«

»

Molar um málfar og miðla 1513

Molavin skrifaði: ,,Í frétt DV (07.07.14) um eggjasósufyrirtækið Gunnars Majónes segir svo: „Síðan þá hefur sigið á ógæfuhliðina og er kennitala fyrirtækisins nú komin í þrot.“ Þetta er ekki aðeins rangt heldur mjög villandi. Kennitala hefur engan rekstur. Það er fyrirtækið, sem er komið í þrot. Það var stofnað nýtt fyrirtæki, sem fékk að sjálfsögðu aðra kennitölu. Fjölmiðlar verða að útskýra mál fyrir fólki, ekki flækja þau. Kennitala er aðeins skráningarauðkenni fólks og fyrirtækja, rétt eins og bílnúmer er auðkenni bíls.”  Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Fyrirsögn á bls. 2 í Morgunblaðinu (07.07.2014): Fleiri tonn og hundrað manns með Timberlake. Fréttin er um tónleika Justins Timberlake sem fram fara 24. ágúst. Orðalagið fleiri tonn segir okkur nákvæmlega ekkert um magn farangurs og tækja sem fylgir söngvaranum. Fleiri tonn en hvað? Þetta var eitt af því fyrsta sem manni var kennt að forðast á fyrstu starfsdögunum í blaðamennsku,  hér endur fyrir löngu.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (06.07.2014) fra sagt frá ökumanni sem hætta þurfti keppni í kappakstri vegna vandræða í gírkassa! Þetta var betur orðað í íþróttaþætti Ríkissjónvarps sama kvöld.

 

Borgarstjórinn í Reykjavík skrifaði á fésbók (07.07.2014): … eftir að hafa kynnt mér aðstæður á vettvangi brunans í Skeifunni í morgun … Vettvangur brunans. Dæmigert stofnanamál. Borgarstjórinn kynnti sér aðstæður á brunastað. Skoðaði brunarústirnar. Meira stofnanamál úr fréttum Ríkissjónvarps sama dag um sama mál: Slökkviliðið afhenti lögreglu vettvanginn!! Hvernig skyldi sú afhending hafa farið fram?

 

Mistækur þulur(sem er undantekning) sagði í Ríkisútvarpinu fyrir fréttir á mánudag (07.07.2014: Það var kvartettinn Perluvinir sem sungu. Kvartettinn söng.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (07.07.2014) talaði fulltrúi reiknihóps um jarðgangnagerð í tengslum við  fluglest milli Reykjavíkur og flugstöðvarinnar í Miðnesheiði. Hefði átt að vera jarðgangagerð. Göng ef. ganga. Göngur ef. gangna. Það er hægt að reikna hvað sem er. Fyrst velja menn sér fallega útkomu og finna síðan forsendur út frá henni.

 

Í yfirliti á undan og í lok frétta í Ríkissjónvarpi var sagt (um skort  á nautakjöti á Íslandi) að matreiðslumenn á Íslandi neyddust til að bjóða upp á erlent nautkjöt. Það er nú meiri nauðungin! Gildishlaðið orðalag af þessu tagi á ekkert erindi í fréttir. Hvar er fagmennskan, fréttastofa? Í þessum fréttatíma talaði fréttamaður um að forða stórslysi. Molaskrifara var á sínum tíma kennt að forðast þetta orðalag. Hann hefur reynt það eftir bestu getu. Hvað segir málfarsráðunautur?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>