K.Þ Bendir á frétt á visir.is 819.08.2014), en þar segir m.a. ,,Frá því í morgun hefur hins vegar dregið verulega úr skjálftum í norðari þyrpingunni. Mikil virkni er þú enn í austari þyrpingunni.” Orðabókin gerir ekki athugasemd við norðari, en austari fann Molaskrifari þar ekki. Telur þó bæði orðin algeng í talmáli, þótt flestir segi nyrðri og eystri. Þakka K.Þ. bréfið.
Það kom berlega í ljós um síðustu helgi, þegar Lagarfoss Eimskipafélags Íslands kom til landsins, hversu lélega fjölmiðlun við búum við. Ríkissjónvarpið sagði okkur að skipið sigldi undir fána Nýfundnalands! Þeirri firru voru gerð skil í Molum 1545 sl. mánudag. Á visir.is var talað um vígsluathöfn! ,, Að lokinni vígsluathöfn bauðst almenningi að skoða nýjasta skipið í skipaflota okkar Íslendinga sem fjölmargir nýttu sér”. Það var engin vígsla, þótt prestur blessaði skipið, en dálítið hallærislegt að fá konu til að gefa skipinu nafn! Það var búið að gefa skipinu nafn áður en það fór frá Kína fyrir mörgum vikum. Svo er þetta skip ekki í skipaflota okkar. Þetta er hentifánaskip. Skráð í Vestur Indíum.
Morgunblaðið sagði í fimm dálka fyrirsögn á mánudag (18.08.2014) Lagarfoss er kominn heim. Þetta er út í hött. Skipið hefur ekki heimhöfn á Íslandi og Eimskipafélag Íslands er ekki lengur í eigu Íslendinga. Þarna kristallast hve léleg vinnubrögð viðgangast stundum á íslenskum fjölmiðlum. Sjá: http://www.visir.is/bodar-endurnyjun-skipaflota-eimskips/article/2014140819114
,, Hið sögufræga Gröndalshús verður komið fyrir í Grjótaþorpinu að Vesturgötu 5. “ Af mbl.is (18.08.2014). Jæja, Moggi. Þorði fréttaskrifarinn ekki að byrjan fréttina rétt? ,,Hinu sögufræga Gröndalshúsi verður komið fyrir …”? Les enginn yfir? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/18/grondalshus_a_nyjan_stad/
Nokkuð algengt er að netmiðlar birti myndir með fréttum, sem ekkert tengjast fréttinni. Á mánudag (18.07.2014) var frétt á mbl.is um tvær flutningalestir, sem skullu saman, í Bandaríkjunum. Með fréttinni var mynd af lest, sem greinilega var farþegalest eins og notaðar eru innan borgarsvæða eða á stuttum leiðum. Ekki vöruflutningalest.
Ekki fagleg vinnubrögð. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/08/18/tveir_forust_thegar_lestir_skullu_saman/
Fiskalíf dafnar í Jökulsá á Dal segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu (19.08.2014) Fiskalíf? Er ekki átt við að fiskur dafni vel í ánni, veiði sé góð eða að glæðast? Sennilega.
Mál Dagnýjar og Samuels svipar til mála sem fjallað var um í fjölmiðlum í maí síðastliðnum. Úr DV (19.-21.08.2014). Hér hefði átt að standa: Máli Dagnýjar og Samuels svipar til mála, …. Enginn les yfir. Ekki frekar en fyrri daginn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar