«

»

Molar um málfar og miðla 1544

Það er sannarlega þakkarvert að Vodafone á Íslandi skuli nú hafa byrjað útsendingar á BBC World Service fréttarásinni á FM 103,5. Áður mun 365 hafa séð um þetta, en sprakk á limminu. Enginn hagnaður í augsýn. Takk Vodafone.

Það er gott að hafa aðgang að fréttum , þótt á ensku sé, allan sólarhringinn. Aumingjaskapur og metnaðarleysi Ríkisútvarpsins okkar kristallast í yfirlýsingunni sem við heyrum á hverju kvöldi í lok frétta á  miðnætti: Næstu fréttir verða klukkan sjö í fyrramálið. Sennilega er þetta met hjá útvarpsstöð sem rekin er fyrir almannafé og á að halda uppi fréttaþjónustu allan sólarhringinn. Það svíkst Ríkisútvarpið um að gera . Og kemst upp með það. Í morgun (16.08.2014) féll reyndar niður í útsendingu upphaf fréttatímans klukkan sjö. Engin afsökun. Engin skýring. Ekki frekar en fyrri daginn. Kannski tók enginn eftir þessu í Efstaleitinu.

 

Edda sendi Molum línu (14.08.2014) vegna fréttar í Ríkisútvarpinu. Hún segir:

,,Frétt á Rúv áðan, vegna leitar að ungum manni sem er með stutt SKOLHÆRT hár”. Skolhært hár!. Það var og. Þakka ábendinguna.

 

Úr fréttum Stöðvar tvö (13.08.2014): Þessum svörum fylgdi þó ekki hver afdrif málanna varð.  Molaskrifari er á því að hér hefði átt að segja: ….  hver afdrif málanna urðu.

 

Ofnotkun orðsins staðsettur er algeng. Í morgunþætti Rásar eitt (14.08.2014) var okkur sagt frá golfvelli sem væri staðsettur 15 km fyrir utan Brighton. Golfvöllurinn var 15 km fyrir utan Brighton.

 

Íþróttafréttamenn hafa mikið dálæti á orðunum varnarlega og sóknarlega. Í Morgunblaðinu á fimmtudag (14.08.2014) var haft eftir upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar að ,,júlímánuður hafi verið mjög erfiður veðurfarslega”. Hann átti við, að vegna veðurs í júlí hefði verið erfitt að vinna við malbikun.

 

Ekki gat Molaskrifari betur heyrt en dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins segði í útvarpsviðtali (14.08.2014), að bænir í útvarpi væru barn síns tíma. Nútímastefna, eða módernismi hafa greinilega tekið völdin í Ríkisútvarpinu. Var þessi stutta morgunbæn fyrir einhverjum? Borið var við lítilli hlustun. Hvernig væri nú að gera hlustendakannanir Ríkisútvarps, fyrir bæði útvarp og sjónvarp aðgengilegar á netinu? Það væri fróðlegt að sjá þær tölur, ekki síst hvað sjónvarpið áhrærir. Molaskrifari sendi  (15.08.2014)  dagskrárstjóra Ríkisútvarpsins fyrirspurn í tölvupósti um hlustendafjölda þeirra þátta, sem nú á að fella niður. Þeirri  fyrirspurn hefur ekki verið svarað.

Þetta eru sjálfsagt ríkisleyndarmál, sem hlustendum og eigendum Ríkisútvarpsins koma ekkert við. Einkamál starfsmanna.

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (14.08.2014) var sagt: NN ræddi við NN fréttamann. Molaskrifari hefði haldið að þetta hefði átt að vera á hinn veginn: NN fréttamaður ræddi við NN. Kannski var verið að taka viðtal við fréttamanninn.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>