«

»

Molar um málfar og miðla 1535

KÞ benti á eftirfarandi á bleikt.is á pressan.is (04.08.2014) og segir: ,, Óttalega er þetta hringlóttur texti”: http://bleikt.pressan.is/lesa/hefur-thu-verid-ad-opna-appelsinu-vitlaust-allt-thitt-lif/

,,Hvernig opnar þú appelsínu? Þetta er nú jafnvel ekkert stórmál en ef þú gætir einfaldað þér klístraðar hendur og appelsínusafann á bolnum þínum þá væri lífið örlítið einfaldara ekki satt? Hér er frábær leið til að opna appelsínu á einfaldan hátt og til að toppa það þá græðir þú fallegt appelsínugult hringlótt kerti úr börkinum! Sniðugt ekki satt?” Molaskrifari þakkar sendinguna. Það er ekki öll vitleysan eins! Hér er það ekki eitt. Heldur næstum allt.

 

Fimmta ferð Herjólfs er að skríða hérna upp að Landeyjahöfn, sagði fréttamaður í hádegisfréttum Ríkisútvarps (04.08.2014). Ekki mjög vandað málfar.

 

Guðmundur sendi Molum línu (04.08.2014) og segir: ,, Ég held að þú hefðir áhuga á að lesa þetta:
„… háttvirtur formaðurinn telur ekkert liggja á. Ég er hjartanlega ósammála því, það bráðliggur á því,“ skrifar Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Facebook. – Svo ákveðinn er þingmaðurinn í að beygja sig ekki í málinu að hann flaskar alveg á að fallbeygja „háttvirtur formaðurinn“, Tímanna tákn? En þetta er auðvitað hans eigin fésbókarsíða.”. Molaskrifari þakkar sendinguna, en áttar sig ekki alveg á athugasemdinni. Formaðurinn telur að ekkert liggi á ???

Sjá: http://www.visir.is/article/20140803/FRETTIR01/140809812

 

Fólki er ráðlagt frá því að fara … var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (04.08.2014). Ekki rangt. En hefði hekki farið betur á því að segja , til dæmis: Fólki er ráðlagt að fara ekki , – eða fólki er ráðið frá því að fara ? Sama orðalag var notað í fréttum Stöðvar tvö um kvöldið. Fréttin sjálfsagt notuð óbreytt frá því fyrr um daginn.

 

Hversvegna er ekki hægt að hafa notalega tónlist á dagskrá á Rás eitt milli klukkan ellefu og tólf á kvöldin å virkum dögum ? Í staðinn fyrir endurfluttan dægurmálaþátt frá því fyrr um daginn. Ekki tekur betra við eftir miðnættið. Þá er endurfluttur Spegillinn frá því fyrr sama kvöld. Þetta er ekki mjög góð dagskrárgerð að mati Molaskrifara. Hvað segja hlustendakannanir? Hve margir og hvaða aldurshópar eru að hlusta á Rás eitt milli ellefu og miðnættis? Fróðlegt væri að fá að heyra það, en sennilega er það leyndarmál gagnvart okkur hlustendum eins og svo margt í rekstri þessarar stofnunar, sem á að heita í eigu þjóðarinnar.

 

Það var rangt, sem sagt var í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld, (04.08.2014) að fyrri heimsstyrjöldinni hefði lokið 11. desember 1918. Fyrri heimsstyrjöldinni lauk ellefta nóvember 1918. 11.11. 1918 Reyndar mun vopnahléssamningur hafa verið undirritaður klukkan 11 00 þann dag. Það á að hafa söguna rétta.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>