«

»

Molar um málfar og miðla 1543

 

Rafn skrifaði (13.08.2014): „Sagt er: ,,x hefur veitt fjármunum til verkefnisins. Á að vera veitt fjármuni til verkefnisins. Fjármunir eru ekki vatn. Menn veita vatni á akra, en veita peninga til verka”. Molaskrifari þakkar þarfar ábendingar.“

Einhverra hluta vegna stóð ég í þeirri trú, að það hefði verð veitt fé til þess verks, sem um er rætt. Ég hefi ekki orðið þess var að „fjárveitingaaðilar“ (fyrirgefðu orðskrípið) gerðu mikið af því að útdeila fjármunum, þótt vissulega megi nýta veitt fé til fjármunakaupa. – Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.

 

Sigurður Sigurðarson skrifaði (13.08.2014): ,,Framherjinn Guðjón Baldvinsson mun gerast lærisveinn Ólafs Kristjánssonar hjá danska úrvalsdeildarfélaginu Nordsjælland í vetur ef að líkum lætur. Nordsjælland freistaði þess á dögunum að fá Guðjón frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Halmstad strax í sumar en án árangurs.

 

Svo segir í íþróttablaði Morgunblaðsins 13. ágúst 2014. Leikmenn íþróttaliða eru ekki lærisveinar þjálfarans, sérstaklega ekki þegar þeir eru að hluta eða öllu leiti atvinnumenn í íþrótt sinni. Og jafnvel áhugamannalið byggja ekki á lærisveinum.

Þjálfarinn er verkstjórinn og leikmenn eru starfsmenn jafnvel þó þeir geti lært sitt af hverju af þjálfaranum þá er það oft þannig að sá síðarnefndi lærir líka af hinum.

Þetta er eins og að halda því fram að fréttamenn á Ríkisútvarpinu séu lærisveinar fréttastjórans svo dæmi sé tekið.” Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið.

 

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1700 á mánudag (11.08.2014) sagði fréttamaður í fyrra sumar. Hrós fyrir það. Nær alltaf er sagt nú orðið, – upp á enska vísu,- síðasta sumar. Molaskrifari heyrði því miður ekki hver það er, sem á hrósið skilið. Hann kom inn í miðjan fréttatímann og heyrði lesara ekki kynntan. . Fréttatíminn er ekki aðgengilegur á netinu.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps 813.08.2014): var sagt : … ekki megi greiða fjármuni úr ríkissjóði án fenginni heimild Alþingis. Hér hefði átt að segja, – til dæmis: .. ekki megi greiða fjármuni úr ríkissjóði án heimildar Alþingis, – eða ekki megi greiða fjármuni úr ríkissjóði nema að fenginn heimild Alþingis. Fleira var reyndar athugavert við orðalag í þessum fréttatíma.

 

Á þriðjudagskvöld ( 12.08.2014) var í fréttum Ríkissjónvarps talað um að brúa gat. Ekki kann Molaskrifari að meta það orðalag. Menn brúa bil, fylla upp í göt, eða loka götum. Hefur verið nefnt áður í Molum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>