðun­ar­inn­ar um að senda hann til Ítal­íu. Fram­kvæmd­in hafi átt að eiga sér stað klukk­an 01.00…“

Þótt lögregla geti varla skrifað boðlega íslenzku lengur er engin ástæða fyrir fréttamenn að éta orðrétt upp það illskiljanlega stofnanamál, sem frá lögreglu kemur. Sérstaða íslenzks mannamáls byggist á því að nota sagnorð í frásögnum. Nú taka nafnorð yfir. „Að eyða fóstri“ er nú kallað „framkvæmd fóstureyðinga.“ –  Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Við erum eins og tíu ára börn, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps í gærkveldi (12.06.2014). Það er mikið til því. Svo bætti hann við: Þetta er spretta á. Það var og!

 

Í gærkveldi (12.06.2014) hellti Ríkissjónvarpið yfir okkur næstum þremur klukkustundum af fótbolta og fótboltafjasi.  Sjálfsagt er að sýna talsvert af leikjum úr þessari heimsmeistarakeppni, sem fangar hug margra. En japl, jaml og fjas svokallaðra ,,sérfræðinga” ætti eingöngu að flytja á sérstakri íþróttarás, eða bara í útvarpi. Það bætir engu við að sjá þessa snillinga. Það ætti að bjóða þeim mikla fjölda, sem engan áhuga hefur á þessum samtölum, upp á annað efni í þessu sjónvarpi allra landsmanna.

 

Loksins var í fréttum Ríkisútvarpsins (12.06.2014) réttilega talað um gestgjafana , Brasilíu, en ekki gestgjafa Brasilíu eins og íþróttafréttamenn Ríkissjónvarpsins hafa tönnlast á undanfarna daga. Gestgjafar Brasilíu er út í hött, þegar talað er um að heimsmeistaramótið í knattspyrnu fari fram í boði Brasilíumanna.

 

Það er engu líkara en konuröddinni,sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins sé fyrirmunað að fara rétt með heiti garðyrkjuþáttarins Í garðinum með Gurrý. Rangt var enn einu sinni farið með nafn þáttarins á miðvikudagskvöld (11.06.2014). Er alltaf verið að nota gamlar niðursoðnar kynningar? Þetta er ekkert flókið. Bara hafa heiti þáttanna rétt. Þetta er eiginlega bara subbuskapur.

 

,,Þegar svona stórt skip fer undir – gerist ýmislegt sem kennir maður betur um eðlisfræði hafsins” Þetta er tilvitnun í síðuna menn.is sem birtist nýlega á fésbók. Verið var að vísa til þess er Titanic sökk . Ja, hérna. http://menn.is/svona-sokk-titanik-nakvaemlega-myndband/

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>